„Þegar ég var stödd hér á kvennadeildinni fyrir mörgum árum síðan, ólétt að fyrsta barninu mínu, talaði ég enga íslensku og það var mjög erfitt fyrir starfsfólkið að giska á hvaðan ég væri. Ég lít út fyrir að vera einhversstaðar frá Asíu en svo tala ég eins og Bandaríkjamaður því ég er þaðan,“ segir Edythe Mangindin sem er fædd og uppalin í San Fransisco en foreldar hennar eru frá Filippseyjum. Edyth kom hingað í fyrsta sinn með íslenskum kærasta frá San Fransisco fyrir níu árum síðan. „Ég heillaðist algjörlega af þessu fallega landi og flutti hingað tveimur mánuðum síðar og varð ólétt um leið!,“ segir hún og hlær. „Skyndilega var ég óléttur innflytjandi sem skildi ekkert í tungumálinu og þekkti engan. Það var dálítið erfitt,“ viðurkennir Edythe.
„Ég fann strax að ég yrði að læra tungumálið en það var erfitt því ég þekkti engan nema manninn minn og við töluðum alltaf saman á ensku. Þegar ég var svo farin að ná íslenskunni átti ég barnið mitt og þurfti aftur að byrja að tala ensku því það er mælt með því að þú talir móðurmálið við barnið fyrstu árin. Ég skal viðurkenna að það var mjög krefjandi að aðlagast móðurhlutverkinu og ég fékk mikla heimþrá á þessum tíma,“ segir Edythe sem komst á þessum tíma í samband við Samtök kvenna af erlendum uppruna sem hún segir hafa bjargað sér.
„Ég man alltaf þegar ég var í skoðun hérna, nýflutt og óörugg með mig og sagði við ljósmóðurina að þetta hlyti að vera besta starf í heimi. Og hún sagði mér að drífa mig bara í að læra tungumálið og fara í nám, ég gæti það alveg ef ég vildi. Og ég gerði það. Auðvitað hélt ég að ég að ég kæmist aldrei inn, en sem betur fer gekk allt upp! Það er allt hægt ef maður vill það,“ segir Edythe sem byrjaði í hjúkrun þegar eldri strákurinn hennar fór á leikskóla. Hún átti sitt annað barn þegar hún var á öðru ári í náminu, útskrifaðist vorið 2015 og vann á hjartadeild Landspítalans þar til hún byrjaði svo í framhaldsnámi í ljósmóðurfræði síðastliðið haust. „Þetta hefur verið mjög krefjandi því ég var að læra íslensku á sama tíma en þetta bjargaði mér samt alveg. Ég vissi að mig langaði til að gera eitthvað við líf mitt hér, ég þurfti að taka ákvörðun um það hvort ég myndi fara að vinna starf sem krefðist ekki íslenskukunnáttu og sem mér myndi líklegast leiðast í, eða láta drauminn minn rætast og gera eitthvað gagn í samfélaginu.“
Auk þess að verða ljósmóðir þá dreymir Edythe um að aðstoða konur í hennar stöðu. „Ég þurfti mikið á heilbrigðisþjónustu að halda allt fyrsta árið mitt og það var svo erfitt því ég talaði ekki tungumálið. Starfsfólkið gerði oft ráð fyrir því að ég talaði hvorki íslensku né ensku og ávarpaði stundum manninn minn án þess að líta á mig, og það er mjög algengt. Það er ekkert mál að breyta þessu og það vil ég gera því innflytjendur eru sístækkandi hópur á Íslandi. Um daginn var ég að skoða nöfn mæðranna sem áttu að eiga þann daginn og ég tók eftir því að öll nöfnin voru erlend. Þetta er orðið svo fjölbreytt samfélag og mig langar að tryggja að þessar konur fái allan þann stuðning sem þær þurfa. Ég var einu sinni þessi kona sem gat ekki talað og vissi ekkert hvað ég ætti að gera í þessu landi. Það þarf að valdefla þessar konur því þannig verður samfélagið betra. Það geta allir tekið þátt í samfélaginu og það hafa allir sitt að gefa.“