Skipstjóri dæmdur til að greiða 200.000 kr. og gjald lagt á 9.143.748 kr. aflaverðmæti – Sérstakt veiðileyfi Fiskistofu vantaði um borð í skipið sem kostar 22.000 kr.
Útgerðin sem gerði út skipið Dröfn RE 35 á Eldeyjarrækju hefur verið dæmd til að greiða bæði sekt upp á 200.000 kr. og gjald af aflaverðmæti sem nam 9.143.748 kr.
Veiðar skipsins voru stöðvaðar af varðskipi Landhelgisgæslu Íslands vegna ætlaðra ólöglegra togveiða á rækju á Eldeyjarsvæðinu.
Skipið hafði fullan kvóta og var ekki um að ræða að verið væri að fara fram yfir kvóta eða að verið væri að veiða án kvóta. Heldur snérist málið um það að útgerðinni hafði sést yfir að sækja um sérstakt veiðileyfi sem að kostar 22.000 krónur hjá Fiskistofu. En slíkt veiðileyfi hafði útgerðin áður fengið hjá Fiskistofu en ekki fyrir þá veiðiferð og afla sem að sektað var fyrir.
Skipið var svo fært til hafnar í Reykjavík og fór löndun fram 14. september 2015. Hið ætlaða fiskveiðibrot fólst í því að skipinu hefði verið haldið til framangreindra rækjuveiða án þess að hafa til þess áskilið sérleyfi Fiskistofu, sbr. 1. gr., sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 258/2012 um rækjuveiðar innfjarða. Landaður afli skipsins í umrætt sinn var 5.400 kg og var skráður til kvóta.
Kærði Landhelgisgæslan hið ætlaða brot til Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og sendi afrit af skýrslu sinni til Fiskistofu. Eftir stöðvun veiða Drafnar RE-35 var síðan gert tímabundið hlé á útgerð skipsins en í nóvember 2015 var veitt upp í það aflamark Eldeyjarrækju sem skipið átti eftir. Heildarafli skipsins í Eldeyjarrækju var 57.176 kg, en þar er meðtalinn afli úr veiðiferðinni þegar veiðarnar voru stöðvaðar, hinn 13. september 2015. Gjald vegna veiðileyfisins sem misfórst að sækja um var 22.000 krónur, en slíks leyfis hafði verið aflað við síðari veiðiferðir skipsins eins og áður sagði.
Þann 17. mars 2016 var skipstjóri Drafnar RE-35 sakfelldur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í sakamáli nr. S-606/2015, fyrir að hafa haldið skipinu til rækjuveiða á Eldeyjarsvæðinu, 13. september 2015, án þess að hafa til þess tilskilið sérveiðileyfi Fiskistofu og með því gerst brotlegur við þar tilgreind ákvæði laga nr. 79/1979 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og fyrrgreindrar reglugerðar nr. 258/2012 um rækjuveiðar innfjarða og var skipstjóranum gerð refsing með 200.000 króna sekt.
Með bréfi Fiskistofu, dags. 18. ágúst 2016, var útgerðinni tilkynnt að stofnunin myndi taka til ákvörðunar hvort lagt yrði á hann gjald vegna andvirðis ólögmæts sjávarafla, samtals 17.612 kg af Eldeyjarrækju, sem Dröfn RE-35 hefði aflað án þess að fyrir hefði legið leyfi Fiskistofu fyrir veiðiferðum sem lokið hefði með löndunum í september 2015.
Nánar tiltekið löndun 14. september 2015, á 5.400 kg af rækju, löndun 5. september 2015, á 8.128 kg af rækju og löndun 1. september 2015 á 4.048 kg af rækju. Var útgerðinni þá tilkynnt að andvirði aflans hefði verið reiknað út og væri það 9.143.748 krónur. Útgerðinni var veittur frestur til 5. september 2016 til þess að koma athugasemdum á framfæri við Fiskistofu.
Með bréfi Fiskistofu, dags. 6. september 2016, var útgerðinni svo tilkynnt um álagningu og innheimtu sérstaks gjalds vegna ólögmæts sjávarafla að fjárhæð 9.143.748 krónur og var vísað til 2. mgr. 1. gr. og 2. gr., sbr. 10. gr., laga nr. 37/1992 um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, en ella boðuð svipting á leyfi Drafnar til veiða í atvinnuskyni, frá kl. 10:00 þann 17. október 2016.
Í bréfinu var tilkynnt að heimilt væri að kæra ákvörðunina til Fiskistofu. Útgerðin kærði ákvörðunina til Fiskistofu hinn 15. september 2016, en með úrskurði Fiskistofu, dags. 5. október 2016, var framangreind ákvörðun stofnunarinnar um álagningu gjaldsins staðfest. Með tölvuskeytum frá útgerðinni, dags. 14. og 18. október 2016, var settur fyrirvari vegna væntanlegrar greiðslu gjaldsins og í kjölfarið var það svo greitt með millifærslu.
Útgerð skipsins kærði úrskurðinn svo til Héraðsdóms sem að staðfesti að aðgerðir Fiskistofu hefður verið lögmætar og útgerðinni var gert að greiða gjald vegna ólöglegra veiða.
Málaferli vegna þessa máls hafa verið viðamikil og tekið langan tíma eins og dómurinn ber með sér en hægt er að lesa dóminn í heild sinni HÉR
The post Skipstjóri dæmdur til að greiða 200.000 kr. og gjald lagt á 9.143.748 kr. aflaverðmæti – Sérstakt veiðileyfi Fiskistofu vantaði, upp á 22.000 kr. appeared first on Fréttatíminn.is.