Borgarsögusafn Reykjavíkur stendur fyrir tveimur merkilegum sýningum í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt. Um er að ræða sýningarnar Sjókonur sem búið er að koma fyrir í Sjóminjasafninu í Reykjavík og sýninguna Hjáverkin sem sýnd er í Árbæjarsafni en bæði söfnin heyra undir Borgarsögusafn.
Sjósókn íslenskra kvenna í fortíð og nútíð
Sjókonur er ný sýning í Sjóminjasafninu í Reykjavík sem rekur sögu íslenskra kvenna sem sóttu sjóinn, í fortíð og nútíð. Sýningin er samstarfsverkefni Borgarsögusafns og dr. Margaret E. Willson, mannfræðings við háskólann í Washington í Bandaríkjunum. „Undanfarin ár hefur hún safnað heimildum um sjósókn íslenskra kvenna, frá upphafi byggðar til vorra daga. Sýningin byggir á áður óbirtum rannsóknum dr. Willson en þær kollvarpa þeim hugmyndum sem uppi eru um sjósókn kvenna sem var og er mun almennari en áður var talið,“ segir Íris Gyða Guðbjargardóttir sýningarstjóri.
Frásagnir af konum sem sóttu sjó markast ekki síst af hugdirfsku þeirra á sjó, útsjónarsemi og styrk. Heimildir greina frá aflsæknum konum og kvenkyns formönnum. Finna má frásagnir af konum sem fæddu börn úti á opnu hafi eða í flæðarmáli rétt eftir lendingu. Þessi dæmi og fjölmörg fleiri benda til þess að sjósókn hafi verið eðlilegur hluti af lífi margra kvenna.

Sýningin Sjókonur fer fram í Sjóminjasafninu í Reykjavík í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Mynd/Borgarsögusafn Reykjavíkur

Sjókonur er ný sýning í Sjóminjasafninu í Reykjavík sem rekur sögu íslenskra kvenna sem sóttu sjóinn, í fortíð og nútíð. Mynd/Borgarsögusafn Reykjavíkur
Hjáverkin
Á Árbæjarsafni opnaði nýverið sýningin Hjáverkin – atvinnusköpun kvenna í heimahúsum 1900-1970 sem byggir á safnkosti Borgarsögusafns Reykjavíkur og rannsóknum safnsins á vinnu kvenna. Ábyrgð kvenna á eigin afkomu og afkomu fjölskyldunnar hefur almennt ekki verið mikils metin í samfélagslegri umræðu, bókmenntum og sögubókum. Langt fram eftir 20. öld voru karlar fyrirvinnur en konur voru heima. Framleiðsla kvenna hefur í gegnum tíðina verið vandlega falin og vantalin í hagrænum skilningi. „Sýningin er því óður til kvenna. Óður til framtaksemi þeirra, hugmyndaauðgi og sjálfsbjargarviðleitni. Konur hafa ætíð axlað ábyrgð en möguleikar þeirra hafa oft á tíðum verið afar takmarkaðir,“ segir Gerður Róbertsdóttir sýningarhöfundur. Á sýningunni er ljósi varpað á þessa földu veröld kvenna, hvernig konum tókst að afla tekna í hjáverkum samhliða skyldustörfum til að sjá sér og sínum farborða.

Sýningin Hjáverkin í Árbæjarsafni fjallar um atvinnusköpun kvenna í heimahúsum á tímabilinu 1900-1970. Mynd/Borgarsögusafn Reykjavíkur

Sýningin er óður til kvenna. Mynd/Borgarsögusafn Reykjavíkur

Á sýningunni er ljósi varpað á hvernig konum tókst að afla tekna í hjáverkum samhliða skyldustörfum til að sjá sér og sínum farborða. Mynd/Borgarsögusafn Reykjavíkur
100 viðburðir í tilefni 100 ára
Sýningarnar eru hluti af 100 viðburðum sem borgin stendur fyrir í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt og kjörgengi. Árbæjarsafn og Sjóminjasafnið eru opin daglega frá kl. 10-17. Árbæjarsafn er í Kistuhyl, 110 Reykjavík og Sjóminja safnið í Reykjavík er á Grandagarði 8, 101 Reykjavík. Á vefsíðu Borgarsögusafns má nálgast nánari upplýsingar og þar er einnig að finna viðburðadagatal sem sýnir alla viðburði safnsins.
Unnið í samstarfi við Borgarsögusafn Reykjavíkur
The post Sýningar um sjómennsku og atvinnusköpun kvenna appeared first on FRÉTTATÍMINN.