Raftónlistarmaðurinn Futuregrapher og píanóleikarinn Jón Ólafsson hafa ruglað saman reitum sínum og tekið upp plötuna Eitt. Tónlistin á plötunni er af Sveim tegund og varð til upp úr spuna Jóns á píanó þar sem Árni Grétar Futuregrapher umvafði tónlistina umhverfishljóðum með hljóðgervlum. Jón segir ferlið hafa verið skemmtilegt og er á því að tónlistarmenn eigi að dýfa litlu tánni í eins marga polla og þeir komist í.
„Fyrir svona þremur árum þá skrái ég mig inn á grúppu á Facebook sem nefnist Íslensk raftónlist,“ segir Jón þegar hann er spurður út í tilurð samstarfsins. „Mig langaði á þessum tíma að kanna nýjar lendur í músíkinni á þessum tíma og þarna inni voru raftónlistarmenn sem mig langaði að fá tips frá um hvað maður ætti að hlusta á og spjalla um græjur og slíkt. Svo hef ég bara verið að kynna mér þetta og fara á Sónar tónlistarhátíðina og svo endaði þetta með því að ég kynnist Árna Grétari sem rekur Möller Records og gerir tónlist undir nafninu Futuregrapher, og við ákváðum að gera eitthvað saman,“ segir Jón. „Ég prufaði að setjast við píanóið og gera eitthvað sem ég gæti hugsað mér að slaka á við og Árni setti svo sinn hljóðheim ofan á það og við ákváðum að gera bara plötu. Úr þessu varð einhvers konar Ambient músík, eða Sveim eins og það kallast á íslensku“. Jón hefur verið iðinn við píanóleik og lagasmíðar undanfarin rúm 30 ár og þetta er því algerlega nýtt skref á hans ferli. Hann segir þó að hann hafi byrjað á vitlausum enda í tónlistarbransanum. „Ég byrjaði 17 ára að spila gömlu dansana og er í dag að fara að spila á Airwaves, þegar ég ætti að vera að spila gömlu dansana,“ segir hann. „Mig langaði bara að gera eitthvað nýtt og ég er á því að íslenskir tónlistarmenn eigi að dýfa sér í eins marga polla og þeir geta. Annars staðnar maður bara,“ segir Jón. Þeir Árni og Jón hafa lokið upptökum á plötunni Eitt, og er hún í framleiðslu. Þeir hafa hafið fjáröflun fyrir verkefnið á karolinafund til þess að fjármagna það. „Þetta er auðvitað bara heimilisiðnaður og ákveðin tilraun hjá okkur báðum. Við verðum að spila á Airwaves í haust og verðum með útgáfutónleika um svipað leyti í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar. Þetta er skemmtilegt ferli og ólíkt því að gera hljómsveitarplötur eins og ég er vanur. Til dæmis að vera ekki með neinn texta, sem leysir mörg vandamál,“ segir Jón Ólafsson sveimtónlistarmaður.
Hægt er að styrkja verkefnið á www.karolinafund.com
The post Úr gömlu dönsunum á Airwaves appeared first on FRÉTTATÍMINN.