Á Menningarnótt verður boðið upp á jóga fyrir börn í Borgarbókasafninu í Grófinni. Jógakennarinn Ingunn Guðbrandsdóttir tekur á móti krökkum á aldrinum 5 til 12 ára í jógatíma sem hefjast klukkan 16.00 og eru á 30 mínútna fresti til kl.18.00. Ingunn segir krakkajóga ekki vera mjög frábrugðið öðru jóga því í grunninn er jóga alltaf það sama. Í hverjum tíma verða kenndar skemmtilegar og fjölbreyttar jógastöður í bland við einfaldar öndunar- og slökunaræfingar og Ingunn segir þetta frábæra undirstöðu fyrir krakka sem vilja halda áfram að stunda jóga inn í unglingsárin.
„Jóga er bara jóga,“ segir Ingunn Guðbrandsdóttir jógakennari. „Ég ætla að kenna krökkunum sömu jógastöður og ég kenni fullorðnum, en ég geri það aðeins öðruvísi. Ég geri það með því að nota hljóð, með því að fá þau með í leik sem ég mundi aldrei gera í fullorðinstímum. Fullorðnir hafa allt aðra líkamsvitund en börn svo maður nálgast hlutina með öðrum hætti. Í grunninn er þetta bara jóga, alveg sama hvort um börn eða gamalmenni er verið að ræða,“ segir Ingunn. „Ég hef ekki mikið kennt ungum börnum, en ég hef verið að kenna unglingum í Fjölbrautarskólanum í Ármúla þar sem ég er stundakennari og hef gripið einn og einn barnatíma. Börnum finnst þetta mjög skemmtilegt,“ segir hún og er ekki á því að þau eigi erfitt með að slaka á í jógatímum. „Það sem ég geri öðruvísi í þessu er að ég byrja á slökuninni,“ segir Ingunn. „Hjá fullorðnum er endað á henni, en ég byrja á því hjá krökkunum. Þetta er algerlega eitthvað sem krakkar ættu að gera meira af. Bara það að krakkar tengist líkamanum og skynji hann er svo hollt,“ segir hún. „Læra að anda og ef þau ná að halda því við þá erum við að fá unglinga og fullorðna út í samfélagið á miklu betri stað en við hin,“ segir Ingunn. „Við erum alltaf í for- og framtíðinni.“
Ekki verður gert ráð fyrir að börnin hafi áður lært jóga og gott ef þau geta verið í þægilegum fötum til að auðvelda hreyfingu. Foreldrum er hjartanlega velkomið að taka þátt. Jóga er fyrir alla, stelpur og stráka, konur og karla. Ingunn Guðbrandsdóttir hefur yfir 15 ára reynslu af að kenna ýmis konar líkamsrækt, en hefur kennt jóga frá ársbyrjun 2014 hjá Heilsuborg og Jógasmiðjunni í Kópavogi. Nánari upplýsingar um Ingunni má finna á www.ingunn.is og www.facebook.com/ingunngudbrands
The post Krakkar hafa gott af Jóga appeared first on FRÉTTATÍMINN.