Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Heimurinn á Chelsea Manning margt að þakka

$
0
0

Ungi maðurinn Bradley Manning var ólíkur öllum erkitýpum hermanna, lágvaxinn, grannvaxinn og fínlegur. Á næstu misserum átti hann eftir að þola margra mánaða einangrunarvist og ómannúðlega meðferð í aðstæðum sem sérstakur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum pyntinga skilgreindi sem slíkar. Manning var ekki bara pyntaður. Eftir langa mæðu var hann dreginn fyrir dóm, herrétt, ákærður á grundvelli harðneskjulegrar og fornrar njósnalöggjafar sem í ýtrustu dæmum fólu í sér dauðarefsingu. Hann var sakfelldur og dæmdur í fáheyrða refsingu; 35 ára fangelsi.
Manning hætti að vera Bradley og kallaði sig Chelsea. Hann hafði glímt við baráttu um eigin kynvitund og varð transkona; vildi kynbreytingu en var hafnað um slíka meðferð af fangelsisyfirvöldum. Chelsea þurfti að sækja rétt á þeirri meðferð með fulltingi dómstóla og hafði sigur. Samt hefur hún verið pínd áfram, nú með því að vera kona lokuð inn í karlafangelsi.
Síðustu misseri hafa verið erfið og vitað er um tvær sjálfsvígstilraunir sem, eins kaldranalegt og að hljómar, hefur verið refsað fyrir með einangrunarvist. Manning reyndi að fá mildun refsingar í skilorðsferli en var hafnað. Hún brá loks á það ráð að biðla til eina fulltrúa hins gallharða ríkisvalds sem gat orðið henni að liði; Obama Bandaríkjaforseta. Hún bað um að fá að byrja að lifa. Hún hafði aldrei náð því. Í vikunni, rétt rúmlega tveimur sólarhringum áður en Obama lét af embætti, varð forsetinn við beiðninni. Dómurinn yfir Chelsea skyldi styttur úr 35 árum í 7. Hún verður því frjáls 17. maí næstkomandi, nema eitthvað óvænt gerist. Ung, tæplega þrítug kona getur þá gengið út um fangelsishliðið og byrjað að lifa. Hún getur gengið stolt og hnarreist því fáar konur hafa breytt jafnmiklu á síðari tímum. Það hefur þó verið dýru verði keypt.

Uppljóstrarinn

Chelsea var sakfelld fyrr að veita WikiLeaks upplýsingar sem birtar voru 2010 og 2011; upplýsingar sem bæði með eðli sínu og inntaki breyttu heiminum. Upplýsingamiðlunin var ekki gerð til sjálfsupphafningar eða í hagnaðarskyni; hún var drifin áfram af ríkri og þroskaðri réttlætiskennd sem hefur birst í ýmsum myndum síðan.
Gögnin sem Manning játaði að hafa miðlað voru grundvöllur heimsfrétta. Í ágúst 2010 birtust 90 þúsund hernaðarskýrslur úr stríðinu í Afganistan. Fjölmiðlar kölluðu þetta mesta hernaðarleka sögunnar. Hann var það ekki lengi. Í október birtust sambærilegar skýrslur frá stríðsrekstrinum í Írak en mun fleiri eða 400.000 talsins.
Undir lok árs féll svo stærsta upplýsingasprengjan; upphafið að margra mánaða ferli í birtingu 250 þúsund skjala frá sendiráðum Bandaríkjanna um allan heim.
Veröldin fór á annan endann; Hillary Clinton, þáverandi utanríkisráðherra, þurfti að leggja nótt við dag í að hringja í þjóðarleiðtoga um allan heim til að biðja þá afsökunar á þeim lýsingum, sumum ófögrum, sem hennar eigið starfsfólk dró upp af þeim. Hún baðst þó aldrei afsökunar á því að hafa sett nafn sitt við fyrirskipun um að utanríkisþjónustan safnaði gögnum, persónuupplýsingum og jafnvel DNA sýnum frá fulltrúum Sameinuðu þjóðanna.
Allar þessar upplýsingar voru birtar í víðtækara samstarfi fjölmiðla en áður hafði þekkst. Þegar yfir lauk voru yfir 100 fjölmiðlar í samstarfi við WikiLeaks um greiningu og birtingu gagnanna.

