Á fjölum Þjóðleikhússins í vetur verður Hrói höttur ansi fyrirferðarmikill. Þessi sýning sem er uppfærsla Vesturports á sögunni um þessa gömlu söguhetju skartar mörgum af bestu leikurum landsins og leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar og Selmu Björnsdóttur. Aðalhlutverkið, sjálfan Hróa hött, leikur Þórir Sæmundsson sem undanfarin ár hefur leikið hin ýmsu hlutverk á sviði og í sjónvarpi. Þetta er hans fyrsta burðarhlutverk og hann segir stutt síðan að honum hefði ekki verið treyst fyrir þessu. Hann endurskoðaði líf sitt fyrir 18 mánuðum og áttaði sig á því að hann var ekki Jose Mourinho leiklistarinnar. Hann tekur auðmjúkur á móti nýju leikári.
Þórir Sæmundsson er 34 ára gamall og lærði leiklist í Noregi. Hann flutti til Noregs ásamt foreldrum sínum og bræðrum að loknum grunnskóla og eftir leiklistarnámið fékk hann tækifæri í norskum leikhúsum en kom heim árið 2007, eingöngu vegna þess að hann fann fyrir heimþrá. Hann var alltaf unglingurinn sem vissi allt best og skildi aldrei neitt í því þegar aðrir voru að reyna að kenna honum eitthvað sem hann þóttist kunna. Það tók hann mörg ár að fatta það að hann væri ekkert meira sérstakur en næsti maður. Þórir útskrifaðist sem leikari aðeins 21 árs og hefur því starfað á því sviði í 13 ár, þrátt fyrir ungan aldur.
Spennandi að leika Hróa hött
„Við erum bara á fullu þessa dagana og frumsýningin er 12. september,“ segir Þórir um hlutverk sitt í Hróa hetti. „Ég held að þetta gangi þrusuvel og ég er að fíla þetta. Þetta er skemmtilegt, spennandi og fyndið og þetta er gríðarlega líkamlegt. Ég er að drepast í líkamanum alla daga. Ég er að finna fyrir verkjum í einhverjum vöðvum og vöðvafestingum sem ég vissi ekki einu sinni af. Þetta er samt svo gaman og ég hef mikla trú á því að þetta verði mjög flott,“ segir Þórir. „Þetta er ekki þessi klassíska Hróa hattar pæling. Hann er ekkert þessi hetja í byrjun sem allir upplifa, en það breytist svo. Salka Sól kemur svo með tónlist sem gefur þessu nýtt líf, en þetta er alls ekki söngleikur samt. Bara leikhús með músík.“
Þórir vann í rúm þrjú ár í Þjóðleikhúsinu eftir að hann flutti heim, og fór þá yfir í Borgarleikhúsið þar sem hann tók þátt í metsölusýningunni Mary Poppins. Hann skipti svo aftur yfir í Þjóðleikhúsið á síðasta ári. „Ég var í Latabæ, Sjálfstæðu fólki og Karítas: Án titils í fyrra og í vetur verð ég allavega í Hróa, örugglega einhverju fleiru en það er ekki tími til að spá í það fyrr en eftir frumsýningu,“ segir hann. „Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessu og finnst gaman að það er mikill utanaðkomandi áhugi á þessari sýningu.“
Þórir Sæmundsson er í ítarlegu viðtali í Fréttatímanum um helgina.
The post Spennandi að leika Hróa hött appeared first on FRÉTTATÍMINN.