Hálfdán Óskarsson, framkvæmdastjóri vestfirska mjólkurframleiðandans Örnu, segir verðlagsnefnd búvara vera tímaskekkju.
„Við höfum ákveðið að taka þessa hækkun á okkur núna og sjá svo til hvernig mál munu þróast,“ segir Hálfdán Óskarsson, framkvæmdastjóri mjólkurvinnslunnar Örnu í Bolungarvík. Arna hefur ákveðið að hækka ekki verð á vörum sínum þrátt fyrir ákvörðun verðlagsnefndar búvara um hækkun á mjólkurvörum sem tekur gildi 1. ágúst.
Hálfdán segist ekki vera sáttur við ákvörðun verðlagsnefndar, óljóst sé hvaða hagsmuni nefndin sé að vernda. Hann segir erfitt fyrir Örnu að keppa við MS þegar fyrirtækið þurfi að greiða rúmlega 10 krónum hærra verð fyrir mjólkurlítrann. „Ég sé ekki rök fyrir því að mjólkurverð til okkar hækki um fjórar krónur á lítra. Sérstaklega ekki þegar sjálfur mjólkurframleiðandinn fær bara eina og hálfa krónu og restin rennur beint í vasa MS. Svo finnst mér að fyrirtæki eigi almennt að halda í við sig núna, því það skiptir gríðarlegu máli að verðbólgan fari ekki af stað núna í kjölfar nýgerðra kjarasamninga.“
Hálfdán segir verðlagsnefnd vera tímaskekkju. „Fulltrúar verkalýðsins og neytenda eru ekki einu sinni lengur í nefndinni. Núna eru þarna fulltrúar MS og ríkisins sem ákveða hvað sé eðlileg hækkun á mjólkurvörum. Það er ekki eðlilegt.“
Mjólkurfyrirtækið Arna var stofnað árið 2013. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á laktósafríum mjólkurafurðum fyrir einstaklinga sem finna fyrir óþægindum við neyslu á venjulegum mjólkurafurðum og nota til þess mjólk sem er framleidd á Vestfjörðum.
The post Arna mun ekki hækka mjólkurverð appeared first on FRÉTTATÍMINN.