Flutningaskip strandað við Helguvíkurhöfn
Aðstæður voru erfiðar í Helguvík þar sem flutningaskipið Fjordvik strandaði um klukkan eitt í nótt eins og við greindum frá. Skipið liggur strandað í stórgrýttum hafnargarðinum.
Þyrla Landhelgisgæslunnar, stóð í björgunaraðgerðum í nótt og fjórtán áhafnarmeðlimir skipsins voru hífðir upp úr skipinu, auk hafnsögumanns í þyrluna TF GNÁ.
Frétt frá því klukkan tvö í nótt:
Sementsflutningaskip strandaði í nótt við innsiglinguna í Helguvíkurhöfn. 15 manna áhöfn er enn um borð (klukkan 02.00), RÚV greindi fyrst frá. Mjög vont veður er á svæðinu og ekki er hægt að sjósetja báta og því er verið að senda björgunarbáta frá Hafnarfirði.
Þá munu tvær þyrlur landhelgisgæslunnar hafa verið kallaðar út vegna strandsins. Tilkynningin um strandið barst rétt fyrir klukkan eitt í nótt og búið er að kalla út björgunarsveitir á Suðurnesjum og í Hafnarfirði.
Jafnframt er verið er að kalla út meiri mannskap. Aðstæður eru erfiðar á strandstað og veður er vont og skipið nánast upp í grjótgarðinum við innsiglinguna.
Gul viðvörun – Norðaustan hvassviðri eða stormur gengur yfir mest allt landið í nótt og á morgun