Bráðum verður bylting!
Það er ólga í íslensku samfélagi. Uppreisn.
Bændur sprengja stíflu í Laxá fyrir norðan.
Íslenskir námsmenn hertaka Sendiráð Íslands í Stokkhólmi. Árið er 1970.
Konur skipuleggja sig í réttindabaráttu sinni – og stofna Rauðsokkahreyfinguna.
Hvað er að gerast?
Hefur ’68 byltingin teygt anga sína til Íslands?
Síldarævintýrinu var lokið, tvær gengisfellingar á u.þ.b. einu ári upp á 60%. Þessar miklu efnahagsþrengingar voru ein undirrót mótmælaaðgerða og pólitísks andófs.
Í þessari heimildamynd er kastljósinu beint að stöðu námsmanna og baráttu þeirra fyrir bættum kjörum og jafnrétti til náms, því hagsmunabarátta námsmanna þróaðist frá baráttu fyrir eigin hagsmunum yfir á önnur svið samfélagsins með vaxandi róttækni æskufólks víða um heim. Og þar átti Víetnamstríðið stóran þátt.
Menn fóru að setja spurningarmerki við sjálfa þjóðfélagsgerðina og alþjóðamál urðu hluti af heimsmynd æskunnar á þessum tímum umróts og átaka.
Í myndinni er fjallað um sendiráðstökuna, aðdraganda hennar, framkvæmd og eftirmál. M.a. er rætt við þátttakendur í sendiráðstökunni og fleiri sem settu svip sinn á þessa liðnu tíma.
Þar á meðal nokkrir þjóðkunnir einstaklingar. Einnig er rætt við ungt fólk í dag um pólitík þá og nú.
– Leikstjórar myndarinnar eru Hjálmtýr Heiðdal og Sigurður Skúlason, sem einnig unnu handrit myndarinnar ásamt Önnu Kristínu Kristjánsdóttur.
– Kvikmyndagerðin Seylan framleiddi myndina.
– Myndin verður sýnd í Bíó Paradís og hefjast sýningar þ. 11. október.
Slóð á heimasíðu myndarinnar: http://www.seylan.is/Bradum_verdur_bylting.html
Í heimildakvikmyndinni Bráðum verður bylting! er sögð saga ’68 kynslóðarinnar sem lét til sín taka í löndum Vesturlanda sjöunda áratugar s.l. aldar. Einstaklingar sem voru þátttakendur í því umróti sem einkenndi þennan tíma útskýra hvaða hvatar lágu að baki þegar þúsundir æskufólks hófu að berjast fyrir eigin gildum í trássi við ríkjandi viðhorf fyrri kynslóða. Sendiráðstakan í Stokkhólmi þ. 20. apríl 1970 var einn af hápunktum í þessari sögu.