Pyntingar skráðar

Hernaðarupplýsingarnar frá stríðunum í Afganistan og Írak gáfu dekkri mynd af atburðunum en áður hefði birst almenningi. Í Afganistan sýndu gögnin hvernig bandarískar aftökusveitir athöfnuðu sig í landinu; hvernig slælegar upplýsingar leiddu til þess að saklaust fólk var stráfellt, jafnvel heilu þorpin jöfnuð við jörðu.

Í Írak vöktu einna mesta athygli upplýsingar sem kipptu teppinu undan síðustu réttlætingunni, þó veik væri, fyrir því að stjórn Saddams Hussein hefði verið steypt. Fyrri réttlætingar fyrir innrásinni í Írak 2003 höfðu fyrir löngu fjarað út; þær að Saddam væri í slagtogi við Al-Kaída sem bar ábyrgð á árásinni á tvíburaturnana 11. september 2001 og því að harðstjórinn væri komin með, eða komin á fremsta hlunn með að verða sér út um getu til að beita gereyðingarvopnum í árásarstríði.
Hin veika réttlæting fyrir því að steypa Saddam á grundvelli þess að hann væri harðstjóri sem vílaði ekki fyrir sér að beita pyntingum eða drepa eigin þegna, fjaraði út þegar vitnaðist við opinberun skjala að arftakinn, Al Maliki, sem bandarísk yfirvöld komu til valda, ríkti yfir stjórn sem var tæpast miklu skárri. Það versta var að Bandaríkjaher hafði fulla vissu um að fangar sættu skelfilegum pyntingum og aftökum í fangelsum í Írak, héldu skrá yfir atvikin en var fyrirskipað að grípa ekki inn í. Það versta var að Bandaríkjaher var sá aðili sem helst fóðraði íraskar pyntingasveitir á föngum, fullvitandi um örlög þeirra.
Seinna sagði Chelsea Manning frá því að þetta hefði verið ein helsta ástæðan fyrir því að hún ákvað að miðla gögnum. Sem greinandi hjá hernum vissi hún að eigin liðsmenn hirtu jafnvel upp fólk sem hafði ekki unnið sér annað til saka en að dreifa pólitískum andófsritum en voru síðan afhentir stjórnvöldum í Írak, stimplaðir hryðjuverkamenn.

Kveikið í þeim öllum

Fyrsta birtingin á gögnum sem Manning var sökuð um að hafa lekið var þó einfalt myndband en ekki hundruð þúsunda gagna. Þetta var hið alræmda myndband sem sýnir árás áhafna á Apache árásarþyrlu á hóp borgara í Bagdad í júlí 2007. Myndbandið var birt á netinu 5. apríl 2010 og var það fyrsta sem vakti verulega athygli í göngum sem rakin voru til Mannings. Myndbandið hlaut titilinn Collateral Murder, með vísan til þess kæruleysislega orðfæris sem notað er af herjum til að lýsa stráfellingu saklausra borgara.
Úrvinnsla og greining á þessu myndbandi fór fram í Reykjavík af sjálfsboðaliðum WikiLeaks í samstarfi við greinarhöfund sem þá var starfandi fréttamaður hjá sjónvarpi RÚV.

Tveir starfsmenn Reuters fréttastofunnar voru myrtir í þyrluárásinni þegar Apache sveitirnar létu litlum sprengjukúlum rigna yfir hóp manna. Þyrluáhafnirnar töldu að löng linsa Reutersljósmyndarans Namir Noor-Eldin væri vopn. Af samskiptum milli hermanna þyrlurnar, sem fylgdi myndbandinu, mátti greina hversu áfjáðir þeir voru í að slátra; eins og spenntir menn í tölvuleik úr sinni öruggu fjarlægð í 700 metra hæð. „Kveikið í þeim öllum“, var fyrirskipunin sem flugstjórinn gaf skyttunni sinni sem opnaði fyrir helvítisregn af himnum.
Einhvern vegin tókst Saeed Chmagh, aðstoðarmanni Namirs hjá Reuters, að lifa upphafsárásina af. Hann sést á myndskeiðum þyrlumyndbandsins skríða helsærður eftir gangstétt. Allan tímann er þyrluskyttan með sigtið á baki honum og pirrings gætir að ekki sé hægt að „klára“ verkið en til þess þurfti að minnsta kosti einhverja ástæðu. „Þú þarft bara að pikka upp vopn, félagi,“ heyrist skyttan segja kaldranalega, ólmur í að fá að taka í gikkinn.
Þessi í stað drífur að sendibíll og út stökkva menn og stumra yfir Saeed. Þar var á ferð Matasher Thomal, fjölskyldufaðir úr hverfinu, sem var að skutla börnum sínum tveimur í fræðslutíma en hafði gefið nágrönnum far.

