Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Ég trúi að kannabisolían lækni mig af krabbameini

$
0
0

Linda Mogensen neytir kannabisolíu daglega og er sannfærð um að olían lækni sig af krabbameini. Hún er einn fjölmargra Íslendinga sem nota kannabisolíu í lækningaskyni jafnvel þó að það sé ólöglegt. Lögreglan gerði upptæka olíu sem Linda reyndi að smygla til landsins en málið var látið falla niður. Barnabörnin eru vön því að finna graslykt af ömmu sinni og hún segir jákvætt að þau sjái hvað ömmu líður vel á meðan á krabbameinsmeðferð stendur. Markmið Lindu er að rækta sitt eigið kannabis. Íslendingur sem hefur síðustu ár framleitt kannabisolíu fyrir sjúklinga er að leggja lokahönd á gerð kennslumyndbands fyrir sjúklinga sem vilja búa til sína eigin kannabisoliu og verður myndbandið öllum aðgengilegt á netinu.

„Ég anga auðvitað alltaf af graslykt þvi ég ber kannabisolíuna líka á mig. Ég segi stundum að ef barnabörnin komast í tæri við kannabis seinna meir eiga þau eftir að segja að þetta sé alveg eins lykt og var alltaf af henni ömmu. Við höfum mikið hlegið að þessu,“ segir Linda Mogensen sem hafnaði hefðbundinni læknismeðferð við krabbameini og notar þess í stað kannabisolíu. Hún notar einn millilítra á dag og skiptir dagsskammtinum í fjóra jafna hluta. „Mér líður vel, ég er ekki lasin og ég ber það sannarlega ekki með mér að vera í miðri krabbameinsmeðferð,“ segir hún.

Létt graslykt tekur á móti mér þegar ég kem inn í íbúðina hennar Lindu í miðbæ Reykjavíkur. Hún faðmar mig þétt og hlýlega þó við höfum aldrei áður hist og raunar bara tvisvar sinnum talað saman í síma. „Ég er auðvitað „stóned“ alla daga,“ segir hún og brosir. En þrátt fyrir að hafa hitt fjöldan allan af fólki undir áhrifum kannabisefna í gegn um árin hefði ég aldrei giskað á það að þessi kona væri „stóned“ nema af því hún sagði mér það. Og fyrir utan graslyktina. Hún býður mér upp á lakkrísrótarte, lífrænt hreint súkkulaði og valhnetur, og segist ekkert láta ofan í sig nema það sé lífrænt. „Ég er ekki bara að nota olíuna heldur er ég að taka allt í gegn. Á hverjum morgni ríf ég mig upp úr rúminu, fer í sund og hjóla. Ég fæ mér daglega hveitigras og gulrótarsafa. Þetta er vinnan mín núna, að verða heilbrigð á ný,“ segir hún.

Linda Mogensen neytir eins millilítra af kannabisolíu daglega og trúir því að olían lækni hana af krabbameini.

Linda Mogensen neytir eins millilítra af kannabisolíu daglega og trúir því að olían lækni hana af krabbameini.

Stundaði jóga 1972

Linda varð sextug í vor og hefur fyrir löngu tileinkað sér heilbrigðan lífsstíl. „Ég var byrjuð að stunda jóga árið 1972 þegar enginn vissi hvað jóga var. Við systkinin gerðumst grænmetisætur á svipuðum tíma, þegar ég var unglingur. Ég þótti auðvitað bara skrýtin en núna eru allir að stunda jóga og gerast grænmetisætur,“ segir hún og gefur lítið fyrir álit annarra á sér.

Hún greindist með 3. stigs krabbamein í smágirni í meltingarveginum í október í fyrra. „Ég vissi strax að ég ætlaði að fara óhefðbundnar leiðir,“ segir hún og kom því aldrei til greina að hún færi í lyfjameðferð. „Meinið var tekið með skurðaðgerði sem gekk mjög vel og eftir að hafa kynnt mér hina ýmsu möguleika ákvað ég að nota kannabisolíu til lækninga.“

Kannabisolía nýtur vaxandi vinsælda hjá fólki sem telur hana geta læknað hina ýmsu sjúkdóma, til að mynda krabbamein, en hefðbundin læknavísindi gefa almennt lítið fyrir áhrifamátt kannabisolíu til lækninga. Hér á landi eru kannabisefni ólögleg en mikil umræða hefur átt sér stað víða í hinum vestræna heimi um hvort leyfa eigi kannabis í lækningaskyni og samþykktu frönsk stjórnvöld til að mynda lög þess efnis í fyrra. Afglæpavæðing vímuefna er annar angi af þessari umræðu en þeir sem nota kannabisolíu til lækninga eru almennt ekki að leita að vímunni enda bugast margir hreinlega undan vímuáhrifunum eftir að hafa neytt sem nemur 1 millilítra af olíu vikum og mánuðum saman, en til að framleiða 1 millilítra af kannabisolíu þarf 7-10 blóm.

Kannabisolían er þykk og klístrug. Linda geymir hana í sprautu vegna þess hversu auðvelt er að skammta hana þannig.

