Orkumarkaðir í mótun: Viðskipti og verðmyndun
Opinn morgunverðarfundur Landsvirkjunar í morgun
Húsfyllir var á opnum morgunverðarfundi Landsvirkjunar undir yfirskriftinni „Orkumarkaðir í mótun: Viðskipti og verðmyndun“ á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Á fundinum héldu sérfræðingar í viðskiptagreiningu Landsvirkjunar erindi um stöðu orkumarkaða á Íslandi og erlendis og að loknum erindum fóru fram líflegar pallborðsumræður.
Upptaka frá fundinum er á slóðinni https://youtu.be/Q8aPOXp-kjg og kynningar má nálgast á vef Landsvirkjunar https://www.landsvirkjun.is/Media/fundarod-um-raforkumarkadifinal.pdf.
Hörður Arnarson forstjóri opnaði fundinn. Hann sagði að umfjöllunarefni fundarins væri áhugavert og mikilvægt, enda væru það hagsmunir allrar þjóðarinnar að hámarka afraksturinn af þeim sameiginlegu endurnýjanlegu orkuauðlindum sem ákveðið væri að nýta. Tilgangur fundarins væri að dýpka umræðuna um viðskipti með raforku.
Hlutfall heildsöluverðs Landsvirkjunar af rafmagnsverði fer lækkandi
Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptagreiningar Landsvirkjunar, sagði að hlutfall raforku af heildarrafmagnsreikningi heimilis hefði farið lækkandi undanfarin ár, en ein skýring þess væri að heildsöluverð frá Landsvirkjun hefði hækkað minna en verðlag á tímabilinu. Heildsöluverð Landsvirkjunar sem hlutfall af rafmagnsreikningi heimilanna hefur þannig lækkað úr þriðjungi í fjórðung á síðustu 10 árum, farið úr 31% árið 2007 í 23% árið 2017. Þetta kemur fram í skýrslu EFLU verkfræðistofu, „Orkuverð á Íslandi 2005-2017“.
Í máli Vals kom fram að íslenskur raforkumarkaður væri einstakur að því leyti að hér væri einungis unnin endurnýjanleg raforka og ekkert jarðefnaeldsneyti. Skipta mætti raforkumarkaðnum á Íslandi í tvo aðskilda markaði: annars vegar stórnotendamarkað og hins vegar almennan smásölumarkað fyrir heimili og atvinnulíf. Helsti munurinn á þessum mörkuðum væri sá að íslensk orkufyrirtæki væru í samkeppni við alþjóðleg orkufyrirtæki um að fá viðskipti stórnotenda og því mætti segja að þar kepptu íslensku fyrirtækin á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Á almenna smásölumarkaðnum væru íslensk orkufyrirtæki að keppa um viðskipti þeirra aðila sem eru á Íslandi, t.d. heimila, þjónustuaðila og fyrirtækja.
Endurnýjanleg orka í mikilli sókn
Dagný Ósk Ragnarsdóttir sagði frá því að endurnýjanleg orka hefði verið í mikilli sókn á heimsvísu. Með stuðningi stjórnvalda hefðu orðið miklar tækniframfarir og kostnaður við vinnslu raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum í heiminum fallið hratt síðustu ár. Þá væru neytendur farnir að kalla á endurnýjanlega orku og fyrirtæki víða um heim sæju verðmæti í notkun hennar og væru farin að stuðla að auknum hlut hennar í raforkuframleiðslu heimsins.
Í þeim efnum færu fyrirtækin ýmsar leiðir. Ein leið væri að gera tvíhliða samninga um endurnýjanlega raforku við raforkuvinnsluaðila um kaup á endurnýjanlegri raforku frá ákveðnu orkuveri. Önnur leið væri að vinna eigin raforku á lóð sinni, t.d. með því að koma upp sólarsellum á þök bygginga, eða að fjárfesta í endurnýjanlegri raforkuvinnslu sem afhenti inn á flutningskerfið eða beint til fyrirtækisins. Enn önnur væri að kaupa græn skírteini, en með kaupum á þeim gefst raforkukaupendum kostur á að styðja við uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa þar sem vinnsla á þeim er hagkvæmust.
