Ég var staddur í Þýskalandi á dögunum, nánar tiltekið í Berlín. Á kvöldin þegar lagst var til hvílu þá kveikti ég á sjónvarpinu til þess að kanna hvað þýskt sjónvarp hefði upp á að bjóða. Ég hafði ekki heimsótt Germaníu í 25 ár og minntist þýskrar talsetningar með hryllingi, en smá glotti líka. Ég hefði ekki trúað því þegar ég kveikti á varpinu og stórmyndin Being John Malkovich var á dagskránni. Nú skyldi horft á þessa frábæru mynd. Myndin var byrjuð þegar ég kveikti á sjónvarpinu og í þann mund sem ég hækka í tækinu sé ég John Cusack, þann ágæta leikara og rödd sem passar ekkert við hann, segja… „Sie wissen nicht, wie glücklich Sie, ein Affe werden. Da Bewusstsein ist ein schrecklicher Fluch. Ich denke. Ich fühle. Ich leide. Und alles, was ich fragen, im Gegenzug ist die Gelegenheit, meine Arbeit zu tun. Und sie werden es nicht zulassen …, weil ich Fragen aufwerfen.“
Drepið mig ekki! Þvílík vonbrigði! Ég horfði eitthvað aðeins áfram en þetta er ekki hægt. Hugsið ykkur ef Ingvar E. eða Gói væru að tala inn á Woody Allen mynd á RÚV? Hugsið ykkur ef það væri bara einhver gaur sem læsi inn á þetta allt, ekki einu sinni góður leikari eins og þeir sem ég nefndi. Þetta er magnað! Það sem verra var, var að það voru 30 sjónvarpsstöðvar í hótelsjónvarpinu. Ein var ekki talsett. Rai Uno. Ég hef aldrei skilið ítölsku. Ég sofnaði með þumalputtann í munninum.
Hannes Friðbjarnarson
The post Sein John Malkovich appeared first on FRÉTTATÍMINN.