Ánægja með góðar fréttir af skuldabréfaútboði WOW air

„Það er búið að vera vitað mál í nokkurn tíma að fyrirtækið sé að afla sér viðbótarfjármuna. Það eru bara mjög góðar fréttir að það skuli vera að takast og við vonum að það skýrist núna bara eftir helgina með yfirlýsingu frá þeim,“ sagði Sigurður Ingi í Vikulokunum á Rás 1. „Eins og komið hefur fram hófum við hjá ríkisstjórninni vinnu við að yfirfara stöðuna á markaði, kerfislega mikilvæg fyrirtæki. Við byrjuðum á ferðaþjónustunni og fluginu.
Ég held að það hafi verið skynsamlegt. Við erum auðvitað búnir að vera að fylgjast mjög náið með ferlinu núna síðustu dagana, einmitt vegna þess að flugrekstur er jú háður opinberum leyfum og auðvitað skiptir það máli fyrir íslenskan efnahag að fyrirtækjunum vegni vel. Þannig að jújú, við höfum haft áhyggjur og við höfum verið að fylgjast með. Þess vegna eru það jákvætt ef það er að skýrast og styrkjast staða fyrirtækisins.“ Skúli Mogesen, forstjóri og eigandi WOW air.
Sigurður Ingi sagðist aðspurður ekki hafa hitt Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda Wow, meðan á þessu ferli stóð. Hann sagði að aðkoma ríkisins væri fyrst og fremst í því fólgin að skoða hvað gæti gerst miðað við ýmsar sviðsmyndir og setja upp viðbragðsáætlanir sem eðlilegt væri að ríkið hefði yfir að ráða.
„Við höfum fyrst og fremst verið að skoða frá hálfu ríkisins, hvernig áhrifin gætu orðið, frá mismunandi sviðsmyndum, og setja þær viðbragðsáætlanir sem eðlilegt er að ríkið hafi. Þetta er náttúrulega fyrirtæki á einkamarkaði. Það er ekki þannig að ríkisvaldið eigi að ganga almennt inn í fyrirtækið, það er síðasta sort og ætti aldrei að koma til nema í ítrustu neyð, þegar áhrifin á efnahagslífið væru ella mjög mikil,“ Sagði Sigurður Ingi Jóhannsson.
Saga WOW air hefur verið ævintýri líkust og hlutirnir gerst hratt þar á bæ. Íslendingar hafa líklega aldrei upplifað jafn hagstæð flugfargjöld og hjá WOW og almennt hugsar fólk hlýtt til félagsins. Viðskiptavinir vita að um er að ræða lággjalda félag og því ekki hægt að ætlast til þess að fá alltaf þann munað sem að önnur félög sem að rukka margfalt gjald eru að bjóða upp á. En oft er félagið þó á pari við þau félög sem að bjóða upp á dýrari flug og jafnvel í sumum tilfellum og aðstæðum, fremri. Enda hörð samkeppni í þjónustu, verði og aðbúnaði.
Flugfélagið er mjög mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi eins og önnur flugfélög, en sá hagvöxtur sem hefur orðið í þjóðfélaginu frá hruni. Byggist að mestu leiti á öflugum ferðaiðnaði sem er orðin stærsta tekjuöflun íslendinga. Þar sem að 2,5 milljónir ferðamanna koma til landsins og skapa störf og gjaldeyri fyrir þjóðina. Á heimasíðu flugfélagsins er starfsemi fyrirtækisins kynnt þannig :
,,WOW air er brosmilt lággjaldaflugfélag sem býður ódýrt flug til vinsælla áfangastaða í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu, allan ársins hring. WOW air stefnir að því að bjóða ódýrasta flugið til og frá Íslandi, með eftirminnilegri þjónustu og bros á vör.
WOW air var stofnað í nóvember 2011 og fór í jómfrúarflug sitt til Parísar 31. maí 2012. Í október sama ár tók WOW air yfir rekstur Iceland Express og ári síðar fékk WOW air flugrekstarleyfi frá Samgöngustofu.
Flugfélagið var stofnað af frumkvöðlinum Skúla Mogensen, sem hefur víðfeðman bakgrunn í viðskiptum; aðallega í tækni og fjarskiptafyrirtækjum á Íslandi, Evrópu og Norður-Ameríku.
WOW air er í einkaeigu Skúla, sem situr í stjórnum ýmissa tæknifyrirtækja í Evrópu og Norður Ameríku. Skúli var valinn Viðskiptamaður ársins árið 2011 og 2016.
Flugfélagið hefur vaxið á ótrúlegum hraða frá stofnun þess og fjöldi gesta vaxið jafnt og þétt frá fyrsta fluginu í maí 2012. Árið 2013 flaug WOW air með yfir 400.000 gesti og var stundvísasta flugfélagið á Íslandi það ár. Í lok árs 2014 var stórum áfanga náð þegar milljónasti gesturinn flaug með WOW air. Árið 2017 flugu u.þ.b. 2,8 milljónir gesta með WOW air og við reiknum með að í kringum 3,6 milljónir muni fljúga
með okkur á þessu ári.
Hjá WOW air starfa nú um 1.500 hörkuduglegir snillingar. Flestir starfsmenn félagsins eru með víðtæka reynslu í ferðamanna- og flugbransanum og hvort sem um ræðir flugumsjón, símsvörun eða öryggi gesta um borð, þá er valinn fagmaður í hverri stöðu.
Við erum stolt af því að reka einn yngsta og háþróaðasta flugflotann þó víðar væri leitað, sem gerir gestum okkar kleift að ferðast ódýrt vítt og breitt um heiminn á umhverfisvænan hátt.
Nýju flugvélarnar okkar eru sérútbúnar með auka eldsneytistönkum og eyða því mun minna eldsneyti, eða 25% minna en t.d. Boeing 757. Jafnframt þýðir öflugur og háþróaður tæknibúnaður Airbus-vélanna minni viðhaldskostnað auk þess sem flugvélarnar eru bæði hljóðlátari og umhverfisvænni með minni CO2 útblástur. Við erum í skýjunum með nýju flugvélarnar okkar og hlökkum til að sjá ykkur um borð.”