Kannabisolían er þykk og klístrug. Linda geymir hana í sprautu vegna þess hversu auðvelt er að skammta hana þannig.

Lokaðar dyr Lyfjastofnunar

Þegar Linda tilkynnti krabbameinslækninum sínum að hún ætlaði að nota kannabisolíu til að lækna sig spurði læknirinn einfaldlega hvort það væri löglegt. Linda sagði að það væri sannarlega ólöglegt og að hún þyrfti því að smygla olíunni til landsins. „Ég fann enga fordóma hjá lækninum heldur frekar forvitni,“ segir hún. Linda pantaði olíu bæði frá Svíþjóð og Bandaríkjunum, og stefndi alltaf á 90 daga meðferð sem þýðir að hún þurfti allt að 90 millilítra af olíu. „Ég fór í myndatökur eftir aðgerðina og í janúar fannst ekkert mein. Ég var um það bil hálfnuð með meðferðina og byrjuð að vinna aftur þegar ég fékk símtal frá lögreglunni. Lögreglumaðurinn spurði hvort ég ætti von á sendingu frá útlöndum og þegar ég játti því spurði hann hvort ég vissi hvað væri í henni. Ég sagði honum að ég ætti von á kannabisolíu sem ég notaði til lækninga því ég væri með krabbamein. Hann sagði mér þá að þetta væri ólöglegt, sem ég auðvitað vissi, og sagðist þurfa að taka af mér skýrslu. Ég var dauðstressuð eftir skýrslutökuna og bjóst við hárri sekt. Ég átti alveg nóg með að standa undir kostnaði við olíuna,“ segir Linda en hún hefur borgað um 250-300 þúsund krónur fyrir 40 millilítra, eða í kring um 8 þúsund fyrir dagsskammtinn. „Lögreglumennirnir voru mjög skilningsríkir og bentu mér meira að segja á að láta lækninn minn sækja um undanþágu til Lyfjastofnunar ríkisins svo ég gæti fengið olíuna aftur en hann kom þar að lokuðum dyrunum. Nokkru seinna fékk ég svo símtal frá embætti ríkissaksóknara þar sem mér var tilkynnt að málið yrði látið falla niður. Ég fékk því aldrei neina sekt og það virðist sem ákveðinn skilningur sé innan kerfisins á því að fólk kjósi þessa aðferði til lækninga,“ segir hún.

Ólöglegt er að neyta kannabisolíu á Íslandi en Linda segir að umræða sé forsenda breytinga.

Ólöglegt er að neyta kannabisolíu á Íslandi en Linda segir að umræða sé forsenda breytinga.

Vill reyna á kerfið

Ástæðan fyrir því að Linda ákvað að koma í viðtal var einmitt til að skapa umræðu um kannabis til lækninga. „Við sem förum þessa leið erum að brjóta lög og ekki allir sem treysta sér til að koma fram opinberlega. Ég vil hins vegar taka þessa umræðu. Án umræðu verða engar breytingar. Ég sé fyrir mér að í framtíðinni verði kannabis viðurkennd lækningajurt á vesturlöndum. Ég segi öllum sem heyra vilja að ég noti kannabisolíuna til að berjast við krabbamein og flestir vilja fá að vita meira. Ég lít á það sem skyldu mína að láta reyna á kerfið,“ segir hún.

Vegna þess að olían var gerð upptæk hætti Linda í miðri meðferð. Í júní fór hún aftur í skoðun og myndataka leiddi í ljós að hún var komin með þrjá litla hnúta í kviðarholi. „Læknirinn sagði að skurðaðgerði væri ekki möguleiki en ég gæti fengið lyf sem mögulega lengdu líf mitt eitthvað, en mögulega ekki. Ég hef enga trú á þessum lyfjum. Kannabisolían er því mín eina von og nú er ég komin í samband við fólk sem býr hana til hér á Íslandi. Ég kannast ekki við að lögreglan sé að hafa afskipti af neinu þessa fólks. Mitt markmið er að fá mér mínar eigin plöntur og búa til mína eigin olíu. Ég get ekki séð að það skaði neinn að ég sé heima hjá mér með þrjár plöntur,“ segir Linda.

Fjórir skammtar á dag

Þegar hún fyrst tók kannabisolíuna tók hún hana inn en fannst hún finna fyrir of mikilli vímu þannig. Seinna komst hún að því að einnig er ráðlegt að setja lyfið í endaþarm, „í æðri endann,“ eins og hún segir, og bera það á húðina. „Á morgnana set ég lyfið í æðri endann, fjórum tímum seinna ber ég það á þunnu húðina á innanverðum handleggjunum, fjórum tímum seinna set ég það aftur í æðri endann og loks borða ég það fyrir nóttina og sef alveg í gegn um vímuna. Svona næ ég að halda mér virkri. Þetta er allt annað líf.“

