Viktoría Sigurðardóttir Stefaníudóttir er leiklistarnemi við London College of Music og er að hefja sitt þriðja og síðasta námsár við skólann í haust. Í ágúst ætlar hún að klífa hæsta tind Afríku, fjallið Kilimanjaro í þágu hreins vatns fyrir skólabörn í Kenýa. Hún hefur alltaf verið mikill skáti en segir þetta það stærsta sem hún hefur gert. Hún er spennt, en líka svolítið stressuð.
„Ég flutti út fyrir þremur árum og er því að byrja á mínu þriðja ári,“ segir Viktoría Sigurðardóttir Stefaníudóttir leiklistarnemi í London. „Ég kláraði MH á þremur árum og byrjaði á listdansbraut við LHÍ, en fékk svo inngöngu við London College of Music og flutti því út,“ segir hún. „Ég er að læra leiklist með áherslu á tónlist en þó er aðaláherslan lögð á leiklist, sem var mikil áskorun fyrir mig þar sem ég hafði verið töluvert meira í dansinum heima áður en ég fór út. Það er búið að ganga mjög vel og á síðasta ári vann ég til verðlauna fyrir hæstu einkunn á lokaprófi í söng og textaflutningi sem var mjög skemmtilegt,“ segir Viktoría. Lífið í stórborginni er áskorun fyrir námsfólk segir hún, en það hefur gengið upp hingað til. Í ágúst ætlar hún að klífa tind Kilimanjaro, sem er sá hæsti í Afríku. „Það kom fólk í skólann frá samtökum sem nefnast Dig Deep og héldu kynningu á sínu starfi. Þetta eru samtök sem vinna að sjálfbærni í menntun og heilsu,“ segir Viktoría. „Þau eru ekki bara að senda peninga á staðinn heldur vinna þau mjög náið með samfélögunum í Afríku,“ segir hún. „Þau útvega tækni og þjálfun svo innfæddir geti breytt sínu eigin lífi til framtíðar. Samtökin eru svo með áskoranir sem fólk getur tekið og safnað peningum um leið. Ég skráði mig í þessa áskorun og er söfnunin í þágu hreins vatns fyrir öll skólabörn í Kenýa,“ segir Viktoría sem er vön því að ganga á fjöll. „Ég hef alltaf verið mikill skáti,“ segir hún. „Þetta er þó það stærsta sem ég hef tekið að mér og er sem betur fer ekki að fara ein. Það fer hópur á þeirra vegum í þessa göngu, og alls öryggis er gætt,“ segir hún. „Ég er alveg pínu stressuð, en á góðan hátt. Maður verður að víkka þægindarammann til þess að staðna ekki.“
Viktoría er ekki búin að ákveða hvað hún ætlar að gera eftir útskriftina. „Ég ætla að reyna aðeins fyrir mér í London“, segir hún. „Maður verður að taka sénsinn fyrst maður er kominn hingað,“ segir Viktoría Sigurðardóttir Stefaníudóttir leiklistarnemi.
Hægt er að styrkja átakið á vefsóðinni mydonate.bt.com/fundraisers/viktoriasigurdardottir1
The post Hef alltaf verið mikill skáti appeared first on FRÉTTATÍMINN.