Eldur í einbýlishúsi á Selfossi
Nú rétt í þessu voru að berast fréttir og myndir af bruna á Selfossi. Að sögn blaðamanns sem er á staðnum er töluverður eldur og reykur í einbýlishúsi við Kirkjuveg á Selfossi. Ekki er vitað meira að svo stöddu en fréttin verður uppfærð. Talið er að það sé einn maður inni í húsinu, skv. upplýsingum sem voru að berast en það staðfestir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu. Slökkviliðsmönnum hefur ekki tekist að komast að honum en reykkafarar voru sendir inn, fljótlega eftir að slökkvistarf hófst en þeir urðu að fara aftur út þegar aðstæður voru of hættulegar og þak hússins var farið að hrynja niður.
Búið er að girða svæðið af og unnið er að slökkvistörfum. Ekki er ljóst hvernær kveiknaði í húsinu og eldsupptök eru heldur ekki kunn.
Vegna bruna á Kirkjuvegi eru nágrannar beðnir um að loka gluggum hjá sér til að varna þess að fá eitraðar gufur inn í hús. Fólk er beðið að leita til Heilbrigðisstofnanna ef það finnur fyrir öndunaróþægindum. Fólk er jafnframt beðið að leita til tryggingarfélaga ef það telur húsnæði sitt hafa orðið fyrir reykskemmdum.