Á hverju ári sjáum við ný andlit í bæklingum leikhúsanna. Nýútskrifaðir leikarar fá fyrstu tækifærin til að sanna sig á stóru sviðunum og standa jafnfætis þeim reynslumeiri og þekktari. Tvær leikkonur sem útskrifuðust frá Listaháskólanum í vor eru að stíga sín fyrstu skref sem atvinnuleikkonur í Borgarleikhúsinu í vetur, Blær Jóhannsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir. Báðar eru þær spenntar og ánægðar með nýja vinnustaðinn og segja leikarana taka sér með opnum örmum.
„Við vorum báðar komnar með samning áður en við útskrifuðumst svo við vissum hvað við vorum að fara að gera,“ segir Blær Jóhannsdóttir leikkona.
„Ég byrjaði í vor að æfa í mínu fyrsta verkefni hjá Borgarleikhúsinu sem er hlutverk Nínu í Mávinum, sem er frumsýnt í vetur og verður geðveik sýning,“ segir hún. „Ég fæ því lengra sumarfrí og er ekki enn byrjuð að æfa aftur, en Vala er byrjuð.“
„Ég mætti til vinnu núna í ágúst þar sem ég er að leika í leikriti sem heitir At og er fyrsta frumsýning vetrarins,“ segir Vala. „Ég fer svo í Njálu og svo munum við leika saman í Mamma Mia eftir áramót,“ segir Blær. „Þar munum við leika bestu vinkonur og við erum mjög vanar því. Við lékum líka bestu vinkonur í lokaverkefninu okkar í skólanum.“ „Við æfðum líka í vor því við frumsýnum svo snemma,“ segir Vala.
„Mér líst ógeðslega vel á þetta. Ég var að vinna sem barnapía í leikhúsinu og ýmislegt fleira eftir menntaskóla áður en ég fór í leiklistarnámið, svo ég er vön húsinu. Það sem er búið að koma mér mest á óvart er hvað þetta hefur verið eðlileg aðlögun,“ segir hún. „Mig hefur alltaf dreymt um þetta og þarf að klípa mig á hverjum degi. Eldri leikararnir eru allir mjög rólegir yfir því að fá nýja leikara og stundum finnst mér eins og pressan snúist við hjá þeim. Þeir vilja sanna sig fyrir nýja fólkinu eins og við fyrir þeim. Annars eru bara allir voða duglegir.“
„Mér finnst alveg klikkað að vera nýútskrifuð og vera allt í einu farin að leika á móti Hilmi Snæ og Halldóru Geirharðs,“ segir Blær. „Þau taka okkur alveg ótrúlega vel og það er frábær andi í Borgarleikhúsinu. Ég upplifi þau ekki beint sem stjörnur þegar ég er sjálf að vinna með þeim, en þegar ég kem svo heim til mín þá stend ég mig að því að segja öllum hvað þau eru sniðug og frábær. Ætli það sé ekki að vera star-struck,“ segir Blær Jóhannsdóttir.
Blær og Vala eru báðar í spunahópnum Improv Ísland sem mun vera með vikulegar sýningar í Þjóðleikhúskjallaranum eftir áramót, svo það er nóg að gera hjá þessum efnilegu leikkonum. „Ég er svo að skrifa nýja seríu af Þær tvær sem ég hef verið að gera og svona ýmislegt annað,“ segir Vala Kristín Eiríksdóttir.
The post Þurfum að klípa okkur á hverjum degi appeared first on FRÉTTATÍMINN.