Blikktromman er ný tónleikaröð í Hörpu sem leggur áherslu á að bjóða upp á tónleika með nokkrum fremstu tónlistarmönnum þjóðarinnar í gæðaumhverfi tónlistarhúss allra landsmanna við höfnina. Blikktromman verður slegin í fyrsta sinn á miðvikudagskvöldið, 2. september, og er það tónlistarmaðurinn Valdimar Guðmundsson sem ríður á vaðið ásamt gítarleikaranum Erni Eldjárn. Tónleikarnir hefjast klukkan 20. Miðasala á tónleika Valdimars á Blikktrommunni stendur yfir á Harpa.is.
Í kjölfar tónleika Valdimars verður síðan boðið upp á tónleika fyrsta miðvikudagskvöld hvers mánaðar í vetur. Blikktromman mun bjóða upp á fjölbreytta flóru sitjandi tónleika í Kaldalnónssal Hörpu þar sem tónleikagestir geta hlýtt á framúrskarandi listamenn koma fram í návígi þessa skemmtilega salar. Eftir tónleikana gefst gestum kostur á að setjast niður með drykk og útsýni yfir smábátahöfnina. Viðburðir Blikktrommunar fyrir áramót verða tónleikar með Úlfi Eldjárn 7. október, Sóley 3. nóvember og Sin Fang 2. desember.
The post Valdimar ríður á vaðið á Blikktrommunni appeared first on FRÉTTATÍMINN.