Hluti af sífellt fjölbreyttari matarmenningu borgarinnar eru matarvagnarnir sem spretta nú upp eins og gorkúlur um alla borg.
Vagnarnir bjóða borgarbúum ekki síður en svöngum ferðamönnum upp á fjölbreytt úrval hagstæðra og einfaldra rétta sem auðvelt er að grípa hvenær sem er yfir daginn. Gamli góði pylsuvagninn stendur alltaf fyrir sínu en það er óneitanlega gaman að sjá matarflóruna blómstra í takt við aukið líf í bænum. Á bak við litla vagnana má líka finna frumkvöðla sem deila hér sögum sínum.
Vildu flytja Bretland til Íslands
„Við erum þrenn hjón sem rekum þetta saman. Við bjuggum öll saman úti í Englandi þar sem karlmennirnir voru að selja íslenskan fisk. Þar kynntumst við þessari hefð sem okkur hefur lengi langað til að flytja til Íslands. Við erum búin að ráða til okkar yngra fólk til að standa vaktina en þegar unga fólkið þarf að kíkja á útihátíðir hlaupum við í skarðið og okkur finnst voða gaman að vera hér. Hér er svo fallegt og mannlífið svo fjölbreytt og skemmtilegt,“ segir Elsa Þuríður.
„Við seljum 70.000 tonn af sjófrystum beinlausum flökum á ári og það er langstærsti markaðurinn okkar, þökk sé þessum rétti. Vinsældir réttarins er að aukast í Bretlandi og það er vegna þess að hráefnið er orðið svo jafn gott. Sjálf fáum við okkar fisk frá togaranum Arnari frá Skagaströnd,“ segir Höskuldur.
Fish and Chips Vagninn
Hlésgötu, við Vesturbugt gömlu hafnarinnar.
Opið alla daga frá 11-21
Fiskur og franskar 1.590,-
Vagn að austur-evrópskri fyrirmynd.
„Það er mjög mikið um svona djúpsteikingarvagna í Austur-Evrópu og meðeigandi minn kynntist þessu þar og ákvað að prófa þetta hér. Hann ákvað að leggja allt í sölurnar með þennan vagn og það gengur frábærlega vel. Þetta byrjaði rólega en nú er fólk farið að þekkja okkur og við höfum fengið mjög góðar umsagnir á Trip Advisor frá fólki sem elskar staðinn.“ Ég var í námi í Flensborg þegar mér bauðst að vera meðeigandi og ég ákvað að slá bara til. Nú er ég í fjarnámi og vinn hér með og svo stefnum við á að opna búð við Dalveginn í haust.“
Don Donuts
Við Hlemm
Opið alla daga frá 11:30-21, og fram á nótt við Lækjartorg um helgar.
6 litlir kleinuhringir með sósu 500 kr
Safnar fyrir kokkaskóla í Frakklandi

Lárus Guðmundsson opnaði Vefjuvagninn í sumar til að fjármagna gamlan draum; að fara í kokkanám til Frakklands.
„Ég er að safna mér fyrir kokkanámi í fínum skóla í Frakklandi því draumurinn minn er að læra franska matargerð. Ég eldaði mína fyrstu máltíð þegar ég var sjö ára og síðan þá hefur bakterían verið mjög sterk í mér.“
„Að opna matarvagn fannst mér vera góð leið til að safna fyrir náminu því mig langar ekki að láta LÍN lána mér fyrir því heldur ætla ég að fjármagna það sjálfur. Ég held að það sé miklu betra að koma mér í skuldir núna til að geta safnað og átt sjálfur fyrir náminu heldur en að skulda LÍN alltaf pening. Þannig slæ ég líka tvær flugur í einu höggi, æfi mig í að kokka og læri inn á bissness. Eftir mikla hugmyndavinnu með pabba mínum komumst við að því að vefjur væru sniðugur kostur, engin hnífapör og ekkert vesen. Og það gengur bara mjög vel, ég er bjartsýnn á að komast í skólann.“
Vefjuvagninn
Við Geirsgötu
Opið alla daga frá 11:30 -19
Lambakarrý eða Chili con carne 1.200 kr.
Tuttugu og fimm ára gömul uppskrift
„Það hefur blundað í mér í mörg, mörg ár að opna svona vagn en ég kom því ekki í verk fyrr en núna í sumar. Ég er matreiðslumeistari að mennt en vann í veiðihúsi þar sem ég leiðsagði og eldaði fiskisúpu fyrir ferðamenn í meira en 20 ár. Uppskriftin er frá mér og hún er sennilega svona 25 ára gömul, uppistaðan í henni er lax og rækjur. Ég var eiginlega alveg pottþéttur á því að þessi súpa myndi slá í gegn en ég er líka með grænmetissúpu og kjötsúpu. Það koma aðallega til mín túristar en líka Íslendingar. Ég er nú þegar kominn með nokkra fastakúnna og það er bara mjög gaman að þessu.“
Farmers soup
Framan við Kolaportið bílastæðahús
Opið alla daga frá 11-19
Fiskisúpa, grænmetissúpa eða kjötsúpa 1.090 kr.
Einn af elstu vögnum Reykjavíkur
„Það er fjölskylda sem rekur þennan vagn en hann var einn af fyrstu matarbílunum í Reykjavík, fjórtán ára gamall. Ég er frá Hollandi og kom hingað fyrst fyrir þremur árum til að fara í doktorsnám í tölvunarfræði. Ég er ekki enn búin með doktorinn en ákvað að vinna hér í sumar. Ég verð samt í fríi um helgina því ég er að fara að gifta mig á laugardaginn!“
Vöffluvagninn
Við Hallgrímskirkju
Opið alla daga frá 11-19 , og fram á nótt um helgar á Lækjartorgi.
Belgísk vaffla 590 kr.
Allir vilja humar
„Ég varð atvinnulaus í fyrra og hvað átti ég að gera? Ég fór að ræða við krakkana mína og þá kom þessi hugmynd og humarinn kom sterkastur inn því enginn er með hann og humar er eitthvað sem allir vilja. Þetta er skyndibiti sem þú færð ekki á mörgum stöðum í heiminum. Það er hægt að fá góðar Maine-humarsamlokur í Bandaríkjunum en þær kosta hvítuna úr augunum á þér. Ég er með hollt og gott hráefni og þetta virkar. Þetta er ofboðslega mikil vinna því ég er bara ein, en þetta er líka alveg rosalega gaman.“
Lobster Hut
Við Hlemm
Opið alla daga frá 11:30-21, og til 02 á virkum dögum og til 06 um helgar á Lækjartorgi.
Humarsúpa 1.420 kr, Humarsamloka 2.080 kr, Humarsalat 1.640 kr
The post Blómstrandi matarmenning borgarinnar appeared first on FRÉTTATÍMINN.