Ekkert svæði í Reykjavík finnur jafn áþreifanlega fyrir ferðamannasprengjunni í borginni, þótt mannlífið sé líflegt og framboð á afþreyingu og þjónustu hafi aukist að sama skapi hefur þetta breytt samsetningu íbúanna og andrúmsloftinu í þessum bæjarhluta. Margir sem áður töldu það óhugsandi að búa annars staðar hafa nú kvatt miðborgina. Á sama tíma er meiri eftirspurn eftir íbúðum þar en nokkurn tímann fyrr.
Ingibjörg Þórðardóttir, fasteignasali á fasteignasölunni Hýbýli, segir að varla megi tala um það upphátt að leigufélög og spákaupmenn stjórni framboðinu. Þau hafi stundað uppkaup í stórum stíl í miðbænum og leigt íbúðir út til ferðamanna eða látið þær standa auðar. Um þetta gildi engar reglur. „Þótt allir viti að þetta eyðileggi sálina í miðbænum hafa opinberar stofnanir eins og Íbúðalánasjóður tekið þátt í þessu af fullum þunga og selt þeim hundruð íbúða. Þetta gerir það að verkum að venjulegt fólk á erfitt með að kaupa íbúðir þar í dag,“ segir Ingibjörg. „Það þarf að rannsaka hvað þessi félög eiga mikið af íbúðarhúsnæði og setja reglur um uppkaup slíkra félaga. Miðborgin á ekki bara að vera leikvöllur fyrir fjárfesta.“
Setur að manni kvíðahroll
Ingibjörg segir að þessi spákaupmennska hafi eðlilega haft áhrif á lífsskilyrði í miðbænum.
„Þetta hefur áhrif á andrúmsloftið í bænum. Það var áður fólk í þessum húsum og sumt af því missti heimili sitt í hruninu.“
Ingibjörg flutti sjálf fasteignasölu sína í Kringluna en hún var í Kvosinni þar til fyrir þremur árum síðan. „Það stóð okkur fyrir þrifum hvað það var erfitt að fá bílastæði. Það hentaði ekki svona starfsemi.“
Hún segir að húsnæðismarkaðurinn sé að súpa seyðið að því að lítið hafi verið byggt á árunum eftir hrun. „Árið 2010 voru um 16000 fasteignaauglýsingar á leitarvef mbl. Í dag eru þær um 6500. Framboðið hefur minnkað um 60 prósent og það er því seljendamarkaður. Það er slegist um hverja eftirsóknarverða eign sem er boðin til sölu á skikkanlegu verði.“
Hún undrast nýlega spá Arion-banka um 35 prósent verðhækkanir á húsnæði á þremur árum og segir þetta minna um margt á ástandið árið 2007, skömmu fyrir kollsteypuna, þegar starfsmenn bankanna voru daglegir gestir í fréttum til að spá fyrir um áframhaldandi þenslu. „Það er verið að skapa væntingar um endalausar verðhækkanir sem taka ekkert mið af kaupgetu almennings. Það bara setur að manni kvíðahroll,“ segir Ingibjörg.
Sjarminn var farinn

„Þetta gæti endað eins og á Tenerife. Innfæddir búa í úthverfinu en vinna í miðbænum,“ segir Þorsteinn Guðmundsson leikari sem er af fjórðu kynslóð miðbæinga en er nú fluttur með alla fjölskylduna í Hvassaleiti. Fjölskylda Þorsteins hefur búið í miðbænum síðan langafi hans reisti þar hús, við Laufásveginn, en þar bjó Þorsteinn sjálfur um tíma. Hann bjó hinsvegar við Þórsgötu þegar hann ákvað að færa sig um set.
„Það var ekki sérstaklega erfitt að fara. Það er ekki hægt að halda endalaust í einhverja nostalgíu,“ segir Þorsteinn.
„Það var bara farinn sjarminn af miðbænum,“ segir hann.
Þorsteinn og kona hans eiga fjögur börn sem bjuggu enn í foreldrahúsum þegar ákvörðun var tekin um að flytja. Núna er sá elsti fluttur að heiman en hann er 26 ára. Hann býr reyndar hjá móður Þorsteins og bíður eftir að komast inn á stúdentagarða.
