Borgríki hefur verið skilgreint sem (sjálfstætt) ríki undir stjórn borgar. Meðal nútíma borgríkja má nefna Mónakó og Singapúr. Þegar tölur Hagstofunnar um mannfjölda á Íslandi eru skoðaðar má velta því fyrir sér hvort hér sé að myndast borgríki en lok annars ársfjórðungs þessa árs bjuggu 330.610 manns á Íslandi, þar af 212.120 manns á höfuðborgarsvæðinu. Tveir þriðju þjóðarinnar búa því á afmörkuðu svæði á suðvesturhorni landsins.
Þessi íbúaskipting skapar vissulega ójafnvægi í byggð landsins og landsbyggðarmenn hafa lengi kvartað undan Reykjavíkurvaldinu. Þar séu helstu valdastofnanir og þjónusta og aðrir landshlutar afskiptir. Miðað við fyrrgreinda íbúaskiptingu og höfuðborgarhlutverk Reykjavíkur er óhjákvæmilegt að þar sé þjónustan viðamest og jafnframt helstu valdastofnanir. Þrátt fyrir þessa íbúaþróun og samþjöppun þjónustu og stofnana er ekki hægt að skilgreina Ísland sem borgríki. Fyrir það fyrsta eru Reykvíkingar ekki nema rúmur helmingur íbúa höfuðborgarsvæðisins, en þeir voru í lok annars ársfjórðungs 121.882. Afgangurinn skiptist milli hinna sveitarfélaganna á svæðinu og hlutfallsleg fjölgun er þar meiri en í höfuðborginni, þar sem Kópavogur, með 33.205 íbúa, og Hafnarfjörður, með 27.875 íbúa, eru fjölmennust og leggja áherslu á sjálfsforræði sitt, þótt vissulega séu samstarfsverkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu mörg. Í annan stað er fráleitt að líta á borgarstjórn Reykjavíkur sem landsstjórn, þrátt fyrir styrk höfuðborgarinnar í krafti íbúafjölda og stöðu. Landsstjórnin er klárlega í höndum Alþingis og ríkisstjórnar á hverjum tíma.
Samt er það svo að vaxandi óþols gætir víða um land gagnvart samþjöppun margvíslegrar starfsemi á suðvesturhorni landsins. Þar er krafist aukins forræðis heimamanna í ýmsum málaflokkum. Eini stóri byggðakjarninn utan suðvesturhornsins er á Akureyri, en þar búa 18.191 manns, auk þess sem bærinn er þjónustukjarni fyrir Norður- og Norðausturland, gegnir þar borgarhlutverki í atvinnulífi, opinberri þjónustu og afþreyingu fyrir byggðarlög svæðisins.
Um þessa stöðu byggðamála verður fjallað nú um helgina á Akureyrarvöku, árlegri bæjarhátíð höfuðstaðar Norðurlands í tilefni af endurheimt kaupstaðarréttinda Akureyrar 29. ágúst 1862. Þar mun Háskólinn á Akureyri standa fyrir málþingi um byggðamál, en Þóroddur Bjarnason, prófessor á hug- og félagsvísindasviði háskólans, lýsir viðfangi málþingsins sem „endalokum höfuðborgarstefnunnar“, eins og fram kom fyrr í mánuðinum í frétt á vef Bæjarins besta á Ísafirði, en þar kemur fram að þótt málþinginu sé að hluta beint að Akureyri séu byggðamál og umræða um þau afar mikilvæg fyrir Vestfirði – og snertir vitaskuld landið allt.
Þóroddur segir að höfuðborgarstefnan, sem mörkuð hafi verið í lok 18. aldar og fólst í uppbyggingu Reykjavíkurþorpsins sem stjórnsýslu- og þjónustumiðstöðvar fyrir landið allt og megintengingar við umheiminn, hafi skilað umtalsverðum árangri fyrir Reykjavík og landið í heild og gegnt lykilhlutverki í umbreytingu landsins úr einsleitu einangruðu samfélagi sjálfsþurftarbúskapar í fjölbreytt og alþjóðlegt nútímasamfélag. Með auknum fólksfjölda, vexti annarra stærri þéttbýliskjarna, hækkandi menntunarstigi, gjörbreyttu efnahagslífi og byltingu í samgöngum og samskiptatækni hafi höfuðborgarstefnan gengið sér til húðar.
Hann bendir á að meðal forsvarsmanna Reykjavíkur gæti vaxandi óþols gagnvart hinu gamla höfuðborgarhlutverki, eins og birtist til dæmis í áformum um að loka Reykjavíkurflugvelli í þágu uppbyggingar borgarinnar, áherslu á tengsl við erlendar stórborgir umfram byggðarlög innanlands og yfirlýsingum um að efling Reykjavíkur sé hin raunverulega byggðastefna framtíðarinnar.
Þóroddur segir að þótt líta megi á þetta óþol borgarinnar annars vegar og óþols landsbyggðarinnar hins vegar gagnvart samþjöppun á suðvesturhorninu hins vegar sem einhvers konar stríð milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar sé sönnu nær að þær endurspegli breyttan veruleika og nauðsyn þess að gera upp við hina úreltu höfuðborgarstefnu, sem hann kallar svo, og móta nýja margbrotnari byggðastefnu til framtíðar. Þar skipti höfuðmáli gagnkvæmir hagsmunir ólíkra byggðarlaga og viðurkenning á réttindum og skyldum þeirra byggðarlaga sem gegna hlutverki miðstöðvar stjórnsýslu og þjónustu gagnvart íbúum landshlutanna.
The post Óþol gagnvart höfuðborgarhlutverki appeared first on FRÉTTATÍMINN.