Ragnhildur Þórðardóttir, eða Ragga nagli eins og hún er betur þekkt, starfar sem klínískur heilsusálfræðingur og einkaþjálfari. Hún er búsett í Kaupmannahöfn þar sem líf hennar einkennist af heilbrigðum lífsstíl, jákvæðri hugsun, hollum og gómsætum mat og lyftingum. Hún er væntanleg á klakann í næsta mánuði þar sem hún ætlar meðal annars að kenna landanum að matreiða gómsætt gúmmelaði með hollum og næringarríkum hráefnum.
Haustið er tíminn þar sem margir setja sér heilsutengd markmið. Þessi árstíð breytir þó litlu hvað þetta varðar hjá Röggu nagla. „Ég breyti engu, hjá mér er það að fara í ræktina og borða hollan og góðan mat bara eins og að bursta tennur. Ég ferðast mjög mikið og það er alveg sama í hvað aðstæðum ég er, ég æfi alltaf. Ég gúggla bara næstu líkamsræktarstöð. Það er sama hvert ég er að fara, ég pakka alltaf ræktarfötunum eins og tannburstanum.“
Ekki hægt að sigra heiminn á einni viku
En fyrir þá sem ætla að setja heilsuna í fyrsta sæti í haust bendir Ragga á að sniðugt sé að setja sér markmið og skrifa þau niður á blað. „Það skiptir þó höfuðmáli að setja sér raunhæf markmið sem samræmast hvert öðru. Það er ekki hægt að bæta vöðvamassa og minnka fitu á sama tíma til dæmis.“ Þegar markmiðin hafa verið sett er svo bara að koma sér af stað og fara dýpra í markmiðin. „Það er gott að staldra við og spyrja sig af hverju maður vill ná tilteknu markmiði. Af hverju skiptir það okkur máli? Þá er gott að hafa skrifað markmiðin niður og skoða ástæðurnar fyrir hverju og einu markmiði.“ Ragga segir einnig að í öllum hamaganginum skipti þó máli að fara rólega af stað. „Korter er betra en núll. Semdu við sjálfan þig og bættu smám saman ofan á. Það er ekki hægt að sigra heiminn fyrstu vikuna í september.“

Matreiðslunámskeiðin hafa notið gríðarlegra vinsælda. Aðeins 8 mínútur tók að selja öll laus sæti á eitt námskeið. Ragga nagli ætlar einnig að fara norður á Akureyri og halda námskeið þar.
Seldist upp á átta mínútum
Ragga er væntanleg til Íslands í næsta mánuði þar sem hún ætlar meðal annars að kenna áhugasömum hvernig má matreiða ýmislegt góðgæti með heilsusamlegum hætti. „Þetta er tólfta námskeiðið sem ég held. Þau hafa verið rosalega vinsæl og ég held að metið sé átta mínútur frá því sala hófst og þar til varð uppselt á námskeiðið. Námskeiðin tvö sem ég ætla að halda núna í september seldust upp á fjórum klukkutímum. Ég er því afskaplega þakklát hvað það eru margir sem hafa áhuga á að kynna sér hollari matargerð.“ Á námskeiðunum notar Ragga ýmis hráefni sem virðast ansi framandi, svo sem möndlumjöl, stevíu og erythritol. „Þetta er kannski hálfgerð hebreska fyrir marga en þetta er í raun ósköp einfalt. Ég kenni fólki að nota hollari valkosti þegar kemur að sætu og fitu. Ég er mikið að vinna með NOW vörurnar sem ég nálgast í Nettó sem er útópía heilsuspaðans. Ég vildi óska að það væri Nettó hér í Danaveldi.“ Námskeiðin fara fram í Lækjarskóla í Hafnarfirði í skólaeldhúsi þar og það myndast alltaf mjög góð stemning. „Fólk er ekki bara að kynnast nýju hráefni heldur einnig hvert öðru. Í lok námskeiðs myndast hálfgerð fermingarveislustemning þar sem við gæðum okkur á kræsingunum. Dæmi um mat sem eldaður verður á námskeiðinu eru ostakökur úr kotasælu og skyri, brownies og pizzur.“

Ragga segir að þó svo að mörg heilsutengd hráefni virðist framandi sé engin ástæða að óttast að nota þau. „Þetta er kannski hálfgerð hebreska fyrir marga en þetta er í raun ósköp einfalt.“

Á matreiðslunámskeiðinu matreiðir Ragga ýmsilegt gúmmelaði í heilsusamlegum búning, svo sem cupcakes, brownies og pizzur.
Samfélagsmiðlanagli
Ragga heldur úti síðu á Facebook og á hverjum degi bætast við fylgjendur og eru þeir nú tæplega 17.000 talsins. „Ég skil stundum ekki hvernig fólk nennir að lesa nöldrið í mér. Ég er ótrúlega þakklát öllum þeim sem fylgja mér á samfélagsmiðlum. Ég hef haft það prinsipp frá upphafi að fólk þarf ekki að deila síðunni minni eða hoppa á öðrum fæti til að fá einhverja uppskift. Það er alltaf svo mikil jákvæðni og gleði á Facebook-síðunni minni þannig ég hlakka alltaf til að setja eitthvað inn á hana,“ segir Ragga nagli, sem er jafnframt spennt fyrir komandi Íslandsferð.
The post Jafn mikilvægt að pakka ræktargallanum eins og tannburstanum appeared first on FRÉTTATÍMINN.