Sprengjukúlunum rigndi yfir bílinn. Allir fullorðnir voru drepnir en fyrir eitthvert kraftaverk lifðu börnin tvö, systkinin Saeed og Doha, af árásina. Þau sátu í framsæti bílsins en pabbi þeirra hafði kastað sér yfir þau til að skýla þeim. Þau fengu samt í sig sprengjubrot og sködduðust illa, einkum litla stúlkan Doha sem enn var að kljást við afleiðingar sára sinna þegar sjónvarpsmenn RÚV, greinarhöfundur og Ingi Ragnar Ingason kvikmyndagerðarmaður, hittu hana og bróður hennar í Bagdad þremur árum eftir þennan stríðsglæp.

Byltingin í Túnis

Það kraumaði undir víða í hinum múslimska heimi þegar leið að lokum 2010. Þetta voru hræringar sem spruttu úr grasrótinni, drifnar áfram á samfélagsmiðlum og fólu í sér kröfu um réttlátara samfélag og heiðarlegra stjórnarfar. Þessar hræringar fengu nafnið Arabíska vorið. Í Túnis hafa aðgerðarsinnar greint frá því hvernig upplýsingar sem birtust í bandarískum sendiráðsskjölum, um gerspillt stjórnarfar einræðisklíku Ben-Ali stjórnarinnar, var dreift og miðlað; ýttu þar með undir mótmæli sem stigmögnuðust dag frá degi. Þær náðu hápunkti í janúar 2011 og í kjölfarið varð Ben-Alí klíkan að flýja land.
Atburðirnir í Túnis höfðu dómínóáhrif og innan nokkurra mánaða logaði arabaheimurinn í uppreisnum fólks. Þær hafa víða farið í skelfilegan farveg með bakslögum og borgarastríðum en eldar af þessu tagi, þegar þeir hafa einu sinni verið kveiktir, deyja seint.
Uppljóstranir sem rekja má til Mannings urðu tundrið sem kveikti þessa elda.

Herrétturinn

Hefðbundir fjölmiðlar létu sig að mestu vanta við réttarhöldin yfir Chelsea Manning. Áhugaleysi þeirra var til skammar. Freedom of the Press Foundation safnaði fjármunum til að greiða fyrir hraðritara sem skrifaði réttarhöldin upp og sjálfboðaliðar og aðgerðarsinnar sáu um að koma upplýsingum á netið.
Eins og David Coombs, lögmaður Mannings, benti síðar á fannst honum allan tímann eins og WikiLeaks væri einn sakborninga við réttarhöldin. Þar, eins og í stífum yfirheyrslum áður eftir margra mánaða einangrun, var reynt að fá Chelsea til að koma meðsekt yfir á Julian Assange. Reynt að þvinga fram þá skýringu að Assange hefði á einhvern hátt ýtt á og hvatt Manning áfram – jafnvel platað hann til verknaðar.
Það er ekki nokkrum vafa undirorpið að reynt var að fá Manning til að koma sök að hluta yfir á Assange, efalítið gegn því að milda eigin sök og sleppa betur. Chelsea Manning féll aldrei fyrir slíkum gylliboðum og greindi rétt frá eigin vilja og þrá til að koma sannleikanum upp á yfirborðið. Það þarf sterk bein, kjark og djúpa réttlætiskennd að standast slíkan þrýsting. Hún stóðst það próf.
David Coombs hefur sagt að seinna meir eigi fjölmiðlar eftir að átta sig á því að eðli réttarhaldanna var djúpstæðara en að refsa einum uppljóstrara; þetta voru öðrum þræði réttarhöld yfir frjálsri fjölmiðlun.

