Á fjölum Þjóðleikhússins í vetur verður Hrói höttur ansi fyrirferðarmikill. Þessi sýning sem er uppfærsla Vesturports á sögunni um þessa gömlu söguhetju skartar mörgum af bestu leikurum landsins og leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar og Selmu Björnsdóttur. Aðalhlutverkið, sjálfan Hróa hött, leikur Þórir Sæmundsson sem undanfarin ár hefur leikið hin ýmsu hlutverk á sviði og í sjónvarpi. Þetta er hans fyrsta burðarhlutverk og hann segir stutt síðan að honum hefði ekki verið treyst fyrir þessu. Hann endurskoðaði líf sitt fyrir 18 mánuðum og áttaði sig á því að hann var ekki Jose Mourinho leiklistarinnar. Hann tekur auðmjúkur á móti nýju leikári.
Þórir Sæmundsson er 34 ára gamall og lærði leiklist í Noregi. Hann flutti til Noregs ásamt foreldrum sínum og bræðrum að loknum grunnskóla og eftir leiklistarnámið fékk hann tækifæri í norskum leikhúsum en kom heim árið 2007, eingöngu vegna þess að hann fann fyrir heimþrá. Hann var alltaf unglingurinn sem vissi allt best og skildi aldrei neitt í því þegar aðrir voru að reyna að kenna honum eitthvað sem hann þóttist kunna. Það tók hann mörg ár að fatta það að hann væri ekkert meira sérstakur en næsti maður. Þórir útskrifaðist sem leikari aðeins 21 árs og hefur því starfað á því sviði í 13 ár, þrátt fyrir ungan aldur.
Spennandi að leika Hróa hött
„Við erum bara á fullu þessa dagana og frumsýningin er 12. september,“ segir Þórir um hlutverk sitt í Hróa hetti. „Ég held að þetta gangi þrusuvel og ég er að fíla þetta. Þetta er skemmtilegt, spennandi og fyndið og þetta er gríðarlega líkamlegt. Ég er að drepast í líkamanum alla daga. Ég er að finna fyrir verkjum í einhverjum vöðvum og vöðvafestingum sem ég vissi ekki einu sinni af. Þetta er samt svo gaman og ég hef mikla trú á því að þetta verði mjög flott,“ segir Þórir. „Þetta er ekki þessi klassíska Hróa hattar pæling. Hann er ekkert þessi hetja í byrjun sem allir upplifa, en það breytist svo. Salka Sól kemur svo með tónlist sem gefur þessu nýtt líf, en þetta er alls ekki söngleikur samt. Bara leikhús með músík.“
Þórir vann í rúm þrjú ár í Þjóðleikhúsinu eftir að hann flutti heim, og fór þá yfir í Borgarleikhúsið þar sem hann tók þátt í metsölusýningunni Mary Poppins. Hann skipti svo aftur yfir í Þjóðleikhúsið á síðasta ári. „Ég var í Latabæ, Sjálfstæðu fólki og Karítas: Án titils í fyrra og í vetur verð ég allavega í Hróa, örugglega einhverju fleiru en það er ekki tími til að spá í það fyrr en eftir frumsýningu,“ segir hann. „Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessu og finnst gaman að það er mikill utanaðkomandi áhugi á þessari sýningu.“
Fannst Ari Matt mesti töffarinn
Hver er Þórir Sæm?
„Hver er Þórir Sæm? Það er góð spurning,“ segir hann.
„Mamma og pabbi fá þá flugu í hausinn þegar ég var 15 ára að flytja til Noregs,“ segir Þórir. „Þau voru frumkvöðlar hvað það varðar. Þau vildu bara breyta til og ég var þarna að klára grunnskóla og bræður mínir yngri og það passaði ágætlega. Á þessum tíma var þetta bara ævintýraþrá, það var ekki vegna þess að fólk væri að flýja eins og í dag. Mér leist ekkert á þetta og var í einhverri uppreisn. Ég ætlaði bara að fara í Flensborg því ég er Hafnfirðingur og var alls ekkert til í þetta,“ segir Þórir. „Ég hafði alltaf verið að daðra við leiklist og lék Bugsy Malone í Hafnarfjarðarleikhúsinu og lék líka í Evu Lunu í Borgarleikhúsinu og þá var maður algerlega bitinn af þessari dellu,“ segir hann.
