Árni Harðarson, Vilhelm Róbert Wessman og Magnús Jaroslav Magnússon, voru í dag dæmdir í Hæstarétti til þess að greiða Matthíasi H. Johannessen 640,089,000 krónur ásamt dráttarvöxtum frá árinu 2012. Jafnframt ber þeim að greiða 7.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Krafðist Matthías H. Johannessen greiðslu að fjárhæð 640,089,000 krónum og reisti kröfuna á niðurstöðu yfirmatsgerðar um verðmæti allra hluta í Aztiq Partners AB þann 1. júlí 2010. Er það sú fjárhæð sem Matthías hefði á grundvelli þriðjungs eignahlutar í Aztiq Pharma Partners ehf. mátt vænta að fá við sölu á hlut sínum í félaginu á þeim tíma.
Málavextir :
Hæstiréttur telur að hinir dæmdu hafi með ólögmætri og saknæmri háttsemi staðið í vegi fyrir því að Matthíasi H. Johannessen fengi notið réttinda sinna sem hluthafi í félaginu.
Í mars 2009 keyptu aðilar málsins alla eignarhluti í lyfjafyrirtæki. Samkvæmt framsalssamningnum átti Róbert Wessman 94% hlut í félaginu en hinir 2% hlut hver.
Í viðauka sem bar með sér að hafa verið undirritaður sama dag og framsalssamningurinn kom fram að gerð hefði verið sú breyting að Árni Harðarson keypti þau 94% hlutafjárins sem Róbert Wessman hefði skráð sig fyrir og varð sá síðarnefndi því ekki hluthafi í APP ehf.
Helsta eign APP ehf. var dótturfélag þess AP AB sem átti félagið APPS SICAR en það átti 30% hlut í AASC sem var móðurfélag rekstrarfélaga um lyfjaverksmiðju í Bandaríkjunum. Í júlí 2010 voru allir hlutir APP ehf. í dótturfélaginu AP AB framseldir til AP ehf. á nafnvirði hlutafjárins en AP ehf. var í eigu Árna Harðarsonar.
Á árinu 2011 hófust deilur milli aðila um það hvort að efni áðurgreinds viðauka hefði falið í sér framsal hlutafjár Róberts Wessman í APP ehf. til Árna Harðarsonar, þannig að stofnast hefði til forkaupsréttar Matthíasar H. Johannessen á grundvelli samþykkta félagsins.
Með dómi Hæstaréttar 28. nóvember 2013 í máli nr. 367/2013 var viðurkennt að Matthías H. Johannessen , Árni Harðarson og Magnús Jaroslaw ættu, að APP ehf. frágengnu, forkaupsrétt að 470.000 hlutum í félaginu á verðinu ein króna á hlut vegna fyrrnefnds framsals frá Róberti til Árna.
Matthías H. Johannessen höfðaði svo mál þetta til heimtu skaðabóta. Taldi hann að hinir dæmdu hefðu með saknæmum og ólögmætum hætti valdið honum sem hluthafa í APP ehf. tjóni þegar þeir sem stjórnarmenn í félaginu hefðu selt helstu eign þess, alla hluti í dótturfélaginu AP AB, til AP ehf. félags í eigu Á, án þess að viðhlítandi endurgjald hefði komið fyrir og án þess að halda hluthafafund um málið.
Dómkröfur Matthíasar H. Johannessen voru á því reistar að samkvæmt fyrrnefndum dómi Hæstaréttar hefði honum á grundvelli forkaupsréttarákvæðis samþykkta APP ehf. verið tryggt tilkall til þriðjungs eignarhluta í félaginu. Í dómi Hæstaréttar var með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest sú niðurstaða að eignarhlutir APP ehf. í AP AB hafi við söluna til AP ehf. verið seldir á undirverði og jafnframt að stjórn APP ehf. hefði mátt vera fulljóst að með þeirri ráðstöfun hefðu hagsmunir eins hluthafa í félaginu með ótilhlýðilegum hætti verið teknir fram yfir hagsmuni félagsins og þar með annarra hluthafa.
Var því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að með sölunni hefðu aðilar málsins bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart Matthíasi H. Johannessen vegna þess tjóns sem hann kynni að hafa orðið fyrir vegna þess að hlutirnir hefðu verið seldir á undirverði.
Þá kom fram að Matthías H. Johannessen leitaðist eftir því með dómkröfum sínum að verða eins settur fjárhagslega og hann hefði orðið ef forkaupsréttur hans að þriðjungs hlut í APP ehf. hefði verið virtur af aðilum málsins.
Var talið í ljósi atvika málsins stæðu lög því ekki í vegi að Matthías H. Johannessen gæti beint málsókn á þessum grundvelli á hendur Árna Harðarsyni, Róberti Wessman og Magnús Jaroslaw og vísað til þess að önnur varakrafa væri reist á niðurstöðu yfirmatsgerðar um verðmæti allra hluta í AP AB í júlí 2010 og væri það sú fjárhæð sem Matthías H. Johannessen hefði á grundvelli þriðjungs eignarhlutar í APP ehf. mátt vænta við sölu á hlut sínum í félaginu á því tímamarki. Var því talið að Matthías H. Johannessen ætti rétt til skaðabóta.
The post Dæmdir til að greiða 640 millj. auk dráttarvaxta frá 2012 í Hæstarétti appeared first on Fréttatíminn.is.