„Þetta á ekkert skylt við mannabústaði,“ segir Kristján G. Gunnarsson formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, og bendir á hrörlegt fiskverkunarhús sem stendur innan um gamalt járnadrasl á hafnarsvæðinu, rétt við sjávargarðinn. Við erum á rúntinum um Reykjanesbæ til að kynna okkur aðstæður farandverkafólks. Á neðri hæð gamla fiskverkunarhússins eru lokaðar bílskúrshurðir en í einum risglugganum glittir í þvottasnúrur þar sem nærföt og sokkar hanga til þerris.

„Niðri eru ennþá geymslur en uppi í risi búa Pólverjar sem borga 60-100.000 kall í leigu fyrir eitt herbergi, í þessu hreysi sem er að grotna niður. Við vitum að það er allskonar gas og súr og tæki og tól sem eru ekki hæf mannabústöðum í þessum húsum. Það er svo sem ekki við fyrirtækin sem ræður fólkið í vinnu að sakast, það er ekki alltaf á þeirra ábyrgð að útvega fólki húsnæði, heldur við einkaaðila sem græða á því að leigja þurfandi fólki ónýtt húsnæði,“segir Kristján.



Eftir að hafa keyrt um hafnarsvæðið, fram hjá nokkrum gömlum bílaverkstæðum og fiskverkunarhúsum sem í dag hýsa farandverkafólk, liggur leið okkar í Grófina, iðnaðarsvæði Reykjanesbæjar. Þar hefur öðru hverju húsi verið breytt í verkamannabústaði. Flestir verkamannanna eru Pólverjar sem langflestir koma einir og vinna í fiski eða á Keflavíkurflugvelli.
„Þetta er kannski löglegt en þetta er alls ekki boðlegt,“ segir Kristján. „Í mörgum tilfellum virðist þetta vera heilsuspillandi húsnæði og alls ekki öruggt. Ég sé ekki neyðarútganga og slökkvitæki í þessum húsum. Það er ekki í lagi að láta fólk liggja eins og hunda í einhverjum bælum. Verkafólk á ekki að búa svona.“



Kristján segir mörg hundruð manns búa við óviðunandi aðstæður á Reykjanesi, þetta séu aðeins örfá dæmi. Honum var verulega brugðið í síðustu viku, þegar einn maður lést og annar slasaðir illa vegna brennisteinseitrunar i svefnskála á vegum fiskvinnslunnar Háteigs í nágrenni HS Orku á Reykjanesi. „Hvaða vitleysa er það að þvælast með svefnskála við hliðina á fiskverkunarhúsi lengst úti á nesi. Þetta er bara með ólíkindum,“ segir Kristján sem hefur lagt til við Reykjanesbæ að skipaður verði starfshópur til að athuga hvort leyfi séu til staðar, hvort öryggismál séu í lagi og til að meta fjölda þessara híbýla. Hann segir erfitt að nálgast upplýsingar frá verkafólkinu því það sé hrætt við að missa húsnæðið. Nokkrir Pólverjar hafi þó nálgast hann í algjörum trúnaði. „Þetta er strangheiðarlegt fólk sem er bara að leita að lífsbjörginni og það hrætt við að kvarta því það hefur ekki í önnur hús að vernda.“