Bill Cosby var dæmdur til fangelsisvistar

Bandaríski gamanleikarinn Bill Cosby var í dag dæmdur til fangelsisvistar vegna kynferðisbrota sem hann var sakfelldur fyrir, fyrr á þessu ári. En Cosby var á sínum tíma með allra vinsælustu gamanleikurum Bandaríkjanna.
Þáttur hans The Cosby Show, eða Fyrirmyndarfaðirinn eins og hann hét í íslensku sjónvarpi, naut mikilla vinsælda á níunda áratug síðustu aldar og fram á þann tíunda.
Dómari ákvað að refsingin skyldi vera að lágmarki þriggja ára fangelsi og að hámarki tíu ára fangelsisvist. Tíu ára fangelsi er þyngsta refsingin sem lá við brotum hans í Bandaríkjunum.
Cosby hefur jafnframt verið skráður sem ofbeldishneigður kynferðisbrotamaður og þarf hér eftir að skrá sig hjá lögreglu á lista sem haldinn er yfir slíka kynferðisbrotamenn.
Nágrönnum hans þar sem hann býr hverju sinni, verður hann einnig að hann upplýsa um að hann sé dæmdur kynferðisbrotamaður skv. lögum og reglum í Bandaríkjunum. Cosby var sakfelldur fyrir að byrla Andreu Constand ólyfjan og nauðga henni svo. Þyngsta refsing fyrir slíkt brot eru tíu ár í fangelsi og líklega hefur verið litið til hins háa aldurs leikarans og heilsufars þegar að refsingin var ákveðin. En Cosby hefur átt við mjög slæma heilsu að etja undanfarin ár.