Holir menn
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar segir knúna til að bregðast við leiðara Fréttablaðsins s.l. föstudag vegna ummæla sem að þar eru viðhöfð um yfirvofandi kjarabaráttu sem að nú er framundan hjá stærstu launþegahreyfingum á Íslandi.

– – – – –
Ég finn mig knúna til að bregðast við leiðara Fréttablaðsins, “Stærsta ógnin”, sem birtist á föstudaginn var. Þó langar mig það ekkert. Mér langar ekki að virða fólk sem beitir hiklaust hótunum viðlits.
Hann segir almenningi að vænta þess að ef við stígum af braut óréttlætisins og byrjum að byggja upp efnahagslegt réttlæti muni það kosta gengishrun, óðaverðbólgu og vaxtahækkanir.
Hörður stillir sjálfum sér upp sem rödd skynseminnar en það er ekki hægt að segja annað en að móðursýkiskenndir heimsendaspádómar hans einkennist af alveg hreint einstakri vanstillingu. Auðvitað er erfitt að taka fólk alvarlega sem óhrætt boðar hrun verði undið ofan af þeirri óréttlátu skiptingu gæðanna sem tíðkast hefur á Íslandi, þeirri misskiptingu sem auðstéttirnar byggja tilveru sína á en Hörður hlýtur að enduróma boðskapinn frá þeim sem telja sig eiga íslenskt samfélag með húð og hári og því neyðumst til að taka hann alvarlega. Hann segir kröfunum um lágmarkslaun sem hægt er að lifa af, aðgerðum í húsnæðismálum og breytingum á skattkerfinu „ekki lýst öðruvísi en sem sturluðum og í engum takti við efnahagslegan veruleika“. En það er auðvitað löngu tímabært fyrir alla, líka Hörð, að viðurkenna að það er hinn efnahagslegi veruleiki sem láglaunafólk býr við sem er sturlaður.
Ég, láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði, er til vitnis um það. Ég þekki af mikilli persónulegri reynslu sturlun þá sem þar ríkir. Hörður kallar eftir því að verkalýðshreyfingin leggi mat á kostnaðinn við kröfurnar en hvernig væri nú að Hörður og aðrar málpípur auðvaldsins legðu mat á kostnaðinn sem felst í því að reka samfélag sem er grundvallað á efnahagslegu óréttlæti? Væri það ekki hressandi tilbreyting?
Ég spyr í alvöru kryddaðri af bræði:
Er það byltingarkennt að fólk megi lifa af ráðstöfunartekjum sínum?
Er það byltingarkennt að fólk geti látið það duga að vera í einni vinnu?
Er það byltingarkennt að fólk hafi aðgang að öruggu húsnæði á eðlilegum kjörum?
Er það byltingarkennt að fólkið sem hefur minnst á milli handanna verði ekki lengur látið bera þyngstu skatt-byrgðarnar?
Er það byltingarkennt að fjármagnseigendur verði látnir axla samfélagslega ábyrgð með því að greiða eðlilega skattprósentu af auðæfum sínum?
Er það byltingarkennt að tekið verði af alvöru á sjúkri misskiptingunni í samfélagi þar sem yfirstéttin hefur brunað fram úr almenningi þegar kemur að launakækkunum? Er það byltingarkennt að snúið verði af þeirri ömurlegu óheillabraut sem nýfrjálshyggjan neyddi okkur út á þegar skattbyrgðin var færð frá hæstu tekjuhópunum yfir á lægri og millitekjuhópana?
Er það byltingarkennt að við látum ekki lengur bjóða okkur þann ósóma að láglaunamanneskja sem reynir að bæta afkomu sína með því að vera í aukavinnu greiði rétt tæplega 37% skatt af smotteríinu sem hún nær að vinna sér inn en ríki maðurinn sem leikur sér með fjármagnstekjurnar sínar greiði aðeins 22% skatta af þeim? Er það byltingarkennt að finnast það viðbjóðslegt að vegna skattatilfærslu stjórnmálafólks á mála hjá auðstéttinni eru nú 19 milljarðar lagðir aukalega á fátækasta fólkið á Íslandi, þeim sem er gert að strita fyrir hin agalega rausnarlegu 300.000 króna lágmarkslaun?
Og ef svarið er já, þetta er byltingarkennt þá kallið mig byltingarkonu, í guðanna bænum! Megi þá helvítis byltingin lifa.
Fyrirlitningin og andúðin á verkafólki og þeim sem strita fyrir lægstu launin sem frussast á okkur af síðum Fréttablaðsins er með ólíkndum og ég vona heitt og innilega að þau sem lásu leiðarann hafi í stað þess að láta ógna sér með ógeðslegum áróðrinum og rit-sóðaskapnum, áttað sig á að svona bregst auðvaldið við þegar vinnandi fólk kallar eftir samfélagslegri sátt um efnahagslegt ráttlæti. Það er vissulega sorgarsaga en hún er aldagömul og greinilegt að sumir eru þannig innréttaðir að þeim finnst hún ekki sorgleg heldur æsandi. Það er hin ólekkera staðreynd. Við verðum bara að hugreysta okkur við það að fyrst Herði er sigað á okkur af húsbóndum sínum þá hljótum við að vera á réttri leið.
Að lokum: Þar sem heimsenda-Hörður (en slagorð hans hlýtur að vera: Heimsendir frekar en réttlæti!) vísar í ljóð T.S. Eliot The Hollow men undir lok ritsmíðar sinnar ætla ég hér með að tileinka honum (og hinum vanstillingunum) fyrstu línurnar í ljóðinu. Ég vona að hann fari ekki að gráta yfir því að ómenntuð láglaunakona skuli leyfa sér svona agalegan skæting útí stöðugleikann hans.
Bless í bili.
Hamtroðnir menn
Hallreistir saman
Hausleður fyllt með hálmi. Ó!
Skrælnuð röddin, þó
Að við sífrum saman
Er hvískrandi merkingarlaus
Einsog gola í þurrt gras
Eða rottu-fætur um brotið glas
Í þurrum kjallara. ” Segir Sólvei Anna.