Íslensk börn eru í aðalhlutverkum í nýrri auglýsingu frá Microsoft þar sem nýja Windows 10 stýrikerfið er kynnt. Börnin, sem þarna stíga sín fyrstu skref á leiklistarferlinum, eru á aldrinum 10-24 mánaða og var auglýsingin tekin í Reykjavík, Mosfellsdal og á Langjökli á tveimur dögum í lok júní. Í auglýsingunni má einnig sjá bregða fyrir börnum frá Marokkó, Taílandi, Englandi og Bandaríkjunum.
„Stór ástæða fyrir því að ákveðið var að taka upp hluta auglýsingarinnar á Íslandi var sú að verið var að leita að snjó og ósnortinni náttúru,“ segir Árni Páll Hansson hjá True North sem var framleiðandi íslenska hluta verkefnisins. Börnin fóru ekki í prufur heldur voru valin út frá ljósmyndum en hátt í þrjátíu manns komu hingað til lands til að taka upp auglýsinguna – starfsfólk erlenda framleiðslufyrirtækisins, auglýsingastofunnar og Microsoft. Margt íslenskt starfsfólk kom einnig að verkefninu, t.a.m. var flest tæknifólkið íslenskt. „Þetta var mikil vinna en skemmtileg,“ segir Árni Páll um verkefnið. „Þau höfðu samband við okkur sex vikum áður en þau komu og þá hófumst við strax handa við undirbúninginn. Svo höfðum við stuttan tíma í sjálfar tökurnar en þær fóru fram á tveimur dögum í lok júní s.l.“
The post Íslensk börn í nýrri Windows-auglýsingu. appeared first on FRÉTTATÍMINN.