Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Leið eins og ég skipti engu máli

$
0
0

Dýrfinnu Benitu Garðarsdóttur var nauðgað fjórum sinnum áður en hún varð tvítug. Í þrjú skipti var um menn henni nákomna að ræða, sem gerði það að verkum að hún treysti sér ekki til að kæra. Fjórði maðurinn var ókunnugur, sem henni fannst auðvelda sér að kæra. Kæran var felld niður vegna skorts á sönnunum og Dýrfinna mætti sinnuleysi og vantrausti lögreglu sem spurði m.a. hvernig hún hefði verið klædd. Dýrfinnu finnst hún í fyrsta sinn tilbúin til að segja öllum frá því sem hún upplifði þegar henni var nauðgað og hvað hún þurfti að takast á við í kjölfarið. Hún þakkar öllu því sterka fólki sem stigið hefur fram til að losna við skömmina fyrir að gefa sér styrk og von um betra líf án ótta og skammar. Hún tekur þátt í Druslugöngunni til að berjast gegn þöggun.

„Ég hef byrgt þetta ógeð inni í mér í langan tíma en allt í einu finnst mér vera kominn tími til að hleypa því út,“ segir Dýrfinna en í síðustu viku birti hún pistil á Facebook-síðu Druslugöngunnar um það ofbeldi sem hún hefur þurft að þola. „Ég las pistilinn hundrað sinnum yfir áður en ég ákvað að birta hann. Ég hef alltaf skrifað ljóð og teiknað mjög mikið, það er mín leið til að takast á við erfiðleika og vondar tilfinningar.“

22489Dýrfinna 10

Vildi ekki kæra vini sína

Dýrfinna er í sumarfríi á Íslandi en síðan í fyrrahaust býr hún í Amsterdam þar sem hún stundar nám í myndlist. Hún segir Druslugönguna, umræðuna gegn þöggun og allt það sterka fólk sem stigið hefur fram og sagt sína sögu hafa hvatt sig áfram og orðið til þess að hún loksins ákvað að segja sjálf frá. „Mér var nauðgað fjórum sinnum á menntaskólaárunum. Í þremur tilvikum voru gerendurnir menn sem ég þekkti vel. Ég leit á þá sem vini mína og vildi þar af leiðandi ekki gera neitt, vildi ekki skapa vandræði. Þetta voru menn sem ég treysti og við áttum sameiginlega vini. Ég vildi ekki flækja líf þeirra og vina okkar með því að segja frá eða kæra. Ég var samt stöðugt með vandræðalega ógeðstilfinningu innan í mér sem ég áttaði mig ekki á hvaðan kom. Þegar ég svo fór að vinna í sjálfri mér og þegar ég ákvað að kæra eina nauðgunina, þá smátt og smátt áttaði ég mig á hvaðan tilfinningin kæmi. Hún var þarna af því að mér leið eins og ég væri einskis virði og hefði átt þetta skilið. Mér fannst ég vera ógeðsleg og að ég ætti rétt á því að svona væri komið fram við mig.“
„Í einni af nauðgununum þekkti ég gerandann ekkert, hvorki hann né fjölskyldu hans og þess vegna fannst mér auðveldara að kæra,“ segir Dýrfinna. „Ég ætlaði samt ekki að kæra fyrst. Ég hafði grafið þetta lengst niður og reynt að gleyma þegar vinkona vinar míns hringdi í mig. Hún hafði líka lent í manninum og var búin að ákveða að kæra og hvatti mig til að gera það líka. Og allt í einu fannst mér það eina rétta, til að styðja hana og vonandi til að koma í veg fyrir að þessi maður gæti farið illa með fleiri konur.“
„Fólk spyr hvort ég hafi verið drukkin og hvernig ég hafi verið klædd, eins og lögreglan gerði þegar ég ákvað að kæra. En auðvitað skiptir það engu máli, það er ekkert, hvorki klæðnaður né hegðun, sem nokkurn tímann afsakar ofbeldismann.“

