Íslendingar hafa tekið handverksbjórum opnum höndum síðustu ár. Fjölmörg brugghús framleiða gæðabjóra hér á landi og úrval erlendra handverksbjóra hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár, ekki síst með tilkomu nokkurra frábærra bjórbara í miðbæ Reykjavíkur.
Í næstu viku eykst úrvalið enn frekar þegar bjórar frá Stone Brewing koma í sölu hér. Stone Brewing er eitt stærsta handverksbrugghús Bandaríkjanna en nýlega var opnað útibú í Berlín sem gerir það kleift að flytja ferskan bjór hingað til lands. Útibú Stone í Berlín er í gamalli gasverksmiðju sem reist var árið 1901 og þykir einstakt. Þetta er risastór bar og veitingastaður þar sem hægt er að velja úr 75 bjórtegundum á krana – það ku vera stærsta bjórúrval nokkurs staðar í Þýskalandi sem segir nokkra sögu – og girnilegum mat þar sem áhersla er lögð á heilnæmt hráefni frá framleiðendum í nágrenninu. Stone Berlín hefur notið mikilla vinsælda síðan staðurinn var opnaður í september á síðasta ári.
Komu Stone til Íslands verður fagnað með tveimur viðburðum á fimmtudaginn í næstu viku, 26. janúar. Klukkan 17-19 verður kynning á brugghúsinu í Gym & Tonic salnum á KEX hostel. Þar mæta þær Kiera Senst og Katarina Westmann frá Stone í Berlín og veita leiðsögn í gegnum fimm framúrskarandi bjóra. Gastrópöbb KEX hostel, Sæmundur í sparifötunum, mun bjóða upp á bjórvæna rétti. Aðeins eru 50 miðar í boði og miðaverð er 4.900 krónur. Miðasala fer fram á www.kexland.is.
Um kvöldið, frá klukkan 20, verður svokölluð kranayfirtaka á Mikkeller & Friends á Hverfisgötu. Þar verður hægt að kynna sér 15 bjóra frá Stone Berlín.
„Við höfum verið full eftirvæntingar að fylgjast með áhuga á handverksbjór vaxa jafnt og þétt í Evrópu,“ segir Greg Koch, stjórnarformaður Stone Brewing og meðstofnandi. „Við leituðum að dreifingar- og samstarfsaðila sem var reiðubúinn til þess að skuldbinda sig til þess að skila ferskum farandbjór eins og við bruggum til neytenda. Sömuleiðis viljum við að sá aðili meðhöndli bjórinn okkar eins gætilega og við kjósum að brugga hann. Járn og gler uppfyllir alla þessa háu staðla,“ er haft eftir honum í fréttatilkynningu.
Járn og gler flytur Stone-bjórana hingað til lands og verða þrjár tegundir fáanlegar í Vínbúðum frá og með næstu mánaðamótum.
„Við erum mjög glaðir að hafa fengið tækifæri til að selja Stone-bjóra til okkar kúnna. Við höfðum fyrst samband við Stone þegar við vorum að byrja að flytja inn bjór árið 2011. Á þeim tíma höfðu þeir ekki tök á að flytja bjór úr landi en með tilkomu Stone Berlin hafa þeir nú tækifæri á að dreifa bjórnum um Evrópu sem er frábært enda framúrskarandi brugghús,“ segir Andri Kjartansson hjá Járn og gler.
Á viðburðinum á KEX hostel í næstu viku verður boðið upp á fimm bjóra eins og áður sagði. Þeir eru:
Go To IPA – session IPA
Stone IPA
Ruination DIPA
Arrogant Bastard
Russian Imperial Stout
Fyrstu þrír bjórarnir hér að ofan verða í boði í Vínbúðum fyrst um sinn. Á Mikkeller & Friends verða alls fimmtán bjórar á boðstólum:
Stone Go to IPA
Stone IPA
Stone Ruination DIPA
Stone Arrogant Bastard
Stone Xocoveza
Stone Ecore Anniversary 6th
Stone Citrusy Wit
Stone Americano Stout
Stone Russian Imperial Stout
Stone Arrogant Bastard – Bourbon barrel aged
Stone Encore Vertical Epic 020202 2016
Stone Stochast Father Elder
Stone Coffee Milk Stout
Stone DB
Stone Cali Belgique IPA
