Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Betri andi í skólum eftir að busavígslur lögðust af

$
0
0

Busavígslur hafa ekki verið í sviðsljósinu þetta haustið enda að verða liðin tíð í langflestum skólum landsins. Ellefu framhaldsskólar ákváðu að leggja hefðina niður í fyrrahaust og viðmælendur Fréttatímans eru sammála um að andrúmsloftið í skólunum hafi breyst til batnaðar. 

Langflestir framhaldsskólar landsins hafa lagt niður þá hefð að busa nýnema. Nokkrir skólar halda í gamlar hefðir þó busavígslurnar þar hafi mildast mikið. Í Menntaskólanum í Reykjavík hefur busavígslunni verið hætt en tolleringin mun haldast til að halda í gamlar hefðir. Þeir skólameistarar sem Fréttatíminn náði tali af eru sammála um að andinn í skólanum sé allt annar eftir að busun hafi verið hætt.

Ekkert vesen fyrir nýnemaball

Kristinn Þorsteinsson skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðbæ segir andrúmsloft skólans vera allt annað eftir að busavígslurnar voru lagðar af fyrir tveimur árum. „Í kjölfar busavígslunnar árið 2013 þá tilkynnti ég að það yrðu ekki frekari busavígslur við skólann. Það var vígsla sem fór úr böndunum. Það gerðist reyndar ekkert innan veggja skólans en það var verið að fara með nemendur hingað og þangað og við vorum mjög óhress með það. Síðasta haust upplifðum við engin vandræði og heldur ekki núna. Þetta hefur bara gengið ótrúlega vel. Andrúmsloftið er miklu rólegra en áður því við erum laus við þessa spennu sem fylgir busavígslu. Nýnemaballið okkar var í gær og það var ekkert vesen eins og var oft áður. Þetta er mikill léttir fyrir okkur enda hefðum við viljað vera laus við þetta fyrir mörgum árum.“

Unglingar betri í dag

„Það er nú eiginlega búið að banna að nota þessi orð í skólanum, busi og busaball, nú notum við nýnemi og nýnemaball,“ segir Jón Reynir Sigurvinsson, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði en hann ákvað eins og svo margir aðrir skólameistarar að leggja vígsluna af í fyrra. „Það höfðu verið gerðar tilraunir til að leggja þetta af áður en það fór alltaf í sama farið aftur. En núna virðist þetta vera að ganga vel.
Ætli börn séu ekki bara betri í dag en áður,“ segir Jón Reynir aðspurður um ástæðu þess hversu vel gangi að leggja hefðina af núna. „Það hlýtur að vera ein skýringin. Unglingar í dag eru líka upplýstari en áður og meira meðvitaðir um áhrif ofbeldis. En skilaboðin voru mjög skýr í fyrra og komu frá mörgum skólum samtímis, það hefur líka hjálpað. Þetta er bara liðin tíð.“

The post Betri andi í skólum eftir að busavígslur lögðust af appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652