Veiðigjaldið er bara 8,2% af markaðsvirði aflaheimildar – Þjóðin fær hlægilega lágt veiðigjald frá útgerðinni
Útgerðin telur 14.000 kr. veiðigjald rétta greiðslu fyrir afnot af auðlind þjóðarinnar en heimtar 170.000 kr. af leiguliðum í kvótaleigu fyrir sama þorsktonnið.
Er markaðurinn ekki þar með búinn að finna út hið rétta veiðigjald til ríkisins, þ.e. 170.000 krónur fyrir tonnið? – Eða gildir markaðslögmálið bara eftir hentisemi? Sjálfstæðisflokkurinn er svo hrifinn af því að hinn frjálsi markaður ráði för og hann látinn gilda, ÞEGAR ÞAÐ HENTAR. Hví er kvótinn ekki bara boðinn upp?
Dettur einhverjum í hug að hæsta boð fyrir þorsk sem að selst á 300.000 til 450.000 kr. verði 14.000 kr. á frjálsu uppboði? Hvernig í ósköpunum dettur þingmönnum í hug að láta þetta rugl viðgangast?
Útgerðin er pilsfalda kapítalískur rekstur á Íslandi í boði Sjálfstæðisflokksins. Færeyingar eru t.d. með þreflat hærra veiðigjald. Allar veiðiheimildir verða að fara á uppboðsmarkað í gegnum fiskmarkaði á Íslandi. Fiskmarkaðir eru fullfærir til þess að nota sína reiknistofu til þess að skila til ríkissjóðs þeirri prósentu af sölu á fiskmarkaði sem að um semst. Hið rétta markaðsverð kemur fram á fiskmörkuðum, en ekki í plotti stjórnmálamanna og útgerðarinnar. Látum markaðinn skera úr um verðmæti og veiðigjald til þjóðarinnar, það er rétti mælikvarðinn.
Þ.e.a.s ef að menn vilja hafa mælikvarðann réttan. I Jón Guðmundsson, frkv.stj. skrifar
Rétta markaðsverð fyrir þjóðina eru 170.000 krónur í veiðigjald til þjóðarinnar en ekki 14.000 krónur eins og Kristján Þór Júlíusson, f.v. útgerðarforstjóri og co, eru búnir að finna út í reykfylltum bakherbergjum, hugsanlega í félagsskap fyrrum og núverandi kollega sinna og vina, sægreifanna á Íslandi. Var einhver að tala um vanhæfi?
Setjið 1.000 tonn af þorski á uppboðsmarkað og fáið tilboð frá markaðnum til prufu og farið svo að reikna út rétt veiðigjald. Er til of mikils ætlast að þið sýnið heilbrigða skynsemi? Hvað hefur verið gert á Alþingi t.d. til þess að sporna við brottkasti á tegundum sem að fara aftur dauðar í hafið vegna þess að útgerðin kýs að koma með verðmeiri fisk að landi í boði kvótakerfis sem er ónýtt?
Þetta er rán um hábjartan dag og verið er að ræna þjóðina
Nú geta þeir sem fá úthlutað kvóta stungið fullu veiðigjaldi í eigin vasa með því að selja og leigja kvóta til þriðja aðila. Sem dæmi má nefna að kvótalitlar útgerðir hafa þurft að greiða stærri útgerðum undanfarið um 170 kr. fyrir kílóið af þorski.
Sá sem fær kvótann gefins nánast gegn 14 króna gjaldi til Kristjáns Þ. getur leigt hann samdægurs og átt heilar 156.000 krónur eftir viðskiptin. Vegna þess að honum eru færð þessi fríðindi sem að þjóðin á, á silfurfati.
Veiðigjald sem að ríkið hefur verið að innheimta voru aðeins tæpar 23 kr. í veiðigjald samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu. Með nýju frumvarpi fyrrverandi stjórnarformanns Samherja og núverandi sjávarúvegsráðherra, eru blikur á lofti um að veiðigjaldið verði lækkað niður í 14 krónur og þeir verðlaunaðir með enn lægra veiðigjaldi sem að geta með bókhaldsbrellum sýnt fram á minni hagnað m.a. vegna offjárfestinga ofl. kúnstum.
