Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Þótti klikkuð að vilja byggja kúluhús

$
0
0

Þegar Gerður Jónasardóttir varð ekkja langaði hana til að skipta um umhverfi. Eftir að hafa fengið dularfulla skipun um að byggja kúluhús leið ekki nema vika þar til hún hafði fundið stað fyrir húsið og arkitekt  til að byggja það. Hún segist örugglega vera jafn klikkuð og fólk hafi talið hana vera á sínum tíma en kúluhúsið hafi veitt henni meira en gott skjól í tuttugu ár, það sé algjör paradís og hún vilji hvergi annarsstaðar vera. 

Ég hafði bara engan áhuga á því að fara að þvo nærbuxur og táfýlusokka af einhverjum karli. Ég held ég hafi hneykslað marga alveg niður í tær og ég veit að ég þótti stórskrýtin, en mér er alveg sama. 

IMG_8988 (4)

Gerður Jónasardóttir byggði sitt fyrsta hús með Jóni, manninum sínum heitnum, á Hellu. Þegar synirnir voru orðnir tveir ákváðu hjónin að flytja í stærra hús þar sem þau bjuggu allt þar til Jón lést árið 1991. „Það hús var allt fullt af litlum herbergjum og veggirnir voru fyrir mér eftir að Jón var farinn og strákarnir fluttir að heiman,“ segir Gerður. „Ég var búin að ákveða að brjóta niður alla veggi þegar mér var sagt að ég ætti að búa í kúluhúsi.“

„Það var nú þannig að ég vann í Tjaldborg, sem var saumastofa hér á Hellu. Einn föstudaginn þegar allir voru farnir heim var ég ein eftir að ganga frá upp í pöntun. Það var enginn í húsinu, ekki nokkur maður, en ég heyrði allt í einu sagt við mig; „Þú átt að byggja kúluhús.“ Þetta var svo afgerandi og skýrt að ég vissi að ég þyrfti að gera þetta. Svo ég sagði bara upphátt, ein á saumastofunni; „Já, ég skal gera það“, án þess að hafa nokkra hugmynd um hvað ég væri að segja. Svo fór ég að gá hvort einhver sé í húsinu en fann ekki sálu.“

Gerður fékk ekki frið fyrir þessari upplifun og velti því stöðugt fyrir sér hvað kúluhús eiginlega væri því hún hafði aldrei heyrt um það fyrr, en ákvað svo með sjálfri sér að þetta væri nú meiri dellan, hún yrði að steinhætta að spekúlera í þessu. „Ég tók fram plötuspilarann minn um kvöldið og setti á plötu til að slaka á og reyna að gleyma þessu. Tók svo fram aðra og aðra plötu fram og var svo til hætt að hugsa um þetta þegar ég dró fram gamalt dagblað, hvort það var ekki Lesbókin, undan plötubunkanum. Ég var nú frekar hissa því það átti ekki að vera neitt annað en plötur í þessum skáp, en í þessu blaði var viðtal við kúluhúseiganda á Ísafirði. Ég marglas viðtalið og ákvað svo að ég skyldi hringja í þennan mann strax daginn eftir.“

„Ég kynnti mig fyrir Elíasi, kúluhúsaeigandanum, og sagði honum að ég þyrfti að byggja kúluhús en að ég bara vissi ekki hvernig ég færi að því. Hann sagðist nú geta komið mér í skilning um það og bauðst meira að segja til þess að byggja húsið fyrir mig gæti ég ekki gert það sjálf, en hann hafði byggt tvö kúluhús eftir teikningum Einars Þorsteins, þetta á Ísafirði og annað á Hofi í Vatnsdal.“

IMG_9044

Nú var Gerður orðin handviss um að hún ætti að byggja kúluhús og reyndi í heila viku að ná í kúluhúsaarkitektinn, Einar Þorstein, þar til hún náði loks af honum tali. „Ég sagði honum að ég þyrfti að byggja kúluhús, hvort hann gæti ekki hjálpað mér og jú, hann var til í það.“

