Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Intersex- og transfólk rekst enn á veggi í kerfinu

$
0
0

„Við höfum rekið á okkur það undanfarin ár að það er margt í heilbrigðiskerfinu sem er ekki nógu gott fyrir hinsegin fólk,“ segir Ásta Kristín Benediktsdóttir ritari Hinsegin daga, aðspurð um þema hátíðarinnar í ár, heilsu og heilbrigðismál. „Þar má helst nefna ferlið sem intersex og transfólk er sett í innan kerfisins eða þá þjónustu sem það fær ekki aðgang að. Það er annarsvegar þannig að intersex fólk er látið fara í skurðaðgerðir sem eru ekki nauðsynlegar og hinsvegar þá fær transfólk ekki þá þjónustu sem það myndi vilja fá. Þetta er eitthvað sem okkur finnst að mætti laga í kerfinu og því viljum við vekja athygli á heilbrigðismálum þetta árið.

Ásta Kristín segir Hinsegin daga auk þess vilja vekja athygli á málefnum HIV-smitaðra. „Þó það sé hægt að halda HIV niðri í dag þá eru ýmis önnur heilbrigðisvandamál sem tengjast því sem þarf að tala um. Eins og til dæmis skömm og önnur andleg vanlíðan.“

Hinsegin dagar hefjast með formlegum hætti á hádegi í dag þegar Eva María Þórarinsdóttir Lange formaður Hinsegin daga og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opna ljósmyndasýningu á Skólavörðustígnum. Ljósmyndirnar koma úr einkasafni Geirax en hann hefur myndað viðburði tengda hátíðinni um árabil. Í framhaldi af opnun ljósmyndasýningarinnar munu Dagur og Eva María taka þátt í götumálun þar sem Skólavörðustígnum verður breytt í regnboga. Nóg verður af málningu á staðnum og er fólk hvatt til að koma með eigin pensla og rúllur og leifa svo sköpunargleðinni að njóta sín.

Þema Hinsegin daga, sem eru haldnir í sautjánda sinn í ár, er heilsa og heilbrigði og munu þrjátíu fjölbreittir viðburðir standa gestum til boða fram til sunnudagsins 9. ágúst. Í boði verða m.a. tónlistarviðburðir, ljósmyndasýningar, sirkusveisla, dansleikir og fræðsluviðburðir svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Sem fyrr nær hátíðin hámarki með Gleðigöngu Hinsegin daga og Regnbogahátíð við Arnarhól laugardaginn 8. ágúst þar sem líkt og fyrri ár má búast við tugþúsundum gesta. Nánari upplýsingar um dagskrá Hinsegin daga má finna á www.hinsegindagar.is.

The post Intersex- og transfólk rekst enn á veggi í kerfinu appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652