Talið er að brennisteinsvetni hafi streymt upp í gegnum kaldavatnsdreifikerfið og safnast upp í andrúmsloftinu, samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirlitinu.
Kalda vatnið er tengt við gamla borholu á vegum Reykjanesvirkjunar sem notuð hefur verið til niðurdælingar.
Mennirnir tveir sváfu í svefnskála skammt frá fiskvinnslunni. Lögreglan lét rýma átta fyrirtæki sem eru á sama dreifikerfi og loka þeim í kjölfar slyssins.
„Þetta er gríðarlega óhuggulegt og við verðum að fá skýringar sérfræðinga á því hvað þarna er á ferðinni,“ segir Magnús Guðjónsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Þetta á ekki að geta gerst. Þetta er slys og við verðum að komast til botns i þessu. Fyrr er ekki hægt að opna þessi fyrirtæki aftur.“
Lögreglan, Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja og Vinnueftirlitið rannsaka málið.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS orku, segist ekkert vilja tjá sig fyrr en rannsókn á tildrögum slyssins sé lokið.
Samkvæmt heimildum Fréttatímans voru mennirnir pólskir verkamenn. Magnús Guðjónsson segir að fiskvinnslufyrirtækið Háteigur hafi sagt að mennirnir í svefnskálanum hafi verið vaktmenn. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í forsvarsmenn fyrirtækisins. Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins, segist ekki geta lýst aðstæðum mannanna eða af hverju þeir hafi sofið í skálanum. Rannsaka þurfi betur tildrög þessa hörmulega slyss.
„Ég geri ráð fyrir að þetta sé hvíldarherbergi, við höfum velt því fyrir okkur. Stundum leggja menn sig í vinnunni.“
„Það þarf enginn að segja mér fyrirfram að þessir svefnskálar séu á eðlilegum stað,“ segir Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs og sjómannafélags Keflavíkur. „Það eru bæli hingað og þangað um allt Reykjanesið fyrir erlent verkafólk. Það er verið að breyta gömlum beitningarskúrum og fiskvinnsluhúsum í húsnæði fyrir verkafólk. Ég veit um bílaverkstæði með íbúðarhúsnæði á eftir hæðinni svo þú getur ímyndað þér eiturgufurnar þar.“