„Þar horfði maður á Magga Jóns og Ara Matt og mér fannst þetta mestu töffarar í heimi. Sem er svo fyndið þegar Ari er yfirmaður minn í dag,“ segir Þórir. „Mér þótti töfrum líkast að vera í leikhúsi og þegar ég vinn með krökkum í dag hef ég gaman af að fylgjast með þeim, því ég sé að þeim finnst þetta eins og mér fannst þetta. Mamma hafði fundið menntaskóla sem lagði mikið upp úr leiklist og ég fór þangað og fór með Hávamál á ensku og það fannst þeim greinilega sniðugt og tóku mig inn,“ segir Þórir. „Ég byrjaði í þessum menntaskóla og skildi ekki neitt. Eftir svo tvo mánuði þá small þetta og mér fannst ógeðslega gaman. Norsku krökkunum fannst mjög svalt að hafa einn íslenskan á þessum tíma. Ég veit ekki hvort það er ennþá þannig í dag. Þarna var ég bara íslenski gaurinn. Þegar ég flutti svo heim var ég fyrst um sinn norski gaurinn.“
Image may be NSFW.
Clik here to view.
Hélt að ég væri „hinn sérstaki“
Þórir var duglegur að taka þátt í félagsstarfi í menntaskólanum og gerði töluvert af því að setja upp revíur sem var Norðmanna siður. Leikform sem ekki hefur verið sett mikið upp á Íslandi í seinni tíð. „Það mætti gera meira af revíum á Íslandi því þetta er svo opið listform,“ segir Þórir. „Á lokaárinu var ég revíustjóri þar sem við settum upp sýningu sem enn er talað um því hún var mjög gróf,“ segir Þórir. „Við vorum með djarfan klæðnað og djarfar athafnir í sýningunni sem Norðmenn voru kannski ekki vanir. Allavega ekki í skólanum mínum. Ég útskrifast svo úr skólanum með ágætis einkunnir og fer í leiklistarprufur í norska leiklistarskólann. Mér finnst það ennþá óskiljanlegt að ég hafi komist þar inn,“ segir Þórir.
„Það voru 700 manns sem sóttu um og átta teknir inn. Mjög strangt inntökuferli og mikið álag og ég hafði enga trú á því að ég kæmist þarna inn. Kannski er það ein af ástæðunum fyrir því að ég komst inn,“ segir hann. „Mér fannst sturlað að komast í gegnum hverja síuna á fætur annarri. Ég var bara 19 ára og ætlaði bara að vinna á bar og fara til Indlands og finna mig, eins og svo margir unglingar hugsa. En svo komst ég bara inn,“ segir hann. „Seinna meir áttaði ég mig á að það var kannski ekki svo gott að komast inn svona ungur.“
Hvernig þá?
„Það varð bara einhver egó-sprengja,“ segir Þórir.
„Sem hefur tekið mig langan tíma að greiða úr. Ég hafði ekki áttað mig á því að ég hefði verið svona ofboðslega hrokafullur og lítill efasemdarmaður um eigið ágæti,“ segir hann. „Ég var fyrsti útlendingurinn sem komst inn í skólann og yngsti nemandinn frá upphafi. Ég byrjaði þetta nám með þá hugsun að ég væri Jose Mourinho leiklistarinnar. The Special One,“ segir Þórir.
Það er ekki nóg að hafa hæfileikana
„Ég rak mig samt ekki mikið á í skólanum því þetta er svo ofboðslega skemmtilegt nám,“ segir Þórir. „Ég er ekkert að gera lítið úr leiklistarskólanum hér heima, en ég áttaði mig á því seinna hvað það er ótrúlega mikið lagt í leiklistarnám í Noregi. Enda er næstmestum fjármunum varið í leiklistarnema af norska ríkinu. Næst á eftir orrustuflugnámi norska hersins,“ segir hann.
„Þetta var mjög krefjandi og erfitt, en um leið alveg ótrúlega gaman. Langir dagar. Margar uppfærslur og ótrúlegur tími og mýtan um alla allsbera saman í sturtu í leiklistarnámi. Það er allt saman satt og rétt,“ segir hann.
„Ég fór í svaka uppreisn á tímabili því ég fékk nóg af því að það væri verið að krukka í mér. Maður var brotinn niður og byggður upp sitt á hvað. Ég skil það samt allt í dag, en þetta er töff að ganga í gegnum. Ég var ungur og ör,“ segir Þórir. „Það sem var kannski erfiðast var að læra að tala norsku nánast upp á nýtt. Maður lærir að tala upp á nýtt í leiklistarnámi og í norsku leikhúsi þarf maður að kunna sérstaka tegund af norskunni,“ segir hann. „Norðmenn eru með einhverja tugi mállýska og eru stoltir af hverri og einni. Þess vegna finnst mér bagaleg þróun hjá ungu fólki á Íslandi í dag að það tala allir eins. Hvort sem þeir eru að norðan eða sunnan. Við þurfum að viðhalda okkar litlu mállýskum,“ segir Þórir.