Dómurinn yfir Chelsea Manning, 35 ára fangelsi, var skelfilega þungur. Henni var meinað að haga vörn sinni með því að vísa í almannahagsuni gjörða sinna, sem í sjálfu sér er gróft mannréttindabrot. Hún hefur þegar setið inni í meira en sex og hálft ár. Þrátt fyrir digurbarkalegan áróður um að upplýsingar sem hún hlaut dóm fyrir að leka hafi valdið stórfelldum mannskaða hefur ekki verið bent á eitt einasta dæmi.
Eini skaðinn er að rista glufu í falsgrímuna sem hylur ófagurt andlit valdsins.

Assange og Chelsea

Allt frá stóru lekunum árið 2010 hefur WikiLeaks verið til rannsóknar bandaríska dómsmálaráðuneytisins fyrir rannsóknardómstóli sem vinnur bak við luktar dyr.
Fyrir 2-3 árum taldi skjalabunkinn með meintum gögnum 30-40 þúsund blaðsíður. Efalítið hefur bæst vel við.
Staðfest er að rannsóknin beinist gegn nokkrum einstaklingum sem skilgreindir eru sem stjórnendur og stofnendur WikiLeaks. Telja má fullvíst að greinarhöfundur sé einn þeirra sem sæta grun.

Ljóst er að rannsókn bandaríska dómsmálaráðuneytisins beinist fyrst og fremst að því að hafa hendur í hári Julian Assange, stofnanda WikiLeaks. Hann hefur verið í hálfgerðu stofufangelsi í sendiráði Ekvador í Lundúnum í fjögur og hálft ár. Ekvador veitti honum diplómatískt hæli eftir vandlega skoðun á þeim grundvelli að raunveruleg hætta væri á framsali til Bandaríkjanna ef hann yrði þvingaður til að fara til Svíþjóðar til yfirheyrslu í meintu kynferðisbrotamáli.
Sænsk yfirvöld hafa allt þar til fyrir örfáum vikum þverneitað að taka skýrslu af Assange með fjarfundarbúnaði eða með því að mæta til Lundúna.
Fyrir tæpu ári komst úrskurðardómstóll á vegum Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna að þeirri niðurstöðu að Svíþjóð og Bretland bæru, með vísan til almennra mannréttindasamninga, ábyrgð á ólögmætri frelsissviptingu Julian Assange.
Til þessa hafa Svíar hunsað úrskurðinn, Bretland áfrýjaði honum en tapaði áfrýjuninni. Staða Assange er því óbreytt.
Þegar ljóst var að mikill þrýstingur var að myndast á Barak Obama að náða Chelsea Manning á lokametrum sínum í embætti lét Assange þau boð út ganga að hann myndi mæta örlögum sínum gagnvart ákæru í Bandaríkjunum ef Manning yrði veitt frelsi. Nú þegar stefnir í að Chelsea verði laus í maí hefur lögmaður Assange ítrekað að hann standi við þau fyrirheit en um leið ítrekað að hann telji sakarannsóknina tilhæfulausa og hvatt til þess að henni verði lokað.
Fyrrverandi saksóknarar í Bandaríkjunum hafa bent á það í samtölum við fjölmiðla að þeir telji að með náðun Chelsea Manning sé ákaflega þvælið að reyna að lengur að eltast við WikiLeaks.

Arfleifð Mannings

Chelsea Manning braut blað í sögunni sem mikilvægasti uppljóstrari í allavega áratugi. Aðgengi almennings að upplýsingum er mikilvægasta jöfnunartæki gegn valdinu; án þess er lýðræði inntakslaust eða marklaust.
Það má fullyrða að ef ekki hefði verið fyrir Chelsea Manning hefði líklegast aldrei verið neinn Edward Snowden, opinberanir Panamaskjala eða annarra mikilvægra uppljóstrana á síðari árum.
Hún er kona sem heimsbyggðin stendur því í mikilli þakkarskuld við. Hennar nafn hefur þegar verið tryggilega skráð á spjöld sögunnar og hennar kafli mun aðeins stækka í tímans rás.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652