Hlátur nauðgarans það versta

„Ég lét lögregluna vita að ég var í mjög hyljandi fötum og að ég hefði ekki verið drukkin. Ég var á Prikinu að dansa með vinkonu minni þegar ég ákvað að rölta heim. Fyrir utan 10/11 í Austurstræti hitti ég mann sem fór að tala við mig. Hann sagðist vita hver ég væri, hann hefði séð mig módelast á Reykjavík Fashion Festival. Ég vissi líka hver hann var en skildi samt ekki alveg af hverju hann vildi tala við mig. Við settumst niður við Pósthúsið og hann fór að opna sig um sig og sínar tilfinningar og hann var greinilega á einhverju dópi. Ég ákvað að rölta heim og hann fylgdi mér því hann bjó í næsta húsi við mig í Vesturbænum. Fyrir utan húsið fór hann að tala um hvað sér liði illa, hann fengi oft sjálfsmorðshugsanir þegar honum liði svona, hvort ég vildi ekki koma aðeins inn og tala við hann. Ég hugsaði með sjálfri mér að ég vildi ekki skilja við hann í svona ástandi, best væri að kíkja aðeins inn, fá okkur eina sígó og fara svo heim. Þessi maður er þekktur fyrir að vera siðblindingi og að vera góður í að snúa fólki um fingur sér og það er í raun alveg ótrúlegt hvað hann náði mér fljótt á sitt band. Hann fékk mig til að trúa öllu sem hann sagði og til að láta mig finna til með sér. Hann bara hafði mig í vasanum. Þegar við komum inn fór hann að reyna við mig og ég meikaði það engan veginn. Sagðist ekki geta þetta, ekki vilja þetta og að ég vildi fara heim. Hann hélt áfram, verður viðbjóðslegur og ógnandi og ég bara lamaðist af hræðslu. Svo gerði hann allt sem hann vildi við mig, alls konar ógeðslega hluti sem ég mundi aldrei í lífinu samþykkja að nokkur maður gerði við mig. Ég vissi að það væri engin leið fyrir mig að komast undan, ég hafði lent í þessu áður, og lét hann því ljúka sér af án þess að reyna að berjast um. Ég var í algjöru losti.“
„Þegar þessu lauk þá lá ég og beið eftir að hann sofnaði svo ég kæmist út. Ég hélt að hann væri sofnaður og læddist, skríðandi eftir gólfinu, að herbergisdyrunum. Þegar ég opnaði dyrnar eins varlega og ég gat þá heyrði ég hann hlæja og leit við. Þá lá hann í rúminu, hafði verið að fylgjast með mér skríða í gólfinu, og hló að mér. Mér hefur aldrei á ævi minni liðið jafn illa. Ég held að þessi hlátur hafi verið það allra versta við þessa ömurlegu nótt. Hann var ennþá hlæjandi þegar ég hljóp út um dyrnar.“

Fékk ekki góðar móttökur á bráðamóttöku

Það var sumarið 2012 sem Dýrfinna ákvað að kæra manninn, sem hún frétti nýlega að hefði fjórum sinnum verið kærður fyrir nauðgun. Tveimur árum eftir að hún lagði inn kæruna fékk hún að vita að málið væri fellt niður vegna skorts á sönnunum. „Það var ömurlegt að heyra það. Mér leið eins og ég skipti engu helvítis máli, væri bara einhver drusla sem öllum væri sama um. Ég ætlaði bara að gleyma þessu og láta lífið halda áfram og fór ekki á bráðamóttökuna fyrr en tveimur dögum síðar, þegar vinur minn ráðlagði mér að gera það. En þar sem ég kom ekki strax þá var ekkert að skoða, engar sannanir eða áverkar. Ég hugsaði strax að kannski hefði verið betra að vera lamin líka, til að hafa sannanir. Mér leið eins og nauðgunin hefði þurft að gerast á gólfinu hjá lögreglunni til að einhver tryði mér. Ég skil ekki afhverju það er ekki sérstakur staður fyrir konur að koma á sé þeim nauðgað. Mér finnst ekki lagi hvernig móttökur ég fékk. Ég mætti engu nema efasemdum og mér var ráðið frá því að kæra af fólkinu sem skoðaði mig, það myndi ekki hafa neitt upp á sig. Ég veit samt um aðra stelpu, sem lenti líka í honum, sem var með svo mikla áverka að hún gat ekki látið sjá sig í skólanum í marga daga á eftir. En hennar kæru var líka vísað frá.“

