Harpa Njáls og Ingibjörg S. Guðmundsdóttir skrifa:
Framundan er gleði- og baráttuganga Samtakanna´78 sem orðin er fastur liður í íslensku samfélagi. Jafnframt viljum við minnast þess að 15 ár eru liðin frá því grunnur var lagður að starfi FAS – Samtaka foreldra og aðstandenda samkynhneigðra. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og viðhorf samfélagsins opnast gagnvart fjölbreytileika mannlífsins – ekki síst fyrir ötult starf Samtakanna´78 – þar sem foreldrar og aðstendendur hafa lagt hönd á plóg.
Starfsemi FAS var sjálfsprottin og braust fram eftir baráttugöngu samtakanna árið 2000. Þörfin var knýjandi. Fordómar gagnvart samkynhneigð og samkynhneigðum höfðu dunið á foreldrum í langa tíð – ekki síst mæðrum og meðal annars á virtum vinnustöðum. Þeir fordómar urðu drifkraftur til að umbreyta sársauka í þekkingu, fræðslu og gleði. Frumkvöðlastarf varð til – sem borið var uppi af eldmóði kvenna.
Hver varð afraksturinn?
Starf FAS fékk strax fast skipulag og unnið var markvisst að því að ná til aðstandenda og samfélags. Lögð var áhersla á samvinnu við Samtökin´78 – enda hagsmunamálin sameiginleg. Hlutverk okkar og markmið var tvíþætt: Að styðja foreldra og aðstandendur samkynheigðra, deila hvert með öðru reynslu okkar styrk og vonum og vera sterkt bakland fyrir okkar fólk. Jafnframt var langtímamarkmið að leitast við að hafa áhrif á viðhorf í samfélaginu með fræðslufundum og þátttöku í þjóðmálaumræðu. Strax var hafist handa við að skipuleggja opna fræðslufundi sem haldnir voru einu sinni í mánuði í húsnæði Samtakanna´78. Fundirnir féllu í góðan jarðveg og sköpuðust miklar og gagnlegar umræður. Við vorum sýnileg. Við töldum mikilvægt að samfélagið áttaði sig á því að samkynhneigðir og hinsegin fólk ættu sterkt bakland. Samkynhneigð er fjölskyldumál og snertir marga. Í ræðum og blaðagreinum sýndum við fram á að með einfaldri tölfræði mætti færa líkur að því að minnst 5% þjóðarinnar væru samkynhneigðir og með þeirra allra nánustu snerti samkynhneigð 25% þjóðarinnar. Við vorum staðráðin í að vera þátttakendur í uppbyggingu og mótun viðhorfa samfélagsins og leggja okkar lóð á vogarskálina.
Fræðsla er öflugasta vopnið
Vorið 2002 hélt FAS sinn tíunda opna fræðslufund sem hafði yfirskriftina „Um samkynhneigð trú og siðfræði“. Mörgum innan okkar vébanda var umhugað um afstöðu kirkju og trúar gagnvart ástvinum okkar og það var ástæða til. Við hugsuðum lengra. Formaður FAS, Harpa Njáls, hafði samband við formann Prestafélags Íslands (PÍ), sr. Jón Helga Þórarinsson, árið 2003 og bar upp beiðni um samstarf með það að markmiði að efla fræðslu um samkynhneigð – trú og kirkju. Erindinu var vel tekið og afraksturinn varð þrjú opin málþing á vettvangi presta og samkynhneigðra 2004 og 2005. Málþing FAS og PÍ voru öll skipulögð af FAS og í framhaldi safnaði formaður FAS efninu saman og bjó til útgáfu í Sérriti Kirkjuritsins 2005. Þarna voru flutt 20 erindi, bæði fræðileg og einnig reynsla samkynhneigðra og aðstandenda. Þetta voru fyrstu skipulögðu fræðslufundir um samkynhneigð sem haldnir voru á vettvangi kirkju og presta og upp úr þessu starfi sem var að frumkvæði FAS – varð til öflugur hópur innan prestastéttarinnar um málefnið. Því skal haldið til haga!
Þá var starfshópur tengdur Biskupsstofu sem formaður FAS átti sæti í. Hópurinn fékk styrk frá Kristnihátíðarsjóði til að útbúa fræðslu- og kynningarefni um trú og samkynhneigð, fyrir presta og starfsmenn kirkna. Afraksturinn var góður en efnið fékk samt ekki brautargengi hjá Kirkjuráði.
Við lögðum okkar af mörkum við umræðu og fræðslu um samkynhneigð og hjónabandið – bæði í töluðu máli og blaðagreinum. Þá sendi FAS áskorun til allra þingmanna sem einnig var afhent formlega á Alþingi ásamt greinargerð. Þjóðin stóð nær heilshugar með hjónaböndum samkynhneigðra og Alþingi samþykkti löggjöf um jafnan rétt til hjúskapar.
FAS leitaði einnig 2005 samstarfs við Menntasvið Reykjavíkurborgar um að efla fræðslu starfsmanna í leik- og grunnskólum borgarinnar um samkynhneigð og samkynhneigða. Viðtökur voru góðar sem leiddi árið 2007 til formlegs samstarfsverkefnis Menntasviðs með Samtökunum ´78 og FAS. Ekki þarf að fjölyrða um árangur af því starfi sem síðan hefur fest sig í sessi og aukið þekkingu og viðurkenningu í skólum á eðlilegum fjölbreytileika mannlífsins.
Enn er verk að vinna
Í fullan áratug var starf FAS öflugt og árangursríkt. Hér hafa verðið nefnd nokkur dæmi. Við lítum um öxl og gleðjumst. Nú hafa nýir hópar og aðstandendur hinsegin fólks stigið fram – verkefnin eru mörg og starfið áfram mikilvægt.
Það brennur á mörgum foreldrum og aðstandendum að prestar þjóðkirkjunnar geti neitað að gifta fólk af sama kyni. Það er ólíðandi að æðsta stofnun þjóðkirkjunnar ásamt núverandi- og fyrrverandi biskupi leggi blessun sína yfir slíka mismunun á grundvelli samviskufrelsis presta. Það er óásættanlegt að slík mismunun séu liðin í þjónustu opinberra stofnunar. Hvað ef kennarar, læknar og heilbrigðisstarfsfólk neitaði fólki um þjónustu á grundvelli kynhneigðar? Það er tímabært að þessu linni. Alþingi Íslendinga getur ekki lengur horft framhjá slíku sem telst brot á mannréttindum. Það er í hendi löggjafans að tryggja þjónustu án mismununar – ef kirkjan treystir sér ekki – verður að taka vígsluréttinn af þjóðkirkjunni.
Harpa Njáls er stofnandi FAS og fyrsti formaður
Ingibjörg S. Guðmundsdóttir var varaformaður og formaður FAS.
The post Það er ástæða til að fagna – og taka þátt! appeared first on FRÉTTATÍMINN.