Nú er verslunarmannahelgin framundan og má búast við mikilli umferð um vegi landsins. Samgöngustofa óskar landsmönnum ánægjulegrar helgar og öruggrar heimkomu, en til að tryggja það sem best er rétt að hafa m.a. eftirfarandi atriði í huga.
Lítill hópur ökumanna er í mikilli lífshættu
Þótt öryggisbeltin hafi fyrir löngu sannað ágæti sitt og flestir ökumenn noti þau er sá litli hópur ökumanna sem ekki notar öryggisbelti hlutfallslega hlutfallslega sá vegfarendahópur sem er í mestri lífshættu. Þetta sýna slysatölur undanfarinna ára og rannsóknarnefnd samgönguslysa telur að allt að helmingur þeirra sem látið hafa lífið í umferðinni á þessu ári hefðu lifað hefðu þeir notað öryggisbelti.
Einn laus einstaklingur í bíl stofnar ekki bara eigin lífi í hættu heldur og þeirra sem eru með honum í bílnum og hafa í góðri trúa hafa spennt beltin. Við árekstur eða bílveltu kastast viðkomandi til í bílnum og höggþunginn getur orðið margföld þyngd hans. Sem dæmi má nefna að ef maður sem er 75kg af þyngd lendir í árekstri á 70km hraða án bílbelta verður höggþungi hans u.þ.b. 6 tonn.
Auk þess að nota öryggisbelti eru ökumenn og farþegar hvattir til að ganga tryggilega frá farangri þannig að ekki sé hætta á að hann kastist til og valdi líkamstjóni við árekstur.
Tryggingarfélögin eiga endurkröfurétt
Um það bil 20% allra banaslysa í umferðinni eru af völdum þess að ökumaður er undir áhrifum áfengis og er þá ekki meðtaldir aðrir vímugjafar. Oft eru áhrifin ekki mikil en afleiðingarnar hinsvegar mjög alvarlegar.
Í flestum tilfellum eiga tryggingarfélög endurkröfurétt á ökumann sem valdur er að slysi vegna ölvunar eða neyslu annarra vímuefna og ef ökumaður sem er undir áhrifum vímuefna verður valdur að dauða einhvers er litið á það sem manndráp af gáleysi.
Það er mikilvægt að vinir og aðstandendur ökumanns sem hyggst aka undir áhrifum vímuefna reyni að koma í veg fyrir það. Ef það tekst ekki með góðum ráðum skal hringja í 112 og koma með því í veg fyrir að viðkomandi verði valdur að alvarlegu slysi. Það vandamál sem hugsanlega kann að skapast af því að hringt er í lögreglu er lítilvægt borið saman við mögulegar afleiðingarnar ölvunaraksturs.
Hafa skal í huga að áfengi er lengi að fara úr líkamanum og í sumum tilfellum getur þurft að bíða í 14 – 18 klukkustundir áður en áfengi er farið úr blóðinu.
Sýnum tillitssemi í umferðinni um helgina.
The post Gott að hafa í huga yfir helgina appeared first on FRÉTTATÍMINN.