Ég er ekki ratvís, raunar langt frá því. Mér gengur að vísu ágætlega að komast leiðar minnar hér á landi en erlendis er leiðavalið ekki upp á marga fiska. Ég hef heldur ekki þróað með mér ratvísi enda er minn betri helmingur með þau mál á hreinu. Ég fylgi frúnni því og treysti því að hún velji rétta leið. Það hefur gengið vel og saman myndum við prýðilegt teymi, til dæmis þegar við leigjum okkur bíl á erlendri grundu. Við erum þá eins og rallökumenn – nema hvað við ökum gætilegar – ég keyri en hún leiðsegir. Þannig höfum við farið land úr landi í Evrópu og Bandaríkin endilöng, ég við stýrið og hún á kortinu, áður fyrr með börn í aftursætinu en í seinni tíð tvö.
Aðeins einu sinni höfum við notfært okkur leiðsögutæki í bílnum, ljúfa kvenmannsrödd sem segir okkur hvort beygja skuli til hægri eða vinstri og hvaða rani skuli tekinn út úr hringtorgi en það var í Danmörku fyrir nokkrum árum. Við ákváðum að sú góða kona talaði við okkur á dönsku, kunnum ekki við annað á danskri grund. Ferðalagið gekk prýðilega undir vökulum augum þeirrar dönsku.
Þrátt fyrir þetta festum við ekki kaup á slíku leiðsögutæki eftir Danmerkurreisuna, héldum okkur við kortið og kunnáttu raunverulegu konunnar sem við hlið mér sat á ferðalögum, meðal annars í nýlegri ferð okkar til Frakklands. Eftir nokkurra daga dvöl í París leigðum við okkur bíl enda var ferðinni heitið til Suður-Frakklands til að heimsækja son okkar og tengdadóttur sem dvöldu þar í fríi með börn sín.
Þjónustulunduð kona á bílaleigunni bauð mér bíl með leiðsögukerfi, gegn greiðslu að sjálfsögðu, en ég afþakkaði, vitandi af minni góðu og ratvísu konu við hlið mér. Við lögðum því í hann suður á bóginn með heldur bágt vegakort sem við fengum á bílaleigunni en nokkurn stuðning af leiðsagnarappi í síma sem tæknisinnaður tengdasonur okkar hafði sett inn áður en við lögðum í hann.
Það verður að viðurkennast að meira gagn var að símanum en kortinu dapra við leiðsögn út úr stórborginni inn á rétta hraðbraut í suðurátt, en þangað komumst við klakklaust. Appið gekk hins vegar hratt á rafhlöðu símans. Hann var því dauður þegar við renndum inn á bensínstöð við hraðbrautina til að teygja úr skönkum og fá okkur næringu. Tækniþekking okkar dugði ekki til að koma appinu aftur í gang, þótt hlaðið gætum við símann. Við keyptum okkur því almennilegt vegakort af Frakklandi á bensínstöðinni og héldum áfram för. Það var vandræðalaust enda las frúin allar vegmerkingar af kortinu og ég hlýddi skipunum hennar. Okkur gekk því vel að komast á áfangastað þar sem okkar fólk tók á móti okkur í sumarhlýindunum.
Þar dvöldum við vikulangt við yndi og dásemdir, ýmist á sundlaugarbakka eða í styttri ferðum í fögru umhverfi. Í einni slíkri ferð heimsóttum við verslun sem meðal annars seldi leiðsögutæki svipaðrar gerðar og við höfðum fengið léð í Danmörku um árið og notið leiðsagnar dönsku konunnar. Við hjónakornin horfðum hvort á annað, vitandi það að við áttum eftir að keyra upp allt það stóra land Frakkland á leið okkar til Parísar, ákváðum að slá til og splæsa í nýja konu til leiðsagnar. Áður en við ákváðum gerð tækisins fengum við þó ráðleggingar sonar okkar sem mun lengra er kominn á tæknivegum en foreldrarnir.
Þegar við héldum áleiðis til Parísar í lok heimsóknarinnar syðra setti sonur okkar inn leiðina í nýja undratækið, beint á flugvöllinn í París. Við ákváðum að fara í einum rikk síðasta daginn, þótt leiðin væri svipuð í kílómetrafjölda og frá Kópavogi til Egilsstaða, enda vegakerfið allt annað og betra. Síðan völdum við tungumál fyrir leiðsögukonuna. Þrátt fyrir frönskunám hjá Vigdísi Finnbogadóttur í MH á sínum tíma treysti ég mér ekki í franska stúlku. Þess í stað völdum við til leiðsagnar enska konu með því geðþekka nafni Kate.
Eftir að hafa kvatt gestgjafa okkar ræstum við bílinn og kveiktum á ensku Kötu í apparatinu á mælaborðinu. Ljúfmælt hóf hún leiðsögnina en hugur okkar hjóna stefndi sem fyrst á hraðbraut er bæri okkur hraðbyri í átt að frönsku höfuðborginni. Kata virtist þó annarrar skoðunar því leiðsögn hennar var eftir sveitavegum í að minnsta kosti klukkustund, ef ekki lengri tíma, eftir að við héldum af stað. Það var ekki laust við að aðeins væri farið að þykkna í minni konu eftir því sem Kata teymdi okkur lengra og lengra eftir krókaleiðum sveitaveganna, fram hjá öllum hraðbrautarmerkingum. Eftir þriggja kortera akstur hastaði hún beinlínis á Kötu en sú enska virtist ekki taka það nærri sér og beindi mér áfram eftir hlykkjóttum mjónuvegunum. „Hún er nú eitthvað skrýtin, þessi Kata,“ sagði ég samt við raunverulegu konuna sem sat mér við hlið og hafði nú tekið upp vegakortið af Frakklandi. „Skrýtin,“ sagði eiginkona mín, „ég sé ekki betur en hún sé snarvillt.“
Við ákváðum samt að elta Kötu í næsta þorp – og merkilegt nokk – þar blasti við okkur blátt hraðbrautarskilti sem beindi okkur í hárrétta átt á leið okkar til Parísar. Viðhorf okkar til ensku Kötu snarbreyttist og varð allt annað og vinsamlegra. Við ákváðum að slíðra sverðin og treysta henni. Hún var traustsins verð enda leiddi hún okkur örugglega á áfangastað og síðasta spölinn var sú ljúfa rödd betri en engin þegar við þræddum þétta borgarumferð í átt að flugvellinum.
Þeirri spurningu er hins vegar ósvarað hvort ég kæmist leiðar minnar einn með Kötu í bílnum, án aðstoðar raunverulegu konunnar við hlið mér. Ég stórefast um það.
The post Kötukvæði appeared first on FRÉTTATÍMINN.