Á menninganótt mun gestum verða boðið upp á örnámskeiðið Amma dansar. Þar gefst borgarbúum kostur á að kynnast vinnunni á bak við verkið Bríet: upp með pilsin, sem Anna Kolfinna Kuran er að vinna um langalangömmu sína Bríeti Bjarnhéðinsdóttur.
Bríet Bjarnhéðinsdóttir er ein mesta kvenréttindabaráttukona íslandssögunnar. Barnabarnabarn hennar Anna Kolfinna Kuran danshöfundur hefur undanfarið ár unnið að dansverki sem hún tileinkar henni í tilefni af 100 ára kosningaafmæli kvenna. Verkið verður frumflutt á Reykjavik Dance Festival og Local danslistahátíðinni 28. ágúst, en á Menningarnótt gefst gestum tækifæri á að kynnast vinnunni á bak við verkið. Gestir fá tækifæri til þess að vinna, undir leiðsögn Önnu Kolfinnu, lítið verk byggt á minningu um sína eigin ömmu. Þannig fá þátttakendur möguleika á að prufa sig sem danshöfundar um leið og þeir rifja upp sína sögu og sögu Bríetar. „Þetta verður nokkurs konar örnámskeið og tekur bara 30 mínútur í hvert sinn,“ segir Anna Kolfinna Kuran danshöfundur. „Ég mun kynna verkið og sýna lítinn bút úr því og þeir sem mæta geta búið til sitt eigið ördansverk,“ segir hún. „Verkið mitt er um langalangömmu mína og þátttakendum býðst að gera verk um sínar ömmur eða langömmur. Ég náði skiljanlega aldrei að hitta Bríeti svo ég lagðist í smá heimildaöflun og rannsóknarferli,“ segir Anna. „Þannig bjó ég til mína eigin minningu um hver hún var. Ég vann mikið út frá viðtölum við hana og því sem hún skrifaði sjálf og samdi verkið út frá því. Verkið er um 45 mínútur og ég er búin að vera að vinna að hugmyndinni í eitt ár, en æfingaferlið er búið að standa síðan í maí. Námskeiðið á laugardag verður í dansverkstæðinu við Skúlagötu 30 og byrjar kl 12.00. Það þarf ekkert að skrá sig, bara mæta á staðinn og ég vonast til þess að sjá sem flesta,“ segir Anna Kolfinna Kuran, danshöfundur.
The post Bríeti boðið upp í dans appeared first on FRÉTTATÍMINN.