„Miðbærinn hefur stökkbreyst á fáeinum árum,“ segir Þorsteinn. „Annað hvort hús er orðið gistiheimili eða hótel og þótt ferðamennirnir séu fín viðbót í mannlífið, þá fylgir þessari starfsemi talsvert ónæði, skrölt í töskum, fólk að koma heim á öllum tímum, rútur og risastórir fjallabílar sem keyra um hverfið til að sækja fólk í einhverjar ferðir. Þetta er að stóru leyti svartur markaður, þannig að þessi þróun er ekki alltaf sýnileg, því húsin líta ósköp venjulega út þótt þau séu hætt að vera heimili og orðin hótel.“
Þorsteinn segir verðið á íbúðum í miðbænum leiki líka stórt hlutverk. „Það er orðið svo skelfilega hátt að ungt fólk getur ekki leyft sér að setjast að í miðbænum.“ Hann segir að það sé örugglega orðið of seint að snúa þessari þróun við. Hún sé komin of langt, en ef bólan springur og ferðamönnum fækkar, þá kannski komi íbúarnir aftur til baka.

Nánast allir nágrannar flúnir
„Það eru eiginlega allir flúnir í nánasta umhverfi við mig,“ segir Benóný Ægisson, formaður Íbúasamtaka miðborgarinnar. „Fólk er að flýja næturlífið eða þá að það er hreinlega keypt í burtu.“
Benóný segir að það hafi verið búið á átta stöðum, allt í kringum hann, neðst á Skólavörðustíg, í Bankastræti og neðst í Ingólfsstræti. Nú sé hann einn eftir með fasta búsetu. Hitt sé allt leigt til ferðamanna. „Hávaðinn er verstur frá stöðum sem eru með allt í botni. Þá hangir fólk utandyra til að reykja eða hérna úti á bílastæðinu til að fá sér í pípu eða í nös. Ég get nánast teygt mig í fimm skemmtistaði hérna út um gluggann og maður skilur því að fólk gefist upp á þessu. Það hefur þó skánað að undanförnu, kannski vegna þess að það hefur orðið árekstur milli ferðaþjónustunnar og eigenda næturklúbba. Það er öllum sama um íbúanna.“
Benóný kærði reykingapallana utan á veitingahúsinu Prikinu, en eftir að reykingabannið tók gildi færðist skemmtanahald að miklu leyti út á götu, svalir eða palla húsa, líkt og þessa sem voru byggðir í kjölfarið. Hann kærði til byggingafulltrúa að veitt hefði verið leyfi til slíkrar viðbyggingar án grenndarkynningar og spurði hvernig það samræmdist friðlýsingu hússins sem er frá 1864. Þá kom í ljós að aldrei hafði verið veitt leyfi fyrir svölunum. Í kjölfarið á því gaf byggingafulltrúi út svokallað afturvirkt leyfi. Benóný kærði það til úrskurðarnefndar skipulags og byggingarmála sem felldi það úr gildi árið 2013. Þar stendur síðan málið fast því hvergi er kveðið á um hvernig framfylgja eigi úrskurðinum. Á meðan djamma viðskiptavinir Priksins og djúsa á svölunum.

Benóný segir að borgaryfirvöld hafi valdið miklum vonbrigðum í þessu máli og borgarstjóri og formaður umhverfis- og skipulagsnefndar, sem sjálfir búi í miðbænum, séu síst betri en aðrir. Á hátíðastundum séu íbúarnir í forgangi, en ekki þegar kemur að því að taka ákvarðanir.„Skipulagsyfirvöld gera ekkert til að sporna við þessu. Ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta lendir á okkur eins og holskefla og fólk hrekst í burtu.
