Linnulausar sprengjuárásir á óbreytta borgara í Austur-Ghouta falla undir stríðsglæpi
Í kjölfar frétta um stigmagnandi sprengjuárásir af hálfu sýrlenskra stjórnvalda í bandalagi við Rússland þar sem fjöldi fólks hefur fallið og hundruð særst á liðnum mánuði, hafði rannsakandi Amnesty International í Sýrlandi, Diana Semaan, þetta að segja:
„Sýrlensk stjórnvöld, með stuðningi Rússlands, eru af ásettu ráði að ráðast á sitt eigið fólk í Austur-Ghouta. Fólkið hefur ekki aðeins þjáðst vegna grimmilegs umsáturs síðastliðin sex ár, heldur er það núna lokað inni vegna daglegra árása þar sem vísvitandi er verið að myrða það og örkumla. Það fellur undir svívirðilega stríðsglæpi. Í sex ár hefur alþjóðasamfélagið staðið aðgerðalaust hjá á meðan sýrlensk stjórnvöld hafa refsilaust með öllu framið glæpi gegn mannúð og stríðsglæpi.“
„Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna verður að framfylgja eigin ályktun um að binda enda á umsátur borgaralegra svæða og árásir á óbreytta borgara og veita óhindraðan aðgang fyrir mannúðarstarf. Varanleg aðildarríki, þar á meðal Rússland, mega ekki að hindra aðgerðir til að binda enda á grimmdarverk. Áríðandi er að öryggisráðið sendi skýr skilaboð um að refsleysi þeirra sem fremja stríðsglæpi og glæpi gegn mannúð verði ekki liðið. Hörmungarnar í Sýrlandi eru skólabókardæmi um háan fórnarkostnað óbreyttra borgara vegna refsileysis fyrir grimmdarverk.“
„Stríðandi fylkingar verða að uppfylla skyldur sínar í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og tryggja óbreyttum borgurum sem vilja flýja svæðið örugga flóttaleið auk þess að leyfa óhindraðan aðgang mannúðarsamtaka til að veita aðstoð fyrir hundruð þúsunda sem eru í neyð í Austur-Ghouta.
Amnesty International hefur áður skjalfest ólöglegt umsátur og morð á óbreyttum borgurum, þar á meðal notkun á klasasprengjum, sem bannaðar eru á alþjóðavísu, í Austur-Ghouta af hálfu sýrlenskra stjórnvalda í trássi við alþjóðleg mannúðarlög.
Samtökin hafa einnig skjalfest brot gegn alþjóðlegum mannúðarlögum af hálfu Her íslams, vopnaðs stjórnarandstöðuhóps í Austur-Ghouta. Þar á meðal er ólögleg notkun á sprengikúlum á borgaralegu svæði undir stjórn stjórnvalda og hamlanir á ferðum óbreyttra borgara út úr Austur-Ghouta.
Á þriðjudagsmorgni greindi Syrian Arab News Agency frá því að fimm óbreyttir borgarar og 20 aðrir hafi særst eftir sprengikúlu í Austur-Ghouta.
Heilbrigðisstarfsfólk ber vitni um skelfilegt mannúðarástand í Austur-Ghouta
Amnesty International hefur safnað saman vitnisburði heilbrigðisstarfsfólks í Austur-Ghouta sem lýsa örvæntingarfullum aðstæður á spítölum þar sem starfsfólkið er ofurliði borið vegna hundruð mannsfalla í síðustu sprenguárásum. Birgðir eru á þrotum, stöðug ógn af loftárásum og aukin vannæring er að hafa hræðilegar afleiðingar fyrir börn og fullorðna.
The post Sprengjuárásir á borgara í Austur-Ghouta eru stríðsglæpir appeared first on Fréttatíminn.is.