Það er líka mjög fróðlegt að sjá hvernig útgerðarfyrirtækin færa sitt bókhald, sumir eru endalaust í mínus, á meðan að aðrir sem að eru með svipaðar aflahlutdeildir eru í miklum plús og skila vænum sköttum til samfélagsins á meðan að aðrir gera það ekki og þá er ég að vísa til stærstu fyrirtækjanna í sjávarútvegi. Þetta eru allt opinberar upplýsingar ef að einhver opinber stofnun nennir að skoða þær.
Viðbótarkvóti á t.d. að fara strax á uppboðsmarkað, helst í gegnum fiskmarkaði, það er ekki einu sinni gert. Heldur er útgerðinni gefinn kvótinn upp á 34.000 tonn og getur hún selt hann eða leigt samdægurs og stungið peningunum í vasann. Sumir eru jafnari en aðrir í hægri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem er löngu búin að gleyma hví hún er á þingi
Þessu tengt er rétt að birta hér að neðan yfirlit til þess að fólk átti sig betur á málinu og grein:
Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar hefur lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006. – Útboð á viðbótarkvóta á uppboðsmarkaði
Breytingarnar eru á þann veg að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
„Ef heildarafli þorsks verður aukinn fyrir fiskveiðiárið 2018/2019, sbr. 1. mgr. 3. gr., skal ráðherra standa fyrir útboði á viðbótarkvótanum.
Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd útboðsins.“ Þetta var 1. gr. 2. gr. er svona: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“
,,Það er afar mikilvægt að þetta frumvarp fari fljótt og vel í gegnum þingið þannig að við getum farið eftir því við úthlutun afla fyrir fiskveiðiárið 2018/2019.
Frumvarp sama efnis með litlum breytingum frá því sem nú er var flutt á 145. löggjafarþingi og líka á 146. löggjafarþingi. Sú lagabreyting sem hér er lögð til byggist á því að við úthlutun veiðileyfa sé æskilegast að lögmál markaðarins ráði við nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar.
Í útfærslu tilboðsleiðarinnar skal setja reglur sem taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða. Beinast liggur við að nota tilboð og tilboðsmarkaði þegar kvóta tiltekinnar fisktegundar er útdeilt eða viðbótartonnum samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunar. Ólíklegt er að sátt náist um upphæð veiðigjalds fyrr en það verður ákvarðað á markaðslegum forsendum.
Einn af kostum tilboðsleiðar er að leigugjald sem greitt er fyrir aflahlutdeildir sveiflast sjálfkrafa með arðsemi veiða og dregur úr líkum á pólitískum inngripum um ákvörðun leiguverðs. Þannig byggist upphæð leigugjalds ekki á matskenndum ákvörðunum og eigendur auðlindarinnar, fólkið í landinu, getur treyst því að ekki sé verið að hygla einum umfram annan.
Útgerðin ákvarðar sjálf það gjald sem hún telur sér fært að greiða fyrir aðgang að auðlindinni með tilboðum á markaði og það kemur líka í veg fyrir brask með kvótann. Einnig styrkir tilboðsleiðin rekstrarumhverfi sjávarútvegsins til lengri tíma vegna þess að duttlungar stjórnmálamanna ráða ekki með ófyrirséðum breytingum frá einu kjörtímabili til annars.
Svigrúm innan kerfisins verður meira með tilboðsmörkuðum og nýliðun möguleg sem veitir best reknu fyrirtækjunum aukin tækifæri hvort sem þau eru gömul eða ný. Í útfærslu tilboðsleiðar er auðvelt að taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða.
Reynsla af tilboðsleið til úthlutunar auðlinda er víðtæk um allan heim og auðvelt væri að leita í smiðju nágrannaþjóða, svo sem til Færeyinga og Norðmanna, eftir góðum fyrirmyndum. Ef rétt er á málum haldið leiðréttir tilboðsleiðin óréttlætið sem felst í því að ávinningur af hagræðingu innan útgerðarinnar renni í vasa fárra en íbúar sjávarbyggða beri kostnaðinn.
Fiskmarkaðir á Íslandi eru góðar fyrirmyndir þar sem markaðslausnir ráða. Þar kaupa fiskvinnslur án kvóta fisk daglega á tilboðsmarkaði. Þessi fyrirtæki hafa enga aðra rekstrartryggingu en þá að tilboðsmarkaðurinn verði starfandi á morgun. Aldrei er deilt um fiskverð á markaði enda hafa kaupandi og seljandi komið sér saman um verð. Allar fiskvinnslur landsins hafa jafnan aðgang að fiskmörkuðum. Nýliðun í fiskvinnslu er því miklu auðveldari en í útgerðinni.