Það kom í byrjun misjafnlega við nánustu ástvini Lindu þegar hún ákvað að nota kannabis gegn krabbameininu. „Sumir studdu mig alveg frá byrjun en ég þurfti að útskýra þetta betur fyrir öðrum. Núna styðja mig allir fullkomlega sem skiptir mig miklu.Maður uppgötvar eiginlega þegar maður veikist alvarlega hvað maður á gott fólk. Það er fólkið mitt sem gefur mér kraftinn og ég er svo blessunarlega laus við allt mótlæti. Krabbameinið er besta gjöf sem ég hef fengið því ég hef lært svo margt og fengið að kynnast svo mikilli væntumþykju.“ Meira að segja barnabörnin eru búin að fá fræðslu um að amma noti kannabis til að lækna sig og þau líta á það sem eðlilegan hlut. „Börnin mín sjá hvað mér líður vel, barnabörnin sjá hvað ömmu líður vel. Ég er innilega þakklát og tek öllu með fullkomnu æðruleysi.“

KENNIR SJÚKLINGUM AÐ BÚA TIL KANNABIS

 Ásgeir Daði Rúnarsson hefur í rúm 4 ár búið til kannabisolíu, fyrst bara fyrir sjálfan sig þegar hann var með krabbamein en síðan einnig fyrir aðra.


Ásgeir Daði Rúnarsson hefur í rúm 4 ár búið til kannabisolíu, fyrst bara fyrir sjálfan sig þegar hann var með krabbamein en síðan einnig fyrir aðra.

„Ég er búinn að halda tvö námskeið fyrir fólk til að læra að búa til sína eigin kannabisolíu og er að vinna að kennslumyndbandi sem verður tilbúið um eða eftir helgina,“ segir Ásgeir Daði Rúnarsson sem greindist með krabbamein árið 2011 og notaði kannabisolíu til lækningar.

Ásgeir kom fram í fréttaskýringaþættinum Brestum á Stöð 2 í fyrra þar sem hann sagði frá því að hann framleiddi kannabisolíu fyrir fólk sem vill nota hana í lækningaskyni en lögreglan hefur aldrei haft afskipti af Ásgeiri vegna framleiðslunnar, ekki einu sinni eftir að hann kom opinberlega fram. „Ég fékk ekkert nema góð viðbrögð eftir þáttinn. Ég fékk send kannabisfræ, fólk gaf mér kannabis til að búa til olíu og ég fékk að kaupa plöntur á gríðarlegum afslætti,“ segir hann.

Ásgeir segist hafa búið til olíuna alveg frá því að hann greindist sjálfur og hefur síðan verið í samband við um 30 manns sem notar kannabisolíu í lækningaskyni. „Sumir nota þetta við miklum verkjum, aðrir við gláku en flestir gegn krabbameini. Ég læt engan fá oliu sem hyggst nota hana til að komast í vímu,“ segir hann.  Ásgeir leggur áherslu á að kannabisplantan sé tvíeggjað sverð. „Hún getur verið jafn holl og hún getur verið óholl. Ég styð ekki reykingar á plöntunni, ég reyki ekki kannabis sjálfur og er hættur að nota oliuna,“ segir hann.

Ásgeir borðaði kannabisolíuna á sínum tíma, blandaði henni við kókosolíu og bar á sig, og setti í baðvatn. „Ég hreinlega vissi ekki að það væri hægt að setja hana í æðri endann en almennt er ráðlegt að neyta hennar á sem margbreytilegastan hátt þannig að hún komin inn í líkaman úr mörgum áttum,“ segir hann.

Ásgeir er sannfærður um lækningamátt kannabisplöntunnar og vill að sem flestir kunni að búa til kannabisolíu. Hann er að flytja af landi brott, til Ítalíu þar sem hann býr í andlegu samfélagi í fjöllunum, og er að gera kennslumyndbandið til að sem flestir geti bjargað sér sjálfir þegar hann er farinn. „Ég tel að það sé best að sjúklingurinn geri lyfið sitt sjálfur til að kynnast því sem best. Allt sem ég geri hef ég gert frítt og námskeiðin hef ég haldið fólki að kostnaðarlausu. Ég er með heilt kvikmyndatökulið til að gera þetta myndband og vonandi verður það komið á netið sem fyrst,“ segir hann. Ásgeir fór í vetur til Ítalíu og dvaldi í nokkra mánuði á þeim stað sem hann er nú að flytja til. „Ég kom aftur í mars og hef varla gert annað síðan en að búa til olíu. Síðan þá hef ég búið til 200-300 millilítra. Það eru margir sem vilja nota olíuna,“ segir hann en bendir á að það sé ekki nóg að taka bara olíuna og halda að það sé nóg. „Fólk þarf að taka mataræðið í gegn, hreyfa sig og hugleiða,“ segir Ásgeir sem segir nú skilið við þann hluta lífs síns að framleiða kannabisolíu í miklu magni fyrir aðra. „Hlutir þurfa að taka enda og nú er komið að öðrum kafla í lífi mínu.“

Erla Hlynsdóttir
erla@frettatiminn.is

 

The post Ég trúi að kannabisolían lækni mig af krabbameini appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652