Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Hinn sérstaki

$
0
0

Á fjölum Þjóðleikhússins í vetur verður Hrói höttur ansi fyrirferðarmikill. Þessi sýning sem er uppfærsla Vesturports á sögunni um þessa gömlu söguhetju skartar mörgum af bestu leikurum landsins og leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar og Selmu Björnsdóttur. Aðalhlutverkið, sjálfan Hróa hött, leikur Þórir Sæmundsson sem undanfarin ár hefur leikið hin ýmsu hlutverk á sviði og í sjónvarpi. Þetta er hans fyrsta burðarhlutverk og hann segir stutt síðan að honum hefði ekki verið treyst fyrir þessu. Hann endurskoðaði líf sitt fyrir 18 mánuðum og áttaði sig á því að hann var ekki Jose Mourinho leiklistarinnar. Hann tekur auðmjúkur á móti nýju leikári.

Þórir Sæmundsson er 34 ára gamall og lærði leiklist í Noregi. Hann flutti til Noregs ásamt foreldrum sínum og bræðrum að loknum grunnskóla og eftir leiklistarnámið fékk hann tækifæri í norskum leikhúsum en kom heim árið 2007, eingöngu vegna þess að hann fann fyrir heimþrá. Hann var alltaf unglingurinn sem vissi allt best og skildi aldrei neitt í því þegar aðrir voru að reyna að kenna honum eitthvað sem hann þóttist kunna. Það tók hann mörg ár að fatta það að hann væri ekkert meira sérstakur en næsti maður. Þórir útskrifaðist sem leikari aðeins 21 árs og hefur því starfað á því sviði í 13 ár, þrátt fyrir ungan aldur.

Hélt að ég væri „hinn sérstaki“
Þórir var duglegur að taka þátt í félagsstarfi í menntaskólanum og gerði töluvert af því að setja upp revíur sem var Norðmanna siður. Leikform sem ekki hefur verið sett mikið upp á Íslandi í seinni tíð. „Það mætti gera meira af revíum á Íslandi því þetta er svo opið listform,“ segir Þórir. „Á lokaárinu var ég revíustjóri þar sem við settum upp sýningu sem enn er talað um því hún var mjög gróf,“ segir Þórir. „Við vorum með djarfan klæðnað og djarfar athafnir í sýningunni sem Norðmenn voru kannski ekki vanir. Allavega ekki í skólanum mínum. Ég útskrifast svo úr skólanum með ágætis einkunnir og fer í leiklistarprufur í norska leiklistarskólann. Mér finnst það ennþá óskiljanlegt að ég hafi komist þar inn,“ segir Þórir.
„Það voru 700 manns sem sóttu um og átta teknir inn. Mjög strangt inntökuferli og mikið álag og ég hafði enga trú á því að ég kæmist þarna inn. Kannski er það ein af ástæðunum fyrir því að ég komst inn,“ segir hann. „Mér fannst sturlað að komast í gegnum hverja síuna á fætur annarri. Ég var bara 19 ára og ætlaði bara að vinna á bar og fara til Indlands og finna mig, eins og svo margir unglingar hugsa. En svo komst ég bara inn,“ segir hann. „Seinna meir áttaði ég mig á að það var kannski ekki svo gott að komast inn svona ungur.“
Hvernig þá?
„Það varð bara einhver egó-sprengja,“ segir Þórir.
„Sem hefur tekið mig langan tíma að greiða úr. Ég hafði ekki áttað mig á því að ég hefði verið svona ofboðslega hrokafullur og lítill efasemdarmaður um eigið ágæti,“ segir hann. „Ég var fyrsti útlendingurinn sem komst inn í skólann og yngsti nemandinn frá upphafi. Ég byrjaði þetta nám með þá hugsun að ég væri Jose Mourinho leiklistarinnar. The Special One,“ segir Þórir.

Þórir Sæmundsson er í ítarlegu viðtali í Fréttatímanum um helgina

The post Hinn sérstaki appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652