Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

,,Megi þá helvítis byltingin lifa”

$
0
0

Holir menn

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar segir knúna til að bregðast við leiðara Fréttablaðsins s.l. föstudag vegna ummæla sem að þar eru viðhöfð um yfirvofandi kjarabaráttu sem að nú er framundan hjá stærstu launþegahreyfingum á Íslandi.

Holir menn
.
,,Stemmningin í herbúðum óvina vinnandi stétta er ótrúleg. Henni verður ekki lýst öðruvísi en sem sturlaðri. En í sturluninni opinberast sannleikurinn um innrætið. Þegar við höfum hrist af okkur hryllinginn sem vaknar við árásirnar og ádrepurnar hljótum við þessvegna að geta glaðst örlítið, í þeirri trú að sannleikurinn hjálpi við að gera okkur frjáls og að fyrsta skrefið í átt að frelsi sé að viðurkenna sannleikann um þá sem styðja áframhaldandi yfirráð auðstéttarinnar yfir vinnuaflinu á Íslandi.
Sannleikann um fólk sem getur frekar séð fyrir sér heimsendi en jöfnuð og réttlæti. Það er enginn smá sannleikur.
– – – – –
Ég finn mig knúna til að bregðast við leiðara Fréttablaðsins, “Stærsta ógnin”, sem birtist á föstudaginn var. Þó langar mig það ekkert. Mér langar ekki að virða fólk sem beitir hiklaust hótunum viðlits.
En því miður er svo komið fyrir talsmönnum óbreytts ástands að þeir hika ekki við reyna að kúga vinnandi fólk til hlýðni með sjúkri og viðbjóðslegri orðræðu og þá er auðvitað ekki um annað að ræða en að sýna að í mér rennur blóð. Þetta er auðvitað gömul saga og ný; efnhagslegir og pólitískir forréttindahópar hafa ávallt haft fólk á sínum snærum sem er tilbúið að fara fram með sjúkustu útgáfuna af málflutningnum.
.
Tilgangurinn með því að er annars vegar að skelfa fólk til hlýðni og hins vegar að búa til tækifæri fyrir hófstilltari og jarðbundnari talsmenn arðránsins til að stíga fram sem málsvara skynsemi og stöðugleika. Við megum kannski bara þakka fyrir að þeir eru allavegir hættir að lemja okkur í hausinn.
.
En það væri samt kannski skárra en ámátlegt vælið í hetjutenór grátkórs íslenskra kapítalista, Herði Ægissyni; önnur eins harmakvein hafa varla heyrst áður frá fullorðinni manneskju. Ég grenjaði td. minna þegar ég fauk í rokinu og fjórbraut á mér öxlina.
Hörður bókstaflega gengur af göflunum í leiðaranum og argar á fólk að ef kröfum vinnuaflsins um að geta lifað af dagvinnulaunum og fá að stjórna meira af tíma sínum og lífi verði mætt muni æðisgengin kollsteypa ríða yfir samfélagið. (Það er auðvitað áhugavert fyrir áhugafólk um kapítalismann að sjá svona opinskáa og bersögla frásögn af sadisma-möguleikum þeirra efnahagslögmála sem við erum neydd til að lifa við.)

Hann segir almenningi að vænta þess að ef við stígum af braut óréttlætisins og byrjum að byggja upp efnahagslegt réttlæti muni það kosta gengishrun, óðaverðbólgu og vaxtahækkanir.

Hörður stillir sjálfum sér upp sem rödd skynseminnar en það er ekki hægt að segja annað en að móðursýkiskenndir heimsendaspádómar hans einkennist af alveg hreint einstakri vanstillingu. Auðvitað er erfitt að taka fólk alvarlega sem óhrætt boðar hrun verði undið ofan af þeirri óréttlátu skiptingu gæðanna sem tíðkast hefur á Íslandi, þeirri misskiptingu sem auðstéttirnar byggja tilveru sína á en Hörður hlýtur að enduróma boðskapinn frá þeim sem telja sig eiga íslenskt samfélag með húð og hári og því neyðumst til að taka hann alvarlega. Hann segir kröfunum um lágmarkslaun sem hægt er að lifa af, aðgerðum í húsnæðismálum og breytingum á skattkerfinu „ekki lýst öðruvísi en sem sturluðum og í engum takti við efnahagslegan veruleika“. En það er auðvitað löngu tímabært fyrir alla, líka Hörð, að viðurkenna að það er hinn efnahagslegi veruleiki sem láglaunafólk býr við sem er sturlaður.

Ég, láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði, er til vitnis um það. Ég þekki af mikilli persónulegri reynslu sturlun þá sem þar ríkir.  Hörður kallar eftir því að verkalýðshreyfingin leggi mat á kostnaðinn við kröfurnar en hvernig væri nú að Hörður og aðrar málpípur auðvaldsins legðu mat á kostnaðinn sem felst í því að reka samfélag sem er grundvallað á efnahagslegu óréttlæti? Væri það ekki hressandi tilbreyting?

