Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Gamlir refir taka upp spreybrúsana

$
0
0

Fyrir um tuttugu árum var enginn maður með mönnum nema hann læddist út í skjóli nætur og gerði listaverk á húsveggi sem í daglegu tali eru kölluð graffítí. Þessi iðja var alltaf litin hornauga og þóttu þeir listamenn sem stunduðu iðjuna jafnast á við skemmdarvarga. Ætlun þeirra var þó aldrei að skemma neitt, heldur tjá sig með spreybrúsana að vopni. Eins og hverjir aðrir listamenn. Í vikunni sást til nokkurra gamalla refa í þessari iðn munda brúsana í undirgöngunum við Miklubraut og er gjörningurinn partur af sýningu á Menningarnótt. Steinar V. Pálsson, eða Sharq eins og hann merkir myndir sínar, segir þetta eins og að kunna að hjóla. Það gleymist seint.

Göngin er myndlistarsýning á graffítíverkum í Hlíðargöngunum við Klambratún. Í kring um árþúsundamótin voru göngin einn vinsælasti graffítístaður borgarinnar. Nánast daglega mátti berja þar augum ný graffítí verk sem gjarnan voru unnin á nóttunni. Jóhann Jónmundsson, vörður ganganna, sá svo til þess að umhverfið héldist snyrtilegt og myndlistin samræmdist góðu siðgæði. Árið 2005 misstu göngin hirðinn sinn þegar að Jóhann var færður til í starfi. Útlit þeirra fór smám saman versnandi og að lokum var graffítí alveg bannað. Nú er hópur færustu graffara landsins að heiðra þennan tíma og skreyta göngin endanna á milli. Sýningin markar 20 ára afmæli upphafs eins mesta uppgangstíma graffítílistar á Íslandi.
„Það var mikið fjör í þessum göngum fyrir tuttugu árum og þarna var vettvangur fyrir graffara að mála og sýna listir sínar,“ segir Steinar V. Pálsson graffítílistamaður. „Jói vörður ganganna hjálpaði mikið til, var að grunna fyrir okkur og slíkt og lenti í stappi við vinnuveitendur sína hjá Reykjavíkurborg. Þetta var gegn þeim stefnum og straumum sem borgin hafði hugsað sér. Það var lagt blátt bann við þessu og Jói seinna færður til í starfi,“ segir Steinar.
„Reykjavíkurborg setti upp einhverja zero-tolerance stefnu sem var mjög vanhugsuð og allt var bannað. Síðan þá hefur verið málað yfir hvert einasta strik sem hefur verið spreyjað, þar til nú. Nú erum við nokkrir graffarar sem vorum að mála í göngunum fyrir tuttugu árum síðan að spreyja fyrir þessa sýningu sem er sett upp í tengslum við Menningarnótt. Flest öll orðin miðaldra,“ segir Steinar. „Þarna eru graffarar eins og Trausti KEZ, Adda Atom og Steini DIE og fleiri, ásamt mér. Ég hef lítið spreyjað á undanförnum árum, en þetta er svolítið eins og að læra að hjóla. Þú býrð alltaf að þessu. Trausti hefur samt verið aktífur undanfarin ár og er enn að,“ segir Steinar.
„Það hefur mikið breyst í þessum heimi á tuttugu árum og aðallega í hugmyndaöflun. Fyrir tuttugu árum var ekkert net og maður sá ekki mikið af graffítí frá útlöndum, nema í einhverjum tímaritum og slíkt. Við funduðum og fórum lauslega yfir litahugmyndir og það var mikill samningsvilji í hópnum og mikið traust í gangi. Svo röðum við þessu einhvern veginn upp og gerum eitthvað skemmtilegt úr þessu,“ segir Steinar V. Pálsson – SHARQ, graffítílistamaður.
Sýningin opnar á Menningarnótt kl 14.00 í Hlíðargöngunum við Klambratún.

Steinar - Sharq spreyjar af miklum móð

Steinar – Sharq spreyjar af miklum móð

The post Gamlir refir taka upp spreybrúsana appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652