Fleiri góð dæmi má nefna. Loftslagsheimildir eru boðnar út og íslensk flugfélög, álver og fleiri verksmiðjur gera tilboð í loftslagsheimildir á evrópskum markaði og tekjurnar renna í ríkissjóð. Stuðst er við útboð til að velja á milli símafyrirtækja þegar úthluta þarf tíðnisviðum fyrir fjarskipti og þegar ríkið felur einkaaðilum verkefni í samgöngum eru gerð tilboð í sérleyfin. Þegar landsmenn kaupa þak yfir höfuðið eru gerð tilboð á markaði sem stýrt er af fasteignasölum. Það er því góð og víðtæk reynsla af tilboðsleiðinni í ýmsum myndum og hún á mjög vel við þegar úthluta á takmörkuðum gæðum, svo sem náttúruauðlindum.
Nú geta þeir sem fá úthlutað kvóta stungið fullu veiðigjaldi í eigin vasa með því að selja og leigja kvóta til þriðja aðila. Sem dæmi má nefna að kvótalitlar útgerðir hafa þurft að greiða stærri útgerðum undanfarið um 170 kr. fyrir kílóið af þorski í veiðigjald á meðan ríkið innheimtir aðeins tæpar 23 kr. í veiðigjald samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu.
Niðurstöður Hafrannsóknastofnunar úr stofnmælingu botnfiska á Íslandsmiðum árið 2017 og niðurstöður og tillögur um aflamark fyrir næsta fiskveiðiár voru kynntar eða fyrir yfirstandandi fiskveiðiár voru kynntar 13. júní sl. Þar segir m.a.
„Árgangar 2014 og 2015, sem koma í veiðina 2018 og 2019, eru við langtímameðaltal og því má búast við að viðmiðunarstofninn stækki nokkuð frá sem hann er nú.“
Niðurstöður stofnmælinga eru mikilvægur þáttur árlegrar úttektar Hafrannsóknastofnunar á ástandi nytjastofna við landið. Mælingarnar frá því í mars 2016 bentu til góðs ástands helstu botnfisktegunda og horfur eru á aukinni nýliðun í veiðistofnum þorsks og ýsu á næstu fiskveiðiárum.
Staðan er þannig að á fiskveiðiárinu 2007/2008 var þorskkvótinn 130 þús. tonn. En fyrir fiskveiðiárið 2017/2018, tíu árum seinna, er þorskkvótinn 258 þús. tonn. Hann hefur tvöfaldast á tíu ára tímabili. Viðbótaraflakvótinn hefur verið tekinn og settur á silfurfat og réttur þeim sem fyrir eru á fleti.
Það er þannig að áliti þeirrar sem hér stendur og samkvæmt stefnu Samfylkingarinnar að það þarf að breyta fiskveiðikerfinu í heild sinni, en það er hægt að taka þetta skref strax í rétta átt. Þorskkvótinn var aukinn á þarsíðasta fiskveiðiári um 21 þús. tonn. á síðasta fiskveiðiári um 5 þús. tonn og á yfirstandandi fiskveiðiári um 14 þús. tonn. Þannig á þremur fiskveiðiárum hefur þorskkvótinn aukist um 40 þús. tonn.
Mælingar Hafrannsóknastofnunar benda til að kvótinn verði enn aukinn á næstu fiskveiðiárum. Ef Hafrannsóknastofnun gerir tillögu um viðbótarþorskkvóta fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 gerir lagabreytingin kleift að bjóða aukninguna út. Reglur um útboðið, sem taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða, verði settar með reglugerð. Með því fengist reynsla í framkvæmd útboða af þessu tagi ásamt markaðsverði aflaheimilda.
Flutningsmenn frumvarpsins eru ásamt þeirri sem hér stendur allur þingflokkur Samfylkingarinnar og allur þingflokkur Pírata.
Þegar við höfum rætt þessar hugmyndir og mælt fyrir þeim hér á Alþingi og talað fyrir þeim úti í samfélaginu þá koma alls konar úrtöluraddir. Meðal þess sem talað er um er að ef kvótinn er skertur þá skerðist kvótinn og þess vegna sé réttlætanlegt að þegar viðbót komi þá fái þeir sem fyrir eru á fleti viðbótina. Ég er ekki sammála þessu.
