Ævintýraóperan Baldursbrá eftir Gunnstein Ólafsson og Böðvar Guðmundsson verður flutt á sviði í Norðurljósasal Hörpu á laugardaginn. Baldursbrá var flutt á tvennum tónleikum sumarið 2014 og var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna, fyrst íslenskra barnasöngleikja. Uppsetningin nú er samstarfsverkefni Litla óperukompanísins, Íslensku óperunnar og Hörpu. Með aðalhlutverkið fer söngkonan Fjóla Nikulásdóttir, sem flutti heim nýverið eftir nám í Austurríki.
Tónlistin í Baldursbrá byggir að hluta á íslenskum þjóðlögum, hvort tveggja rímnalögum og þulum, en þar bregður einnig fyrir rappi og fjörlegum dönsum. Með hlutverk í sýningunni fara þeir Jón Svavar Jósefsson, Eyjólfur Eyjólfsson, Davíð Ólafsson ásamt Fjólu Nikulásdóttur sem leikur sjálfa Baldursbrá. „Nú eru æfingar alla daga og allt að smella,“ segir Fjóla.
„Þetta er ævintýraópera í rómantískum stíl. Tónlistin er blanda af íslenskri tónlistararfleið í bland við nútímatónlist. Sagan er um blómið Baldursbrá sem býr í lautu og er ánægð með sitt,“ segir Fjóla. „Svo hittir hún spakan Spóa sem finnst agalegt að hún hafi aldrei séð neitt annað en þessa laut. Hann fer til prestsins sem hjálpar honum að grafa hana upp svo þeir geti sýnt henni sólarlagið, segir hún. Auðvitað er svo litla næringu fyrir Baldursbrá að fá án rótanna og hún byrjar að veslast upp og hún lendir í hrút og yrðlingum og þetta er allt mjög náttúrutengt, segir Fjóla. Lítil saga um náttúruna sem endar nú samt vel.“
Fjóla lauk mastersnámi í óperusöng í Vínarborg í sumar og er komin heim. Hún segir það mjög krefjandi og skemmtilegt að fá að syngja íslenska óperu. „Ég starfa sem söngkona og stýri tveimur kórum, segir hún. Ég er með Hljómfélagið, sem er kór sem ég stofnaði og svo stýri ég Skátakórnum. Svo kenni ég á morgnana á milli þess sem ég syng. Ég var hjá Diddú hjá söngskóla Sigurðar Demetz áður en ég fór út.“
Óperan Baldursbrá er sýnd daglega í Norðurljósasal Hörpu frá laugardeginum til þriðjudagsins 31. ágúst. „Framundan er svo bara að koma kórunum mínum af stað fyrir veturinn og undirbúa upptökur með Scola Cantorum í október og ferð til Sviss í nóvember, svo það er nóg að gera. Það er mjög gaman að syngja Baldursbrá og hópurinn er mjög góður. Þetta er mjög flott verk og það er ekki á hverjum degi sem það eru íslensk óperuverk í boði,“ segir Fjóla Nikulásdótir söngkona.
Upplýsingar um miðasölu má finna á www.harpa.is
The post Íslensk ævintýraópera í rómantískum stíl appeared first on FRÉTTATÍMINN.