Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Björk fór á fund mannsins sem beitti hana kynferðisofbeldi

$
0
0

„Eftir svefnlausa nótt í janúar tók ég því upp símtólið og hringdi í geranda. Ragnhildur vinkona hélt í höndina á meðan ég kynnti mig sem „Björk Brynjars, stelpuna sem þú beittir kynferðisofbeldi árið 2000″ og þurrkaði tárin í spennufallinu að símtali loknu. Símtalið var ótrúlegur sigur, þó bara smávægilegur miðað við það sem koma skyldi, því við höfðum mælt okkur mót að mánuði liðnum,“ segir Björk Brynjarsdóttir blaðamaður í opinskáum pistli sem hún birtir á Facebook í dag.

Viðtal Fréttatímans við Björk sumarið 2014 vakti mikla athygli en í því greindi hún frá kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir sex ára gömul. Í pistli sínum í dag fjallar Björk um eftirmál viðtalsins. Eftir að hún setti sig í samband við ofbeldismanninn, sem sjálfur var barn að aldri þegar hann framdi brotin, fór hún á fund  hans norður í landi. Björk segir að maðurinn hafi í fyrsta sinn tekið ábyrgð á verknaðinum eftir fund þeirra. Í kjölfarið ræddi hún við fjölskyldu mannsin um brot hans.

Pistil Bjarkar er hægt að lesa hér að neðan:

Mamma segir stundum að ég þurfi að passa að standa vörð um sjálfa mig. Ég á það til að deila of miklu og treysta of mörgum. Mamma var ogguponku stressuð í fyrra þegar ég ákvað að fara í viðtal og segja frá kynferðisofbeldi sem ég var beitt sex ára gömul. En stundum er það að standa vörð um sjálfan sig að berskjalda sig fyrir umheiminum, því lífið verður miklu bjartara þegar maður dregur gardínurnar frá.
____________
Það voru tveir hlutir sem ég vissi fyrir víst að myndu fylgja viðtalinu. Í fyrsta lagi myndi öryggis- og stuðningsnetið mitt sjöfaldast á örstuttum tíma og ég myndi ekki lengur þurfa að burðast með afleiðingarnar ein og í laumi. Ég á þessu ríkidæmi sem vinir mínir eru, svo gríðarlega mikið að þakka. Þekkjandi sjálfa mig vissi ég hins vegar líka að viðtalinu myndi fylgja ákveðið bakslag, þó grunaði mig ekki hversu stórt það yrði né hvenær það kæmi.

Bakslagið kom í lok ágústmánaðar í fyrra en þá áttaði ég mig loks á því hversu lítið Ísland er. Fyrr en síðar myndi ég hitta á geranda í partýi eða þurfa að afgreiða ofan í hann kaffibolla. Á komandi mánuði stigmagnaðist stressið og hræðslan um að ég myndi rekast á hann. Ég var aldrei róleg, hvorki í vinnu né skóla og þegar ég lagðist upp í rúm í lok dags fór ég beint í fight or flight mode. Ég hélt mér því vakandi og upptekinni eins lengi og ég gat eða drakk nokkra bjóra til að auðvelda leiðina inn í draumaland. Þar dreymdi mig hins vegar hverja martröðina á fætur annarri. Að lokum hætti ég að geta sofið og orkan silaðist hægt og rólega úr mér. Ég grét og reiddist þar til tárin voru búin og drakk mig meira og minna fulla allan desembermánuð.

Alveg komin á þröskuld uppgjafar leitaði ég til fagaðila og fékk þar að heyra ískaldann sannleikann: að eina lausnin við þeirri bugandi hræðslu að hitta á manninn sem beitti mig ofbeldi, væri að hitta manninn sem beitti mig ofbeldi.

Eftir svefnlausa nótt í janúar tók ég því upp símtólið og hringdi í geranda. Ragnhildur vinkona hélt í höndina á meðan ég kynnti mig sem „Björk Brynjars, stelpuna sem þú beittir kynferðisofbeldi árið 2000″ og þurrkaði tárin í spennufallinu að símtali loknu. Símtalið var ótrúlegur sigur, þó bara smávægilegur miðað við það sem koma skyldi, því við höfðum mælt okkur mót að mánuði liðnum.

Það var því í byrjun febrúar sem ég flaug með gubbuna í maganum af stressi norður á fyriráætlaðan fund. Ég hafði ekki hugmynd hvað fundurinn myndi leiða í ljós en þetta snerist fyrst og fremst um að ég gæti endurheimt líf mitt aftur og horfst í augu við minn stærsta ótta. Það er skemmst frá því að segja að þennan dag tók maðurinn sem beitti mig ofbeldi í fyrsta sinn ábyrgð á verknaðinum.

Ég get ekki talað fyrir hönd geranda en leyfi mér þó að fullyrða að samtalið var líka léttir fyrir hann. Að hafa beitt ofbeldi er þung byrgði að bera með sér og það er mikilvægt að hann fái líka rými til að vinna úr þeim pakka. Ég bind vonir mínar við að hann leiti sér hjálpar, enda óskin sú að út úr þessari tragík komi tveir þroskaðir og heilbrigðir einstaklingar.

Í sumar gerði ég að lokum þá kröfu um að hann myndi segja fjölskyldumeðlimum sannleikann um það sem raunverulega gerðist fyrir fimmtán árum. Í kjölfar þess fór ég aðra ferð norður og ræddi við fólkið hans. Í því fólst ótrúleg hreinsun því kynferðisafbrot snerta yfirleitt fleiri en bara geranda og brotaþola.

Síðastliðið ár hef ég meðvitað reynt að troða kynferðisofbeldi inn í allar samræður í þeirri von að einn daginn muni fólki ekki bara þykja umræðan sjálfsögð heldur auðveld líka. Því þögnin lamar, ekki bara brotaþola heldur samfélagið allt.
Við eigum það til að „velja lið“ þegar kemur kynferðisofbeldi. Í því skyni langar mig minna á að rétt eins og við erum með fullu fólki í liði þegar við tökum af því bíllyklana eftir partí, erum við í liði með gerendum þegar við hjálpum þeim að taka ábyrgð á gjörðum sínum.
________
Kynferðisofbeldi er ekki eitthvað sem maður fyrirgefur og í svona málum er voða litlu réttlæti að ná. En maður lærir að lifa með þessu. Ég er búin að endurheimta svefninn og orkuna og í fyrsta sinn er ég hamingjusöm á nokkurra skilyrða. Ég er ekki lengur hrædd því þegar maður hefur haldið á tarantúlu hræða litlar köngulær mann ekki lengur (ég er samt ennþá hrædd við köngulær en einn daginn mun ég halda á tarantúlu og þá verð ég queen of the universe).

Sjá einnig: Viðtal Fréttatímans við Björk sumarið 2014.

The post Björk fór á fund mannsins sem beitti hana kynferðisofbeldi appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652