Eftir að hafa tekið ákvörðun um að byggja húsið leið ekki nema vika þar til Gerður fann réttu lóðina og við tók langt samtal við arkitektinn um húsið.
„Mér leist ekkert á fyrstu skissurnar hans Einars. Hann sendi mér tíu útgáfur áður en ég varð ánægð. Ég sagði honum að ég hefði engan hug á því að búa í sumarbústað, þetta ætti að vera alvöru heimili, en ekki eitthvað átján krónu spýtuhús.“

IMG_9007 (2)

Gerður og Einar Þorsteinn náðu svo sameiginlegri lendingu og tveimur árum síðar, árið 1994, flutti Gerður inn kúluhúsið sitt. „Við Einar urðum miklir vinir og hann kom hér oft í heimsókn og kom þá oftast með afleggjara með sér því hann var svo mikill plöntukarl. En hann kom líka hingað með erlenda prófessora sem höfðu mikinn áhuga á húsinu. Einar sagði mér að ég þyrfti aldrei að hafa áhyggjur af jarðskjálfta í kúluhúsinu, það myndi standa allt af sér. Ég hef aldrei miklar áhyggjur af neinu, hvað þá af jarðskjálftum, en mér varð hugsað til hans þegar skjálftinn reið hér yfir 17. júní 2000. Ég var eitthvað að vesenast í gróðurhúsinu en tók mér svo pásu og settist á stól hérna á miðju gólfi undir glerinu þegar ég fann jörðina nötra undir mér. Mér brá auðvitað en ég sat samt róleg í stólnum og datt ekki í hug að fara út því hann Einar var búinn að segja mér að ég þyrfti ekki að vera hrædd við jarðskjálfta í húsinu. Og hann sagði satt, það brotnaði allt laust hérna inni en það sást alls ekkert á húsinu.“

„Ég hef aldrei séð eftir þessari ákvörðun. Sumsstaðar líður fólki ekki vel allan sinn búskap en lætur sig samt hafa það en mér líður afskaplega vel hérna og vildi hvergi annarsstaðar vera. Vorið er uppáhalds árstíminn minn því þá er allt að lifna við, en það er líka afskaplega notalegt að vera hér þegar allt er á kafi í snjó. Þá liggur snjórinn yfir glerinu lokar á mesta alla birtu en líka allt hljóð.“

IMG_9068

Gerður segir fólk almennt hafa verið mjög hissa á því að hún, fullorðin konan, skyldi taka upp á því að byggja sér kúluhús, ekki síst vegna þess að hún tók ákvörðunina ein. „Ég var nú oft spurð að því hvort ég væri biluð og svaraði iðulega að það hlyti ég að vera,“ segir Gerður og skellir upp úr. „Svo voru margir sem sögðu mér að ég þyrfti heldur að ná mér í kall og láta hann gera hlutina fyrir mig en ég sagðist ekki hafa tíma til þess. Ég hafði bara engan áhuga á því að fara að þvo nærbuxur og táfýlusokka af einhverjum karli. Ég held ég hafi hneykslað marga alveg niður í tær og ég veit að ég þótti stórskrýtin, en mér er alveg sama. Hver verður bara að fá að vera eins og hann er skapaður.“

IMG_9103 (2)

Einar Þorsteinn Ásgeirsson ( 1942-2015)Einar Þorsteinn lauk prófi í arkitektúr frá Hannover árið 1962 og starfaði síðar á teiknistofu Frei Otto. Hann kynntist snemma hugmyndum Richards Buckminster Fuller sem varð mikill áhrifavaldur í öllum hans störfum. Einar Þorsteinn vann við arkitektúr í Þýskalandi og á Íslandi auk þess að skrifa greinar fyrir blöð og bækur. Hann starfaði með fjölda listamanna en síðustu árin var hann einn helsti aðstoðarmaður Ólafs Elíassonar í Berlín þar sem hann vann að ýmsum verkum og hannaði meðal annars glerhjúp Hörpu. Einar Þorsteinn hélt margar sýningar á verkum sínum í Evrópu og á Íslandi var haldin yfirlitssýning á ferli hans í Hafnarborg árið 2011. Á sýningunni, sem hét Hugvit, var Einar Þorsteinn kynntur sem rannsakandi listamaður sem fylgdi þeirri sannfæringu að hugvitið geti byggt betri heim sé því beitt rétt.

IMG_9121 (4)

The post Þótti klikkuð að vilja byggja kúluhús appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652