Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Arion banki fyrsti bankinn til að hljóta jafnlaunavottun VR

$
0
0

Jafnlaunavottun VR var fyrst kynnt í febrúar 2013 og er markviss leið fyrir atvinnurekendur til að uppfylla kröfur nýs jafnlaunastaðals Staðlaráðs Íslands. Arion banki er stærsta fyrirtækið sem hefur hlotið þessa vottun og fyrsti bankinn. Kerfið mun tryggja að starfsfólki Arion banka sem vinnur sambærileg störf sé ekki mismunað í launum. 

Með jafnlaunavottuninni hefur bankinn fengið staðfestingu á því að búið sé að kerfisbinda launaákvarðanir og að hann sé með jafnlaunakerfi samkvæmt kröfum ÍST 85:2012. Í tilkynningu frá VR og Arion banka var haft eftir Ólafíu B. Rafnsdóttur, formanni VR, að það væri ánægjulegt og ekki síður mikilvægt þegar stór banki á við Arion banka bætist í hóp jafnlaunavottaðra fyrirtækja. Jafnlaunavottun VR tekur nú til 24 fyrirtækja og stofnana á íslenskum vinnumarkaði.

Ábyrg vinnubrögð
Jónas Hvannberg, starfsmannastjóri hjá Arion banka, segir jafnlaunavottunina hafa mikla þýðingu fyrir bankann, jafnt inn á við sem út á við. „Starfsfólk getur verið öruggt um að við séum að vinna eftir ákveðnum vinnureglum og ferlum. Það skiptir einnig máli að almenningur viti að við erum að vinna á ábyrgan hátt hvað varðar jafnrétti. Fólk sem sækir um vinnu hjá okkur getur verið visst um að karlar og konur njóti sömu launaréttinda.“ Vottunarferlið hófst síðastliðið haust og frá áramótum hefur sérstakur verkefnastjóri starfað innan bankans að því að undirbúa vottunina. Mikill vilji var meðal starfsfólks að innleiða jafnlaunakerfi og margir lögðu verkefninu lið. „Það er mikil ánægja með niðurstöðuna,“ segir Jónas.

Jafnlaunakerfið nær til fleiri þátta en jafnréttis kynjanna
„Markmiðið með Jafnlaunavottun VR er að sjálfsögðu að jafna hlut kynjanna þegar kemur að launamálum. Það kom okkur þó skemmtilega á óvart að þegar líða tók á ferlið áttuðum við okkur á því að jafnlaunakerfið nær til fleiri þátta. Þannig tryggir kerfið að jafn verðmæt störf eru borin saman þvert yfir bankann, ekki eingöngu á milli kynja. Sem dæmi má nefna að sambærileg störf eru borin saman á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðar, milli deilda og sviða og á kerfið að tryggja að sambærileg laun séu greidd fyrir jafn verðmæt störf óháð búsetu eða öðrum þáttum. Jafnlaunavottunin tryggir því jafnrétti starfsmanna almennt, þvert yfir einingar, en ekki aðeins á milli kynja. Ég get ekki annað en mælt með því að sem flest fyrirtæki fari í gegnum þetta ferli sem er virkilega hollt og lærdómsríkt,“ segir Jónas.

Hluti af stærri jafnréttisstefnu
Ísland telst vera fremst í flokki í jafnréttismálum á heimsvísu, samkvæmt World Gender Gap Report. „Það er skýr krafa starfsmanna Arion banka að þeir geti treyst því að konur og karlar sitji við saman borð þegar kemur að launaákvörðunum og er jafnlaunavottunin liður í því að tryggja að svo sé. Við erum með skýra jafnréttisstefnu og sérstaka jafnréttisnefnd starfandi innan bankans. Þar er verið að huga að ýmsum öðrum þáttum eins og til dæmis ráðningum og kynjaskiptingu í deildum,“ segir Jónas. „Að lokum vil ég fyrir hönd starfsfólks Arion banka óska landsmönnum öllum til hamingju með 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.“

Unnið í samstarfi við Arion banka

The post Arion banki fyrsti bankinn til að hljóta jafnlaunavottun VR appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652