Raforka í Evrópu aðallega unnin úr kolum og gasi
Sveinbjörn Finnsson fjallaði um strauma og stefnur á evrópskum raforkumörkuðum. Í máli hans kom fram að raforkuviðskipti væru með nokkuð öðrum hætti erlendis en hér á landi. Rafmagn í Evrópu væri aðallega unnið úr kolum og gasi en undanfarin ár hafi verið mikið gert til að styðja við uppbyggingu endurnýjanlegrar orku með beinum styrkjum og ívilnunum. Baráttan við loftslagsbreytingar kallaði á notkun endurnýjanlegra orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis, sem hefði áhrif á verðmyndun á mörkuðum.
Sveinbjörn sagði að vegna yfirgnæfandi hlutfalls jarðefnaeldsneytis í framboði orku í heiminum réði verð á kolum og gasi að mestu langtímaverðþróun á erlendum raforkumörkuðum.
Að loknum framsöguerindum fóru fram pallborðsumræður. Þátttakendur voru Jón Vilhjálmsson, sviðsstjóri Orkusviðs hjá EFLU, Eyrún Guðjónsdóttir, sérfræðingur viðskiptaþróunar í Noregi á sviði endurnýjanlegra orkugjafa og Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun. Kristján Kristjánsson fjölmiðlamaður stýrði pallborðsumræðunum.
Umframeftirspurn eftir grænni íslenskri orku
Stefanía sagði að Landsvirkjun hefði fundið fyrir mikilli og aukinni eftirspurn eftir grænni orku, bæði frá nýjum erlendum aðilum sem vildu kaupa íslenska orku og frá núverandi viðskiptavinum. Raunar væri eftirspurnin meiri en fyrirtækið gæti annað og því hefðu margir aðilar þurft að fara bónleiðir til búðar.
Eyrún sagði afar áhugavert hafa verið að fylgjast með þróuninni í viðskiptum með græn skírteini, sem hefði verið afar mikil síðustu tíu ár, en meiri en allan þann áratug á síðustu tveimur árum og svo enn meiri en allan þennan tíma á síðustu sex mánuðum. Nú þurfi ekki lengur að reyna sérstaklega að selja græna þáttinn, heldur sjái fyrirtækin sér fjárhagslegan og samfélagslegan hag í því að heltast ekki úr lestinni.
Mikil tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki
Eyrún sagðist hafa orðið vör við að margir skildu ekki hvernig græn skírteini virka. Fram að 2000 hefðu raforkuviðskipti snúist um eina vöru, en síðan hefðu þær orðið tvær og græni þátturinn bæst við. Til að fá staðfest að þeir notuðu endurnýjanlega orku þyrftu kaupendur orkunnar að kaupa grænu skírteinin. Eyrún sagði að það yrði spennandi að sjá hvernig íslensk fyrirtæki nýttu sér þetta tækifæri á næstu mánuðum og misserum.
Stefanía útskýrði að grænu skírteinin væru hvatakerfi, þar sem notendur orku hefðu val um að kaupa skírteinin til hagsbóta fyrir sjálfa sig og umhverfið. Landsvirkjun hefði ákveðið að láta græn skírteini fylgja með allri raforkusölu inn á heildsölumarkað, sem gæfi hverju einasta íslensku heimili og fyrirtæki vottaða græna raforku. Í þessu fælust gríðarleg tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í markaðssetningu erlendis.
Mikil samkeppni á smásölumarkaði á Íslandi
Jón sagði að samkeppni á íslenskum smásölumarkaði fyrir fyrirtæki hefði farið mjög vaxandi síðan 2005, þegar samkeppni var komið á hér á landi í kjölfar setningar raforkulaganna 2003. Fyrirtæki hans, EFLA verkfræðistofa, hefur séð um útboð á raforkunotkun fyrir stofnanir og fyrirtæki. Árið 2003 hafi sölufyrirtækin gefið tiltölulega litla afslætti í útboðum, en núna sé samkeppnin afar mikil og mikill afsláttur í boði.