Hann segir að verktakar hafi verið afar frekir til fjörsins í miðborginni og reynt að koma fyrir hóteli á annarri hvorri þúfu. „Menn hafa lokað götum, þrengt að umferð, byggt alltof stórt, byggt fyrir sólarljós, brotið klöpp fleiri metra niður í jörðina og notað í það nokkra mánuði með þeim afleiðingum að fólk gekk af göflunum. Þetta bætist við óþægindin af fjölguninni í miðbænum, aukið næturlíf, umferð langferðabíla, tíu þúsund bílaleigubílar sem er lagt hér allar nætur og veldur því að íbúar sem koma heim eftir átta á kvöldin þurfa nánast að leggja bílunum sínum í úthverfunum.“
Við klúðrum þessu
Benóný bendir á að fjölgunin hafi einnig jákvæðar hliðar. Kaffihúsum og veitingahúsum hafi fjölgað og það hafi í för með sér meiri fjölbreytni. Það sé hinsvegar orðið svo dýrt að fara út að borða að venjulegt fólk hafi varla efni á því. Íbúðir hafi rokið upp í verði sem verði til þess að ungt fólk með börn eigi þess ekki kost að setjast að í miðborginni. „Það verður til þess að það fækkar í skólunum og á leikskólunum og andinn í hverfinu verður allt annar. Á einhverjum tímapunkti hættir fólk að nenna þessu. Ég veit til dæmis að börnin mín hefðu ekki efni á að búa hérna.“
Hann bendir á að þetta ryðji líka smám saman í burtu sérhæfðri verslun og þjónustu sem hafi gefið miðborginni sjarma. „Þegar ég flutti á Skólavörðustíginn var allt fullt af litlum skemmtilegum verslunum sem eigendurnir höfðu ekki efni á að hafa á Laugaveginum, núna eru þær flestar búnar að leggja upp laupana og komnar lundabúðir í staðinn.“
En of seint að bjarga miðborginni, að hans mati?
„Ég held að við klúðrum þessu ferðamannaævintýri með græðgi og okri. Við vinnum ekki heimavinnuna sem er nauðsynleg til að hægt sé að taka vel á móti fólki. Þegar ferðamennirnir hætta að koma, þá koma íbúarnir kannski aftur,“ segir hann.

Auglýst eftir verkefnastjóra
Eitt af því sem gamalgrónir íbúar gagnrýna er að málefni miðborgarinnar séu nær einungis rædd á forsendum kaupmanna og eigenda skemmtistaða. Þannig hafi skrifstofan Miðborgin okkar verið stofnuð til að gæta hagsmuna þeirra. Hún hefur fram til þess fengið til sín um 5 prósent af því sem kemur inn í Bílastæðasjóð, á fjórða tug milljóna, og heldur úti embætti miðborgarstjóra, Jakobs Frímanns Magnússonar. Til samanburðar hafi Íbúasamtökin fengið 200 þúsund á ári í styrk frá borginni.
Þetta fyrirkomulag heyrir þó sögunni til, enda þótti það ekki góð stjórnsýsla og nýtt fyrirkomulag á að tryggja að fleiri geti sótt fé til góðra verka í miðborginni.
Lengi hefur verið í undirbúningi sérstakt samráð um miðborgina og málefni hennar. Sigurður Björn Blöndal borgarfulltrúi hefur farið fyrir því en lagt er til að sett verði sérstök verkefnastjórn yfir miðborgina frá áramótum og ráðinn verkefnastjóri til að sinna því starfi frá skrifstofu borgarstjóra. Höfuðáhersla er á samráð við alla sem eiga hagsmuna að gæta. Búið er að auglýsa eftir verkefnastjóra, en það sótti talsverður fjöldi um starfið. Bæði Íbúasamtökin og fulltrúar rekstraraðila, eða Miðborgin okkar, eiga að hafa áheyrnarrétt í verkefnastjórninni sem verður undir stjórn borgarritara.

Gönguferð um hverfið
Í greininni, Gönguferð um hverfið mitt, sem birtist í Morgunblaðinu árið 2007, sagði Fríða Björk Ingvarsdóttir þáverandi blaðamaður en núverandi rektor Listaháskóla Íslands meðal annars þetta um lífið í miðbænum.