Þegar kvótakerfið var sett á og aflamark skert í kjölfarið urðu allir fyrir skerðingunni. Þeir sem voru komnir á fullt í útgerð fengu hlutfallslega skerðingu en þeir sem hugðust hefja útgerð hins vegar fengu 100% skerðingu því að þeim var haldið úti og utan við. Það voru ungir sjómenn og útgerðarmenn framtíðarinnar sem tóku á sig 100% skerðingu svo byggja mætti upp fiskstofnana.
Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar talað er um réttindi í þessari grein. Fram að því hafði verið endurnýjun í greininni með nýjum útgerðarmönnum, en það breyttist allt með gjafakvótakerfinu. Þá urðu þeir í besta falli leiguliðar. Þessu verður að breyta. Útboð veiðiheimilda er skref í þá átt að jafna þennan leik. Það sem verið er að gera tillögu um í þessu frumvarpi er að taka það litla skref að viðbótin sé boðin út, viðbótin, það er ekki verið að taka neitt af neinum.
Þeir sem telja að auðlindin sé komin í einkaeigu geta haft þá skoðun að einhverjir ákveðnir einstaklingar eða fjölskyldur eigi að fá þessa aukningu umfram aðra. Því mótmæli ég hins vegar og legg til að Alþingi verji hag almennings með því að bjóða út viðbótarkvótann í stað þess að færa hann þeim sem fyrir eru á fleti fyrir slikk.
Önnur gagnrýni á hugmyndir um útboð á aflaheimildum er að menn segja að það verði meiri samþjöppun í greininni, þetta ýti undir samþjöppun. Kerfið sem við búum við hefur leitt til mikillar samþjöppunar, en við erum varin því samkvæmt lögum að samþjöppunin verði þannig að hún safnist mikið á eina hönd, ef svo má segja, því að það er ákvæði í núverandi lögum um hámark kvóta á hverja útgerð.
Það þriðja sem er algengast að talað sé um þegar hugmyndin um útboð á aflakvóta er gagnrýnd er að það komi bara útlendingar og bjóði í allt saman og sigli með aflann burt. Það er auðvelt að svara þeirri gagnrýni því að 4. gr. laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri setur hvers kyns aðkomu útlendinga að íslenskum sjávarútvegi miklar skorður.
Ég vona að þetta frumvarp fái greiða leið í gegnum atvinnuveganefnd því að það er mikilvægt að frumvarpið verði samþykkt þannig að hægt verði að bjóða út viðbótaraflakvóta sem er fyrirséð að verður nokkuð mikill á næstu fiskveiðiárum. Drögum nú í sandinn línu og hættum að gefa auðlindina frá okkur. Hér erum við fulltrúar kosnir á þing til þess að verja hag almennings. Við gerum það ekki með því að halda áfram að gefa frá okkur auðlindina fyrir slikk. Á meðan það er gert molna vegirnir undan okkur. Við kvörtum undan að heilbrigðiskerfið fái ekki næga fjármuni og það séu ekki til nægir fjármunir til þess að halda hér uppi góðri velferð og sterku og öflugu skólakerfi.
Við erum rík þjóð, en það er samt þannig ef við horfum bara á sögu landa að í þeim ríkjum sem eru svona drifin áfram af auðlindum er líka hætta á mikilli spillingu. Þar er spillingarhættan mikil. Þar er hættan sú að til valda veljist fólk sem stendur vörð um nokkrar útgerðir, um nokkrar fjölskyldur í landinu og passi upp á þeirra hagsmuni á meðan almenningur líður skort í ýmsum myndum.
Ég vil hvetja þingmenn að taka vel undir þetta frumvarp, greiða leið þess í gegnum þingið þannig að við getum boðið út a.m.k. viðbótarkvótann sem kemur í þorski á næsta fiskveiðiári og næstu fiskveiðiárum. Við erum nú þegar búin að færa tæplega 130 þús. tonn þeim sem fyrir eru á fleti síðustu tíu árin. Hættum því núna. Það er komið nóg.” segir Oddný Harðardóttir um frumvarpið sem að nú bíður afgreiðslu þingsins.