Ég spyr í alvöru kryddaðri af bræði:

Getur það verið að á Íslandi, sjálfri velmegunareyjunni, þar sem smjörið drýpur af hverju strái, þar sem forstjórar geta borgað sjálfum sér 7 milljónir á mánuði og ráðherrar 2 milljónir á mánuði, þar sem auðstéttin sendir formúgur í skattaskjól, þar sem til eru endalausar milljónir til að setja í skýrslur unnar af viðhlæjendum valdafólks um hvað í ósköpunum hafi nú eiginlega gerst fyrir tíu árum síðan og til að byggja lúxusbragga handa nemendum prívatskóla eigi verkafólk að halda áfram að sætta sig að vera á einhverju andskotans útsöluverði?
.
Að verkafólk, komið undir sjötugt, eigi að sætta sig við að hafa ekki efni á að hætta að vinna, þrátt fyrir heilsuleysi og heila ævi fulla af striti? Að láglaunakonur eigi að halda áfram að sætta sig að vera verðlagðar eins og hvert annað drasl, þrátt fyrir að vera öllu þjóðfélaginu bókstaflega lífsnauðsynlegar? Á ungt fólk sem ekki er svo heppið að eiga ættingja sem hafa getað safnað fyrir þau í feita sjóði að sætta sig við það að geta aldrei látið sig dreyma um öruggt húsnæði? Á fólk sem hefur ekki notið þeirra forréttinda að ganga menntaveginn að halda áfram að sætta sig við það að því sé refsað alla ævi fyrir það að hafa ungt farið að knýja hér áfram hjól atvinnulífsins, að þakklæti samfélagsins fyrir vinnusemina sé líf fullt af blankheitum og vandræðum?
.
Og ég spyr í fullri alvöru og bið fólk um að svara af heiðarleika:

Er það byltingarkennt að fólk megi lifa af ráðstöfunartekjum sínum?
Er það byltingarkennt að fólk geti látið það duga að vera í einni vinnu?
Er það byltingarkennt að fólk hafi aðgang að öruggu húsnæði á eðlilegum kjörum?
Er það byltingarkennt að fólkið sem hefur minnst á milli handanna verði ekki lengur látið bera þyngstu skatt-byrgðarnar?
Er það byltingarkennt að fjármagnseigendur verði látnir axla samfélagslega ábyrgð með því að greiða eðlilega skattprósentu af auðæfum sínum?

Er það byltingarkennt að tekið verði af alvöru á sjúkri misskiptingunni í samfélagi þar sem yfirstéttin hefur brunað fram úr almenningi þegar kemur að launakækkunum? Er það byltingarkennt að snúið verði af þeirri ömurlegu óheillabraut sem nýfrjálshyggjan neyddi okkur út á þegar skattbyrgðin var færð frá hæstu tekjuhópunum yfir á lægri og millitekjuhópana?

Er það byltingarkennt að við látum ekki lengur bjóða okkur þann ósóma að láglaunamanneskja sem reynir að bæta afkomu sína með því að vera í aukavinnu greiði rétt tæplega 37% skatt af smotteríinu sem hún nær að vinna sér inn en ríki maðurinn sem leikur sér með fjármagnstekjurnar sínar greiði aðeins 22% skatta af þeim? Er það byltingarkennt að finnast það viðbjóðslegt að vegna skattatilfærslu stjórnmálafólks á mála hjá auðstéttinni eru nú 19 milljarðar lagðir aukalega á fátækasta fólkið á Íslandi, þeim sem er gert að strita fyrir hin agalega rausnarlegu 300.000 króna lágmarkslaun?

Og ef svarið er já, þetta er byltingarkennt þá kallið mig byltingarkonu, í guðanna bænum! Megi þá helvítis byltingin lifa.

Fyrirlitningin og andúðin á verkafólki og þeim sem strita fyrir lægstu launin sem frussast á okkur af síðum Fréttablaðsins er með ólíkndum og ég vona heitt og innilega að þau sem lásu leiðarann hafi í stað þess að láta ógna sér með ógeðslegum áróðrinum og rit-sóðaskapnum, áttað sig á að svona bregst auðvaldið við þegar vinnandi fólk kallar eftir samfélagslegri sátt um efnahagslegt ráttlæti. Það er vissulega sorgarsaga en hún er aldagömul og greinilegt að sumir eru þannig innréttaðir að þeim finnst hún ekki sorgleg heldur æsandi. Það er hin ólekkera staðreynd. Við verðum bara að hugreysta okkur við það að fyrst Herði er sigað á okkur af húsbóndum sínum þá hljótum við að vera á réttri leið.

Að lokum: Þar sem heimsenda-Hörður (en slagorð hans hlýtur að vera: Heimsendir frekar en réttlæti!) vísar í ljóð T.S. Eliot The Hollow men undir lok ritsmíðar sinnar ætla ég hér með að tileinka honum (og hinum vanstillingunum) fyrstu línurnar í ljóðinu. Ég vona að hann fari ekki að gráta yfir því að ómenntuð láglaunakona skuli leyfa sér svona agalegan skæting útí stöðugleikann hans.
Bless í bili.

Við erum holir menn
Hamtroðnir menn
Hallreistir saman
Hausleður fyllt með hálmi. Ó!
Skrælnuð röddin, þó
Að við sífrum saman
Er hvískrandi merkingarlaus
Einsog gola í þurrt gras
Eða rottu-fætur um brotið glas
Í þurrum kjallara. ” Segir Sólvei Anna.

Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652