,,Ég kippi mér ekki upp við það þótt fólk kasti af sér vatni yfir blómabeðin mín því rigningin skolar því í burtu. Varð reyndar um að sjá virðulega jafnöldru mína ganga örna sinna í garðinum hjá mér á meðan vinkona hennar stóð hjá til að halda á veskinu hennar. En ég tíni upp sprautunálar, bjórdósir, glös, smokka, sígarettustubba, matarleifar, bréfarusl og fleira af lóðinni eins og ekkert sé – spúla ælupollana í burtu. Ég er orðin svo sjóuð að ég lít varla undan við innkaupin á laugardagsmorgnum þegar ég sé fuglana gogga í álíka ókræsilega polla á götunum. Ég hef vaknað við stunur velklæddrar konu sem braust inn í geymsluna mína og dó þar ölvunardauða, og skemmt mér yfir tilhugsuninni um það hvernig upplitið á henni hafi verið þegar lögreglan skilaði handtöskunni sem hún gleymdi daginn eftir. Mér finnst eðlilegt að læsa hliðinu að garðinum mínum og álasa sjálfri mér fyrir að hafa ekki endurnýjað lásinn eftir að hann bilaði. Reiði bærði þó á sér þegar dimitterandi menntaskólanemar spörkuðu þannig í nýmálaðar þakrennurnar á mínu virðulega hundrað ára gamla húsi að þær eru ónýtar. Sömuleiðis varð ég ill – og reyndar líka skelkuð – þegar ég stóð í eldhúsinu um miðnæturbilið og horfði í vantrú á hóp jakkafataklæddra manna taka upp kústskaft fyrir utan og hlaupa af stað með það rétt eins og um burtreiðar á tímum Hróa hattar væri að ræða og reka síðan í gegnum rúðuna á borðstofunni minni. Sem var reyndar líka hundrað ára gömul og úr rándýru handblásnu gleri.”
Fríða Björk hefur gert upp gullfallegt hús við Ingólfsstræti á síðustu 20 árum. Hún hefur verið ein þeirra sem hefur gagnrýnt þróun miðborgarinnar harðlega en athygli vekur að Fríða Björk fluttist í einbýlishús í Garðabænum fyrr í vikunni.

Meira kvartað yfir rútum
Nokkrir viðmælendur Fréttatímans úr hópi íbúa segja of mikið gert úr svokallaðri AirBnB væðingu, enda sé sáralítil truflun frá henni. Það sé aðallega verið að bregðast við henni til að bjarga fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Ný lög frá Alþingi þar sem fólki er heimilt að leigja eignir sínar í 90 daga á ári án þess að það teljist atvinnustarfsemi á að bjarga miklu. Þá segir Sigurður Björn Blöndal að það sé verið að setja stranga kvóta á hversu mörg hótel megi rísa í hverfum miðborgarinnar.
„Miðborgin er auðvitað mjög lifandi svæði, en staðreyndin er sú að við fáum fleiri kvartanir vegna rútubíla en skemmtistaða.“
Hann segir að það sé í forgangi að verja mannlífið í miðborginni, fólki hafi fjölgað en það sé rétt að samsetning íbúanna sé að breytast. „Það er þó ekki enn orðið þannig að það hafi fækkað að ráði í skólum eða leikskólum á svæðinu,“ segir Sigurður Björn.
Svörin sem íbúarnir fá þegar þeir reyna að kvarta yfir því að það sé verið að fjölga næturklúbbum í næsta nágrenni, er að eigendur húsanna í miðborginni verði að fá að nýta eignir sínar á eðlilegan hátt. „Réttur íbúanna er hinsvegar enginn. Það þykir óhugsandi að fólk fái að nýta heimili sin til að sofa,“ segir kona sem valdi að flytja úr miðborginni eftir áratuga búsetu þar.
Sumstaðar í miðborginni eru friðuð íbúðarhús nánast ofan í skemmtistöðum sem eru reknir í gömlum timburhúsum með einföldu gleri. Staðirnir eru jafnvel opnir alla nóttina og íbúarnir kvarta fyrir daufum eyrum undan hávaða, sóðaskap og jafnvel ofbeldi. Bent er á að víðast hvar í stórborgum, þar sem sé blönduð byggð, séu mjög ákveðnar reglur um opnunartíma og starfsemi næturklúbba eftir miðnætti sé ekki innan um íbúðarhús.
Sigurður Björn Blöndal segir að það séu ávallt mun rýmri heimildir til skemmtanahalds í miðborgum en annars staðar. „Ég get ekki lofað því að það verði komið í veg fyrir alla árekstra eigenda skemmtistaða og íbúa á þessu svæði enda varla hægt. Við vonumst þó til að það verði hægt að draga mjög úr slíkum árekstrum.“