Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Mikið álag hjá Persónuvernd. Um 2.000 mál á ári

$
0
0
Mikið álag hefur verið á Persónuvernd undanfarin misseri vegna mikils fjölda mála sem að henni berst á ári hverju og mannekklu. Persónuvernd berast tæp 2.000 mál á ári og þessum málafjölda sinna í dag aðeins sjö starfsmenn
Óafgreidd mál eru nú rúmlega 500 og því eru um og yfir 80 mál til afgreiðslu hjá hverjum. Fréttatíminn leitaði upplýsinga um gang mála hjá Persónuvernd hjá Vigdísi Evu Líndal, skrifstofustjóra upplýsingaöryggis.
Vigdís Eva Líndal

,, Samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 ber Persónuvernd að afgreiða mál eins fljótt og unnt er. Verkefnastaðan hjá Persónuvernd hefur verið erfið um langt skeið, enda hefur stofnunin glímt við alvarlega undirmönnun í mörg ár. Á sama tíma hafa verkefni stofnunarinnar þrefaldast.

Þetta leiddi m.a. til neyðarbeiðni til þáverandi innanríkisráðuneytis, dags. 27. desember 2016, umsagnar til fjárlaganefndar Alþingis sl. vor og frétta á vefsíðu stofnunarinnar síðastliðið haust um að fyrirsjáanlegar tafir yrðu á afgreiðslu allra mála hjá Persónuvernd.

Loks var ákveðið í fjárlögum 2018 að bregðast að einhverju leyti við framangreindri stöðu hjá Persónuvernd með um 80% aukningu á fjárheimildum. Vegna þessa voru nýlega auglýstar fimm lausar stöður hjá stofnuninni, sem 215 manns sóttu um.

Persónuvernd berast tæp 2000 mál á ári og þessum málafjölda sinna í dag sjö starfsmenn. Óafgreidd mál eru nú rúmlega 500 og því eru um og yfir 80 mál til afgreiðslu hjá hverjum starfsmanni ásamt því sem ný mál berast á degi hverjum, en það sem af er þessu ári hafa verið skráð 320 ný mál.

Persónuvernd þykir miður að geta ekki sinnt innkomnum erindum betur, en á meðan stofnunin er undirmönnuð eru tafir á málsmeðferð og svörum til málsaðila óhjákvæmilegar.

Hvað afgreiðslutíma varðar er ekki unnt að gefa upp nákvæma tímasetningu að svo stöddu, þar sem hann fer eftir eðli og umfangi máls hverju sinni. Hins vegar skal tekið fram að öll þau mál sem berast Persónuvernd eru sett í viðeigandi farveg og er málsaðilum tilkynnt um það þó svo að á því geti orðið töf í ljósi verkefnastöðu stofnunarinnar. Þá er málum forgangsraðað eftir alvarleika og umfangi þeirra hverju sinni.“ sagði Vigdís Eva Líndal, skrifstofustjóri um stöðu mála varðandi Persónuvernd.

The post Mikið álag hjá Persónuvernd. Um 2.000 mál á ári appeared first on Fréttatíminn.is.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652