Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Sigurður: Vogunarsjóðirnir ekki endilega óheppilegir eigendur banka

$
0
0
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Kviku og einn helsti efnahagsráðgjafi síðustu ríkisstjórnar í losun gjaldeyrishaftanna, segir að hann geti ekki tekið afstöðu til þess hvort vogunarsjóðirnir sem nýlega keyptu hlut í Arion banka séu líklegir til að ætla sér að verða framtíðarhluthafar í bankanum. „Engar upplýsingar liggja fyrir um stefnu fjárfestanna og því er ekki unnt að taka afstöðu til þeirra. FME og e.t.v. fleiri skoða þetta þessa dagana,“ segir í skriflegu svari frá Sigurði við spurningum Fréttatímans.
Sigurður var gestur í þættinum Silfrinu um liðna helgi og talaði þar með þeim hætti að hann teldi gott að „virkir hluthafar“ væru komnir að íslenska bankakerfinu. Fréttatíminn spurði Sigurð meðal annars að því hvort hann teldi líklegt að vogunarsjóðir hefðu áhuga á því að eiga hlutabréf í íslenskum banka til langs tíma og hvort ekki væri líklegra að sjóðirnir hefðu keypt hlutabréfin til að hraða uppgjöri á eignarhaldsfélaginu Kaupþingi ehf. sem þeir sjálfir eru hluthafar í svo þeir gætu sem fyrst flutt fé frá Íslandi eftir greiðslu á ríflega 80 milljarða stöðugleikaframlagi í ríkissjóð sem er fjármagnað með kaupunum á hlutabréfunum í Arion.
Um þetta segir Sigurður. „Næsta stig endurreisnar bankakerfisins snýst um að byggja upp fjármálakerfi sem þjónar þörfum almennings og atvinnulífs, er hagkvæmt og traust. Til þess að ná fram breytingum þarf virka fjárfesta sem spila eftir settum reglum. Þeir geta verið til skemmri eða lengri tíma og kannski þarf báðar gerðir fjárfesta. Það þarf upplýsingar um fyrirætlanir, forsendur og markmið fjárfesta til að taka afstöðu til þess hvort umræddir fjárfestar falli inn í þessa mynd.“
Sigurður vildi ekki svara því hvort Kvika eða hann sjálfur ættu í viðskiptasambandi við Arion banka eða kröfuhafa Kaupþings en einn nánasti samverkamaður hans við skipulagningu á losun gjaldeyrishaftanna, Benedikt Gíslason, er orðinn ráðgjafi eignarhaldsfélagsins Kaupþings sem umræddir vogunarsjóðir eiga meðal annars hlut í. „Eins og þú sjálfsagt þekkir þá er fjármálastofnunum hvorki heimilt að gefa upp hverjir eru í viðskiptum, né heldur heimilt að segja til um það hverjir eru ekki í viðskiptum.“
Myndatexti:
Einn helsti samverkamaður Sigurðar Hannessonar  í framkvæmdahópi síðustu ríkisstjórnar um losun gjaldeyrishafta, Benedikt Gíslason, er orðinn starfsmaður kröfuhafa Kaupþings. Sigurður telur fjárfestingu kröfuhafanna í Arion banka vera jákvæða.
Spurningar Fréttatímans og svör Sigurðar Hannessonar eru birt í heild sinni hér fyrir neðan:

Spurning 1:

Þú stilltir þessum viðskiptum svolítið upp í Silfrinu eins og um væri að ræða „hefðbundin“ viðskipti þar sem ótengdur aðili kaupir einhverja eign af öðrum aðila á köldum viðskiptalegum forsendum. Svona sambærilegt eins og ef Nordea eða SEB myndi ákveða að fjárfesta í íslenskum banka og kaupa hlutabréf í Arion af Kaupþingi. Finnst þér hægt að tala um þessi viðskipti með þessum hætti? Að lýsa þessari atburðarás án þess að tala um þá staðreynd að þarna eru kröfuhafar í Kaupþingi að kaupa hlutabréf í Arion af eignarhaldsfélagi sem þeir sjálfir eiga hlut í og þar með að hraða uppgjöri Kaupþings og þeirri niðurstöðu að þeir geti farið með fé sitt úr landi?

Svar Sigurðar: „Fjármálakerfi kalla á virka fjárfesta, ekki síst á næsta stigi endurreisnar bankakerfisins. Þessir fjárfestar þurfa að sjálfsögðu að spila eftir settum reglum. Sérfræðilegt mat býður hvorki upp á gildismat þeirrar gerðar sem þú ýjar að né mats án upplýsinga. Upplýsingar um fyrirætlanir og forsendur og markmið eru ekki fyrir hendi að svo stöddu. Þess vegna er ekki mögulegt að taka afstöðu til þess, hvort með né á móti. Það er stjórnvalda að afla þessara upplýsinga og leggja svo mat á stöðuna.