Kvíðinn yfirtók lífið

Dýrfinna segir kvíða alltaf hafa verið hluta af sínu lífi. Hún hafi alltaf upplifað sig öðruvísi og utangátta. Hún ólst upp með móður sinni þangað til hún var tíu ára en þá fluttist hún til föður síns eftir erfiða forræðisdeilu. Í Fellaskóla upplifði hún mikið einelti sem hætti ekki fyrr en hún byrjaði í menntaskóla. Á unglingsárunum ágerðist kvíðinn og hún þjáðist af átröskun. „Það eina sem ég réð yfir var útlitið, það eina sem ég náði að hafa stjórn á var hvað ég setti ofan í mig. Ég var samt á góðri leið og komin í ágætis jafnvægi þegar mér var nauðgað fyrst en smátt og smátt fór kvíðinn aftur að taka líf mitt yfir. Eftir að ég kærði fór svo allt til andskotans í lífi mínu. Mér fannst allir dæma mig, meira að segja sambýlismaður minn gat ekki sýnt mér stuðning, honum fannst ég jafn ógeðsleg og sjálfri mér. Ég hætti að borða, eyddi öllum frítíma mínum í ræktinni og hætti alveg að umgangast fólk. Ég lenti einu sinni í því að brotna saman og gráta því ég gat ekki svarað einfaldri spurningu í vinnunni. Ég var hætt að getað talað og bara skalf og titraði af ótta allan daginn. Ég hugsaði með mér að kannski hefði ég bara átt að halda þessu öllu fyrir sjálfa mig og ekki átt að kæra.“

22489Dýrfinna 3

Vill hjálpa öðrum með því að segja frá

Þegar Dýrfinna ákvað að koma fram og segja frá reynslu sinni hafði hún engum sagt frá nema bestu vinum sínum. Hún hafði ekki sagt neinum í fjölskyldunni frá, ekki einu sinni móður sinni en þær eru mjög nánar. „Það var ekki auðvelt að segja mömmu þetta, mig langaði ekki til að íþyngja henni með þessu því hún á nóg með sig sjálfa. En ég hef aldrei verið mikið fyrir að tala um mín vandamál við aðra, finnst það vera algjört væl. En ég þarf að losa mig við þetta og ég vil segja frá þessu opinberlega því ég vonast til að hjálpa þannig öðrum.
Stundum sit ég róleg einhvers staðar þegar vondu minningarnar allt í einu hellast yfir mig. Þá er ég ósjálfrátt og án þess að vilja það farin að hugsa um eitthvað ógeðslegt sem einhver þessara manna gerði við mig. Ég fæ líka oft martraðir sem rífa sárin stöðugt upp. En á sama tíma hugsa ég um mig sem sterka konu og hef reynt að vera virk í umræðunni og styðja allt það sem hefur verið að gerast í málefnum kvenna. Ég dáist að fólki sem stígur fram og þorir að berjast gegn þöggun. Um daginn sat ég heima, ein og leið ömurlega, skjálfandi á beinunum af hræðslu við fortíðina, þegar ég hugsaði; „Af hverju geri ég þetta ekki sjálf fyrst að þær geta það? Ég veit að mér á eftir að líða betur ef ég segi frá.““

Hvatning og hrós gefur styrk

Það eru ekki bara sterkar fyrirmyndir sem hafa veitt Dýrfinnu styrk til að segja frá ofbeldinu. Í fyrrahaust komst hún inn í virtan myndlistarskóla, Gerrit Rietweld Akademíuna í Amsterdam, sem hefur veitt henni styrk og sjálfstraust. „Að komast frá Íslandi og í nýtt umhverfi var mjög gott. Ég hef verið að fá mikla hvatningu og hrós frá kennurunum, það hefur gefið mér styrk. Ég hef verið að sýna og selja verkin mín og loksins get ég haft skoðanir án þess að þær séu rakkaðar niður. Ég hefði aldrei birt þennan pistil ef ekki hefði verið fyrir þetta ár í skólanum úti. Að standa mig vel í skólanum er að hjálpa mér og að tala opinskátt er að lækna mig. Mér líður strax betur og þó ég viti að ég þurfi meiri hjálp þá er ég í fyrsta skipti í langan tíma bjartsýn á framtíðina.“
„Mig langar að segja við fólk að ef einhver treystir þér fyrir svona hryllilegri sögu, frá upplifun á einhvers konar ofbeldi, þá verður þú að passa þig að brjóta manneskjuna ekki niður. Það er aldrei þér að kenna ef einhver er vondur við þig. Þetta kom fyrir mig en þetta er ekki ég.“

22489Dýrfinna

The post Leið eins og ég skipti engu máli appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652