Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Smíða sérstakan búnað til að bjarga hnúfubaki í háska

$
0
0
Rúm vika er síðan hvalaskoðunarbátar urðu varir við hnúfubak sem er flæktur í veiðarfærum á Faxaflóa. Icewhale, samtök hvalaskoðunarfyrirtækja, fór á þriðjudag fyrir leiðangri þar sem reynt var að losa hnúfubakinn úr veiðarfærunum. Ekki náðist þó að losa hann að fullu og stefnt er á frekar björgunaraðgerðir um helgina þar sem notast verður við sérsmíðaðan björgunarbúnað.
22620 maria bjork

María Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Hvalaskoðunarsamtökum Íslands.

Vel er fylgst með hnúfubaki á Faxaflóa en hvalurinn er flæktur í veiðarfæri sem hafa sært hann. Fyrst sást til hnúfubaksins 31. júlí, en veðurskilyrði til björgunaraðgerða voru ekki hagstæð fyrr en síðastliðinn þriðjudag. „Þetta var mögnuð upplifun,“ segir María Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Hvalaskoðunarsamtökum Íslands – Icewhale, sem var með í för í leiðangrinum. „Það kom okkur hins vegar mest á óvart hversu hress hnúfubakurinn var, ef svo má segja. Hann var heldur skelkaður þegar við komum að honum en róaðist svo að aðgerðunum loknum. Það var því mikill léttir fyrir okkur að sjá að hann virðist pluma sig ágætlega miðað við aðstæður. En það er ljótt að sjá sárið sem hefur myndast í sporðinum.“

Icewhale naut aðstoðar frá Landhelgisgæslunni við aðgerðirnar. „Hvalaskoðunarfyrirtækin í Reykjavík leituðu eftir aðstoð okkar við að skera veiðarfærin af hvalnum,“ segir Auðunn Kristinsson, starfandi framkvæmdastjóri hjá aðgerðasviði Landhelgisgæslunnar. Þrír harðbotna vélbátar voru notaðir við leiðangurinn, þar af tveir frá hvalaskoðunarfyrirtækjunum Special Tours og Whale Safari. Landhelgisgæslan sendi Óðin, nýjan 10 metra strandgæslubát á vettvang, en báturinn var formlega tekinn í notkun þennan dag. „Við náðum að skera veiðarfærin úr sporðinum á honum, en það er eitthvað í munnvikinu á honum, skilst mér, og það gæti orðið erfitt að eiga við það.“ Björgunaraðgerðirnar heppnuðust því ekki sem skyldi.

Hvalabjörgun ekki á ábyrgð Landhelgisgæslunnar
Auðunn segir að verkefni af þessu tagi sé í raun ekki á ábyrgð Landhelgisgæslunnar. „En við aðstoðum að sjálfsögðu eins og við getum um helgina ef við erum beðnir um það. Við viljum auðvitað ekki að dýrið þjáist. Veðurspá fyrir helgina er hins vegar ekki eins og best er á kosið.“ Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Landhelgisgæslan tekur þátt í að bjarga hval úr hremmingum. „Í fyrra skárum við hval úr veiðarfærum í Húnaflóa,“ segir Auðunn.

Leita ráða hjá erlendum sérfræðingum
María segir að stefnt sé á frekari björgunaraðgerðir um helgina. „Undirbúningurinn heldur áfram þar sem ekki viðrar nógu vel til beinna aðgerða. Við höfum skipulagt símafund með með Brian Sharp, sérfræðingi hjá Alþjóðadýravelferðarsjóðnum, og höfum þegar verið í sambandi við sérfræðinga innan Alþjóðahvalveiðiráðiðsins, auk innlendra aðila sem koma að málinu.“ Erfitt er að komast að hnúfubaknum og vonast María eftir aðstoð frá viðbragðsteymi erlendis. „Við fáum vonandi ráðgjöf frá þeim hvernig hægt er að smíða búnað sem gæti nýst við björgunina. Þetta þarf ekki endilega að vera dýr búnaður en hann þarf að virka þannig að dýrið hljóti sem minnstan skaða af. Einn af aðalskipstjórunum hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Eldingu hefur verið í sambandi við erlenda aðila varðandi leiðbeiningar um hvernig hægt sé að smíða slíkan búnað.“

Meðan á undirbúningnum stendur er vel fylgst vel hnúfubaknum. „Hvalaskoðunarskipin, sem eru í sínum daglegu ferðum, fylgjast með hnúfubaknum og ástandi hans á meðan björgunaraðgerðirnar eru undirbúnar. Þegar björgunarbúnaðurinn er klár og veðurskilyrði orðin hagstæð munum við svo láta Landhelgisgæsluna vita áður en við förum af stað aftur,“ segir María.

22620 hvalur aðalmynd

Hnúfubakur hefur verið flæktur í veiðarfærum á Faxaflóa í rúmlega viku. Hvalaskoðunarsamtök Íslands hafa staðið að einum björgunarleiðangri sem ekki tókst sem skyldi og því er stefnt á annan um helgina þar sem notast verður við sérsmíðaðan björgunarbúnað. Mynd/María Björk

 

 

The post Smíða sérstakan búnað til að bjarga hnúfubaki í háska appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652