Varðandi það að fara með fé úr landi þá er það staðreynd að með stöðugleikaskilyrðum var búið svo um hnútana að ríkissjóður fær fyrstu 84 milljarðana (auk vaxta) af söluandvirði Arion og þar að auki fær ríkissjóður greiðslur á grundvelli sk. afkomuskiptasamnings. Þeim mun hærra sem söluandvirði Arion er, þeim mun meira fær ríkissjóður í sinn hlut. Sjálfsagt mál að útskýra þetta í meiri smáatriðum. Miðað við það verð sem fjárfestarnir greiða fyrir hlutina í Arion banka mun ríkið fá samtals ríflega 100 milljarða í sinn hlut.“

 

Spurning 2:

Trúir því þú í alvörunni að þessir aðilar sem keyptu hlutabréfin í Arion banka ætli sér að vera virkir hluthafar í Arion? Þú andmæltir því með orðunum „ekki endilega“ þegar þáttastjórnandinn spurði þig að því hvort um væri að ræða langtíma fjárfesta. Þig má skilja svo: Virkir hluthafar en ekki endilega til langframa. Eru vogunarsjóðir þekktir fyrir það – ég spyr þig meðal annars sem fagmann og bankastarfsmann – að vera virkir hluthafar í fjármálafyrirtækjum í litlum löndum eins og Íslandi, jafnvel til langframa? Ef svo er og þú þekkir dæmi um slíkt gæti verið fróðlegt að fá dæmi um slíkt. Ég sé bara ekki hvað er svona „gott“ við þessi viðskipti. Þau breyta sjálfsagt litlu í reynd varðandi framtíðareignarhald Arion. 

Svar Sigurðar: “Sama svar og við spurningu eitt. Engar upplýsingar liggja fyrir um stefnu fjárfestanna og því er ekki unnt að taka afstöðu til þeirra. FME og e.t.v. fleiri skoða þetta þessa dagana.

Þáttastjórnandinn spurði hvort það þyrfti ekki langtímafjárfesta að bankanum. Vonandi fást langtímafjárfestar að bankakerfinu á Íslandi í heild. Þá er lögð áhersla á að það þurfi virka fjárfesta að bankakerfinu til að takast á við næsta stig endurreisnar bankakerfisins, byggja upp traust og spila eftir settum reglum. Slíkir fjárfestar geta verið bæði til skemmri og lengri tíma.“

 

Spurningar 3 og 4:

Þegar ég horfði á viðtalið við þig spurði ég mig að því hver væri ástæðan fyrir því að stilltir þessum viðskiptum með þessum hætti, hvort þú eða Kvika væri, með einhverjum hætti, farin að vinna fyrir kröfuhafa Kaupþings. Er einhver slík vinna í gangi eða í farvatninu af þinni eða Kviku hálfu? Þú afsakar spurninguna vonandi en það sló mig aðeins hvernig þú teiknaðir þessa stöðu upp. 
Á Kvika í miklum viðskiptum við Arion almennt séð, óháð þessum viðskiptum með hlutabréf í Arion?

Svör Sigurðar: „Ástæða þess að málinu er stillt upp með þessum hætti er sú að burtséð frá því hvort fjárfestar séu til langs tíma eða skamms tíma þá þarf virka fjárfesta að íslensku fjármálakerfi. Næsta stig endurreisnar bankakerfisins snýst um að byggja upp fjármálakerfi sem þjónar þörfum almennings og atvinnulífs, er hagkvæmt og traust. Til þess að ná fram breytingum þarf virka fjárfesta sem spila eftir settum reglum. Þeir geta verið til skemmri eða lengri tíma og kannski þarf báðar gerðir fjárfesta. Það þarf upplýsingar um fyrirætlanir, forsendur og markmið fjárfesta til að taka afstöðu til þess hvort umræddir fjárfestar falli inn í þessa mynd.

Eins og þú sjálfsagt þekkir þá er fjármálastofnunum hvorki heimilt að gefa upp hverjir eru í viðskiptum, né heldur heimilt að segja til um það hverjir eru ekki í viðskiptum.

Þátttakan í Silfrinu um helgina þar sem fjallað var m.a. um sölu á hlutabréfum Kaupþings í Arion banka kemur til mín með sama hætti og spurningar þínar til mín núna. Maður reynir að gera sitt besta og verða að liði.“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652