Eftir námið fer Þórir strax að leika, fékk hlutverk hjá leikhúsunum í Noregi og ferðaðist um allt land með leiksýningar í nokkur ár. Hann fékk svo hlutverk Makka hnífs í Túskildingsóperunni hjá Ríkisleikhúsinu í Noregi, sem var stór rulla og Þórir vakti athygli fyrir. „Ég var ekki nema 25 ára þegar ég fékk þetta hlutverk Makka hnífs,“ segir Þórir. „Í dag er þetta hlutverk eiginlega draumahlutverkið mitt og ég væri mjög til í að leika hann eftir svona fimm ár. Maður þarf vigt í Makkann. Það er ekki nóg að hafa hæfileikana, því þeir eru ekki allt. Maður þarf að hafa upplifað ákveðna hluti til þess að gefa þeim vigt,“ segir hann.
Image may be NSFW.
Clik here to view.
Náði botninum eftir Mary Poppins
Eftir nokkur ár á norskum leiksviðum bankaði heimþráin á dyrnar og Þórir ákvað að halda heim til Íslands. Hann segir að það hafi hjálpað honum að hafa reynsluna frá Noregi til að fá hlutverk hér heima. Hann er ekki viss um að hann hefði fengið nokkuð að gera ef hann hefði komið heim strax eftir námið. „Íslendingar eru alltaf hrifnir af því að einhverjum hafi gengið vel erlendis,“ segir Þórir.
„Ég var bæði heppinn og örugglega ágætur leikari því ég gat farið á fund leikhússtjóranna með eitthvað í höndunum. Ég kom heim ansi öruggur með mig og ennþá með sama hrokann og yfirlætið og ég var með í leiklistarskólanum,“ segir Þórir. „Ég fékk samning hjá Þjóðleikhúsinu og fékk þar viðvörun á tímabilinu, þar sem samstarfsfólk mitt var hreinlega að kvarta undan mér. Ég vissi allt betur en aðrir og fannst íslenskt leikhús ekki eins og norskt. Ég tók þetta ekkert til mín og hélt bara áfram þangað til að ég vara bara hreinlega látinn fara,“ segir hann.
„Það var auðvitað áfall en samt ekki nógu mikið til þess að hrista mig. Ég fór bara í fýlu. Ég gerði eina sýningu í Tjarnarbíói og þaðan fór ég í Borgarleikhúsið. Þar reyndi ég allt sem ég gat að vera ekki fávitinn sem ég hafði verið áður,“ segir Þórir. „Ég áttaði mig svo á því fyrir tæpum tveimur árum að það væri eitthvað mikið að hjá mér. Ég var búinn að klúðra öllum tækifærum sem ég hafði fengið. Búinn að klúðra öllum samböndum sem ég hafði stofnað til, og fjölskyldan var hætt að nenna að tala við mig. Þegar Mary Poppins kláraðist, sem var mín eina vinna þá, fór í hönd neyslutímabil þar sem ég drakk mikið og notaði ólögleg eiturlyf og náði bara mínum botni hreinlega,“ segir Þórir. „Þetta var í febrúar í fyrra. Ég var kominn í alvarlegar og leiðinlegar pælingar og fyrir guðs mildi þá fann ég bara að þetta var ekki það sem ég vildi og leitaði hjálpar. Ég fór á fund og síðan þá hefur þessi jákvæðnisbolti rúllað.“
Hættur að vera afæta á allt
Þórir er einstæður faðir tveggja drengja sem eru sex og sjö ára, og hefur í sínu breytta líferni upplifað nýja sýn á lífið. „Ég er ennþá gagnrýninn og beittur og að vissu leyti vottar ennþá fyrir hrokanum en ég held að það sé farið að bera á einhverju sem var ekki til staðar. Ég vona það allavega,“ segir hann og hlær.
„Allt það fólk sem ég lít upp til í lífinu hefur það í sér að sýna auðmýkt og þakklæti í því sem það er að gera. Mér fannst pirrandi áður fyrr þegar ég var spurður hvort það væri ekki gaman að vera leikari,“ segir hann. „Ég tók því sem sjálfsögðum hlut af því að ég var svo frábær. Í dag er ég auðmjúkur gagnvart því og í fyrsta sinn kann ég að vera þakklátur fyrir það,“ segir Þórir. „Mér hefði ekki verið treyst fyrir Hróa fyrir tveimur árum.“
Ertu í sambandi í dag?
„Nei ég er búinn að vera einhleypur í talsverðan tíma,“ segir Þórir.
„Samband hefur ekki verið á döfinni undanfarið en það kæmi mér verulega á óvart ef það gerðist ekki aftur. Ég er búinn að endurheimta tímann með sonum mínum og er hættur að vera afæta á allt. Ég gaf aldrei af mér, ég tók bara,“ segir hann. „Ég finn minn tíma og finn samband er bara eitthvað sem kemur með tímanum. Hrói höttur er á lausu,“ segir Þórir Sæmundsson leikari.
Image may be NSFW.
Clik here to view.
The post Ég er ennþá smá hrokagikkur appeared first on FRÉTTATÍMINN.