Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Veisla fyrir humlasnobbara

$
0
0

Borg brugghús er að setja á markað Session IPA-bjór sem kallast Úlfrún. Um er að ræða léttan bjór, aðeins 4,5 prósent að styrkleika, sem er þó með fimm af vinsælustu humlategundum í bjórheiminum. Athygli vekur að Úlfrún er seld í dósum en það er til að bjórinn haldist ferskur lengur en ella.

„Þetta er bjórstíll sem hefur verið feyki vinsæll í Bandaríkjunum síðustu ár. Við höfum séð nokkur dæmi hans í innfluttum bjórum en nú er komin íslensk útgáfa,“ segir Árni Theodór Long, bruggmeistari hjá Borg brugghúsi.

Borg brugghús er að setja á markað nýjan bjór, Úlfrúnu nr. 34, sem er af Session IPA gerð. Um er að ræða léttari útgáfu af hinum vinsæla IPA-stíl, bjór sem er 4,5 prósent að styrkleika. „Flestir IPA-bjórar eru sex prósent og yfir en þessi hentar bjórþyrstum vel. Alkóhólið er það lágt að maður getur drukkið hann heila kvöldstund ef sá gállinn er á manni,“ segir Árni.

Árni segir að Úlfrún hafi verið á teikniborðinu í talsverðan tíma. „Eftir einhverjar æfingar brugguðum við loks tilraunalögun í upphafi árs og töppuðum á kúta. Við vorum ánægðir með útkomuna og sendum hann undir krana hjá nokkrum af betri bjórstöðum bæjarins og mættum með hann á bjórmenningarviðburði. Viðtökurnar voru ótrúlega góðar, þannig að við ákváðum að taka þetta lengra og hófum að tvíka til uppskriftina.

Í Úlfrúnu er að finna fimm mismunandi humla; Citra, Mosaic, Sorachi Ace, Centennial og Simcoe.

Í Úlfrúnu er að finna fimm mismunandi humla; Citra, Mosaic, Sorachi Ace, Centennial og Simcoe.

Í lokaútgáfunni er að finna rjómann af nýbylgjunni í humlasnobbinu en við notum bæði Citra og Mosaic í bjórinn, sem mikið er snobbað fyrir, enda æðislegir humlar sem gefa báðir afgerandi suðrænt ávaxtabragð. Í Úlfrúnu er einnig humlarnir Sorachi Ace, Centennial og Simcoe. Þessi humlablanda skilar ótrúlega kröftugri ávaxtasprengju í lykt og bragði – helst eru það kannski angan af mangó og grape í fljótu bragði en það má finna ýmislegt við nánari kynni. Einnig erum við með hveiti og hafra í honum í bland við byggið sem hefur verið eini kolvetnagjafinn í hinum IPA-bjórnum okkar,“ segir Árni en áður hefur Borg sent frá sér IPA-bjórana Úlf Úlf, Fenri og Úlf sem er vinsælasti bjór brugghússins.

Úlfrún er fyrsti bjór Borgar sem er tappað beint á dósir. Árni segir að það sé algengur misskilningur að bjór smakkist verr úr dósum en úr flösku.
„Já, öfugt við hugmyndir margra þá eru dósir, í lang flestum tilfellum, heppilegri umbúðir fyrir bjór en gler. Mikill meirihluti bjóra er ferskvara sem hrapar í gæðum með hverri viku frá töppun. Hefðbundnu ljósu lagerbjórarnir og svo sérstaklega þurrhumlaðir bjórar eins og IPA tapa bragðgæðum hratt og því er mikilvægt að viðhalda ferskleikanum eins og mögulegt er. Tveir af stærstu óvinum bjórs eru súrefni og ljós, sem hvorutveggja skemma hefðbundinn bjór hratt og örugglega. Dósir hafa það umfram gler að halda ljósi algjörlega frá vökvanum. Glær og græn gler standa sig auðvitað sérstaklega illa í því hlutverki en meira að segja dökkbrún gler hleypa alltaf einhverju ljósi í gegn. Dósir eru svo líka þéttari heldur en flöskurnar sem heldur súrefni í skefjum. Svo eru dósir líka miklu þægilegri fyrir neytendur,“ segir Árni.

Í eina tíð var alltaf talað um að dósabragðið smitaðist í bjórinn, er það liðin tíð?
„Hugmyndir um einhvers konar „dósabragð“ er eitthvað sem tilheyrir fortíðinni. Dósir smita engan málmkeim eða þess háttar í bjórinn sem þær kunna að hafa gert fyrir einhverjum áratugum. Eins og flestir vita líka núorðið þá drekkur maður bjór ekki öðruvísi en úr glasi. Ennfremur er auðveldara að kæla dósina, hún er léttari og ekki síst umhverfisvænni kostur.“

Árni segir að Úlfrún fari í sölu á krana á helstu bjórbörum í vikunni og þeirri næstu. Vonir standa til að dósirnar verði komnar í sölu í Vínbúðunum í næstu viku. Strákarnir í Borg munu kynna Úlfrúnu á Hlemmi Square í dag, föstudag, klukkan 17. Þar verður einnig boðið upp á tilraunabjór, eikarleginn krækiberja-Tripel sem verið er að þróa í samstarfi við veitingastaðina Fiskmarkaðinn og Grillmarkaðinn.

Og menn eru svo ánægðir með hvernig Úlfrún kemur út að það er þegar farið að huga að útrás. „Það hefur verið talsverð eftirspurn eftir Úlfi Nr. 3 að utan en við höfum ekki viljað selja hann úr landi sökum ferskleikasjónarmiða, en hann er einmitt í glerflöskum. Við setjum á hann sex mánaða „best fyrir“ stimpil sem er of stutt fyrir útflutning en erum ekki til í að lengja þann tíma og miðla málum með ferskleikann. Nú getum við hins vegar boðið Úlfrúnu þar sem dósin opnar á möguleikann á 9-12 mánaða stimpli.“

 

The post Veisla fyrir humlasnobbara appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652