
Mánaða undirbúningur
Tvær nefndir hafa yfirumsjón með athöfninni en vinnan hefur staðið yfir frá því seint í september. Lögreglumenn og hermenn standa vaktina í tugþúsunda tali en hermennirnir sjá einnig um að spila í lúðrasveitum, marsera í takt og skjóta heiðursskotum úr fallbyssum.

Þó forsetar Bandaríkjanna taki við embætti í Washington D.C. var reyndin ekki sú um manninn sem borgin er nefnd eftir. Fyrsti forsetinn, George Washington, tók við embætti í New York árið 1789, á tröppum ráðhússins þar í borg. Washington fékk fréttirnar af því að hann hefði verið kjörinn forseti nokkrum dögum eftir að það var ákveðið. Menn voru óákveðnir um titilinn sem fylgja átti nýja embættinu. Sumir vildu tala um „hans góðviljuðu hátign“ en þingnefnd ákvað að rétti titillinn væri „forseti Bandaríkjanna.“ Það var Thomas Jefferson sem fyrstur tók við embættinu í Washington, árið 1801.

Verkfall í þingi og skemmtanabransa
Fjölmargir sem venjulega mæta á slíkar athafnir ætla nú að sitja heima. Milli fimmtíu og sextíu þingmenn Demókrata munu ekki mæta á athöfn Trumps og hafa verið duglegir við að lýsa ástæðum sínum á samfélagsmiðlum síðustu daga. Fjölmargir tónlistarmenn afþökkuðu boð um að leika tónlist fyrir nýja forsetann umdeilda, meðal þeirra eru Celine Dion, Elton John og Moby. Í stað þeirra koma fram til dæmis danshópurinn The Rockettes, hljómsveitin 3 Doors Down og sveitasöngvarinn Lee Greenwood.

Í skjóli þingsins
Þó völd forsetans bandaríska séu mikil fer athöfnin samt fram á tröppum þingsins og hefur gert það síðan Andrew Jackson tók við embætti 1829. Þannig er undirstrikað að forsetinn sé þjónn fólksins í landinu. Lengi vel gengu forsetarnir til athafnarinnar með höfuðfat, oft pípuhatt, en síðastur til þess var John F. Kennedy árið 1961.

Hættuleg ræða
Frægt er að forsetinn William Henry Harrison flutti lengstu innsetningarræðu sögunnar árið 1841. Ræðan var 10000 orð á lengd, en gera má ráð fyrir vel rúmri klukkustund í flutningi. Þetta var að vetri til og forsetinn nýi var ekki með hatt, í yfirhöfn eða með hanska. Lungnabólga lagði hann að velli mánuði síðar.
Allt í beinni
Auðvitað er í dag sýnt beint frá athöfninni en fyrst var útvarpað frá henni árið 1925 þegar Calvin Coolidge tók við embætti. Harry Truman hélt fyrstur sína innsetningarræðu í sjónvarpi en það var Kennedy sem naut sín fyrstur í lit 1961 og Bill Clinton tók netstreymi í sína þjónustu 1997.
Guð blessar allt saman
Við innsetningarathafnir er trúin allt umlykjandi. Sex trúarleiðtogar munu mæta núna og vitna til um að allt fari rétt fram hjá Trump. Kristnar kirkjudeildir eiga þarna sína fulltrúa en líka gyðingdómurinn (þrátt fyrir lítinn stuðning gyðinga við nýja forsetann) og þar eru líka trúarleiðtogar úr kirkjudeildum þeirra sem eru af spænskum ættum. Eiðurinn sem forsetinn fer með endar auðvitað á orðunum: „Svo hjálpi mér Guð.“ Það er forseti hæstaréttar, John Roberts, sem hlýðir honum yfir.

Risa skrúðganga
Allt frá 1805, þegar Thomas Jefferson tók í annað sinn við embætti, hefur bandaríski herinn þrammað í takt til heiðurs nýjum forseta. Í dag taka ríflega 8000 manns þátt í skrúðgöngunni og passað er upp á þar eigi öll fylki landsins sína fulltrúa. Í göngunni eru ekki bara hermenn heldur taka nemendur skóla og háskóla, sjúkraliðar, slökkviliðsmenn og fyrrum hermenn líka þátt.

Ball um kvöldið
Að kvöldi innsetningardagsins er auðvitað haldið ball og ljóst að gleðimaðurinn Donald Trump mun ekki láta það tækifæri sleppa. Reyndar eru þrjú böll samþykkt að þessu sinni í Washington en fjölmörg önnur er að finna víða um landið og þau hafa reyndar verið haldin af ýmsum hópum síðustu daga. Fyrsta ballið héldu Madison hjónin 1809 og þá kostaði 4 dollara inn.